Á maður á dánarbeðinu kannski eftir að sjá eftir því að hafa ekki varið meiri tíma í vinnunni?

Mikill fagnaðarboðskapur gengur nú yfir land og þjóð. Boðskapur sem væntanlega á eftir að gera okkur öll frjáls og leiða okkar til hamingjunnar. Þetta er skattalækkunarhamingjuboðskapurinn sem enginn virðist þora að draga í efa.

Ég hef verið að reyna að hlusta eftir því hvernig skattalækkunartrúboðarnir ætla sér að láta hið opinbera halda óskertum tekjum sínum ef skattar lækka og eru svörin öll á eina leið: Með lækkun skatta mun fólk vinna meira, eða með orðalagi Höllu Tómasdóttur í viðskiptablaði Fréttablaðsins í morgun: "Lægri skattheimta hvetur fólk til vinnu."

Sama sagði skattagúrúinn Edward C. Prescott og allir migu í sig af hrifningu þegar hann kom til landsins. Í viðtali í Kastljósinu fékk hann hinsvegar þá spurningu hversvegna íslendingar ættu að vinna meira en raunin er og reyndi ég að hlusta eins vel og ég gat en því miður fann ég engin bitastæð rök fyrir auknu vinnuálagi íslendinga. Hann hafði það eitt til málana að leggja að fólk myndi vinna meira. (Og þá væntanlega kaupa fleiri bráðnauðsynlega hluti eins og hjólhýsi, flatskjái, bíla osfrv.)

Þeir sem boða okkur fagnaðarerindið um að verja meiri tíma á vinnustaðnum mættu svara eftirfarandi spurningu:

Þegar maður liggur fyrir dauðanum og fer að velta því upp hvernig lífi maður hefði viljað lifa, hvað maður hefði viljað gera öðruvísi getur þá verið að maður eigi eftir að sjá eftir því að hafa ekki varið meiri tíma á vinnustaðnum fjarri fjölskyldu, vinum og áhugamálum?

Og eitt að lokum að sinni. Kíkið á myndirnar af því sem kallast "salaryman" á World press photo sýningunni en þær sýna vinnualka af verstu gerð sem eru þrælar atvinnunnar.

Stundum eru önnur gildi þess virði að lifa fyrir en þau sem beinlínis eru vinnutengd.

http://www.worldpressphoto.org/index.php?option=com_photogallery&task=view&id=866&Itemid=146


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Ég lýsi því hér með yfir, að ég dreg skattalækkunarhamingjuboðskapinn í efa. Og meira en það: ég vísa honum norður og niður og til vara út í hafsauga.

Jóhannes Ragnarsson, 1.8.2007 kl. 11:18

2 Smámynd: Sigurður Axel Hannesson

Áhugavert í meira lagi. Það njóta vissulega ekki allir þeirra forréttinda að geta starfað að heiman, meira eða minna í faðmi fjölskyldunnar. Raunar mjög fáir, ef út í það er farið.

Veit ekki hvernig, en einhvern veginn hefur mér yfirleitt tekist vel upp að finna "hinn gullna meðalveg" í leikjum og störfum, burtséð frá hve vel eða illa launuð störfin eru. Vissulega hefur stundum verið barningur við að ná endum saman, en það hefur þó jafnan leyst af sjálfu sér, eða með örlitlu aukaátaki ef svo ber undir.

Þetta er nýtt sjónarhorn fyrir mér, svo vel má vera að ég hafi enn ekki gripið hugmyndina nógu þéttu taki. Vel má vera að einhverjir grípi færið fegins hendi til að vinna enn meira, enn lengur, en það eru þá vafalítið menn sem eiga við önnur vandamál að stríða fyrir. Lækkun eða hækkun skatta myndi þá líklega ekki breyta miklu fyrir þá.

Kannski er ég bara að bulla. Ég er nýbúinn að fá skell frá skattinum. :)

Sigurður Axel Hannesson, 1.8.2007 kl. 21:34

3 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Eigum við ekki að segja frekar að lægri skattar hvetja menn til að taka meiri vinnu óski þeir þess. Þeir geta það án þess að vera að fá nánast ekki neitt fyrir aukið vinnuframlag. Lægri skattar koma öllum vel, og ekkert síður þeim sem vinna bara hefðbundna vinnuviku. Hafa menn eitthvað á móti því að greiða lægri skatta ? Þetta er hins vegar hvatning fyrir þá sem þurfa vegna aukinna þarfa t.d. húsbyggingar sinnar o.s.frv. að auka við sig vinnu þegar þess er þörf. Það má glöggt sjá að skattalækkun á fyrirtæki hvatti þau til dáða. Aukin framrás, meira fjárfest í nýjium greinum sem aftur hefur leitt til aukinna skattekna ríkissjóðs þrátt fyrir lækkun skattprósentu. Við þetta hafa skapast aukin atvinnutækifæri fyrir borgarana.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 2.8.2007 kl. 07:30

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Allt er þetta fróðlegt og gott, en sem fyrri daginn eru það smámunir sem ég rek nefið í: hverslags beð er þetta dánarbeð? Ég hef heyrt um kartöflubeð og gulrótarbeð, jafnvel blómabeð, en dánarbeð…?

Sigurður Hreiðar, 2.8.2007 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband