27.7.2007 | 11:25
Legið á Lækjartorgi og fjölskyldan sem át köttinn sinn
Ég fór í gærkvöldi í skemmtilegan göngutúr sem myndlistarkonan Ilmur Stefánsdóttir leiddi um miðbæinn. Markmið göngunnar var að upplifa borgina á nýjan og spennandi hátt. Þetta er eitthvað sem maður gerir ekki dags daglega. Ein upplifunin fólst í því að skynja borgina liggjandi á Lækjartorgi. Það var eiginlega með því betra sem ég hef gert í sumar og hef ég nú gert margt skemmtilegt í sumar.
Ég tók eftir því í þessari ferð minni að myndlistarfólk og ákveðinn hópur heimspekinga deila sama áhugamáli og það er að upplifa veröldina á annan hátt en þann hefðbundna. Og nú fyrst það er að koma helgi er ekki úr vegi að fólk fái smá verkefni til þess að glíma við um helgina. Þetta er verkefni sem ég fékk lánað hjá heimspekingunum Julian Baggini og Jeremy Stangroom og felst í því sem þeir kalla á ensku "testing your taboos". Ég veit eiginlega ekki hvernig á að þýða þetta á íslensku en það merkir að maður athugar hvernig "tabúin" sem maður kann að vera haldinn virka. En hér kemur umhugsunarefnið:
Ekið var á heimiliskött og hann dó. Eigendur kattarins höfðu einhversstaðar heyrt að kattakjöt væri ekki sem verst svo þeir elduðu köttinn og borðuðu hann í kvöldmat. Kötturinn reyndist ágætis matur og enginn hlaut skaða af átinu.
Hér er ljóst að ekki er það vanalegt að legja ketti sér til munns hér á landi, en enginn skaði á sér stað eins og títt er þegar fengist er við siðferðileg álitamál og því ástæða til að spyrja eftirfarandi spurningar:
Var það rangt af fjölskyldunni að borða köttinn eða var það ekki rangt?
Verið ekki feimin við að skrifa allar hugleiðingar um málið í athugasemdir.
Gangi ykkur vel.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er ekki rangt að borða köttinn. Það fer bara eftir því hversu vel þessi kisa var liðin innan fjölskyldunnar. Margir vilja ekki hugsa til þess að krúttleg dýr séu notuð til manneldis en kippa sér ekkert upp við það að maula á lambi, kálf eða grisling. Það er ekki í okka menningu að borða hunda eða ketti en það er í sumum löndum. Þar eru þessar skeppnur ræktaðar til manneldis og það er ekkert öðruvísi en beljur og svín. Fólk setur það fram sem einhver rök að víst að hundur getur sótt bolta þá eigi ekki að borða hann.
Væri alveg til í að smakka kjötið úr hundi eða ketti þótt að ég gæti aldrei borðað minn kött. Hann er partur af familíunni.
Ómar Örn Hauksson, 27.7.2007 kl. 14:20
þetta er einsog að borða fjölskyldumeðlimi - það er í lagi í hungursneyð en ekki sér til skemmtunar, maður ælir næstum því af að lesa þetta blogg, svo viðbjóðslega krípí er þessi tilhugsun. ég skil ekki heldr hvernig fólk getur borðað hestana sína... Mörg taboo eru skynsamleg, fólk þarf líka að muna það og ekki alveg tapa sér í að upplifa hvað sem er. Sjáið fyrir ykkur næsta skerf; Afhverju ekki bara að sofa hjá mömmu sinni eða pabba? Eða fara í threesome með þeim? Er það ekki bara jafn sjálfsagt og svona gæludýraát? Mjög margt fólk er einfaldlega ekki með eðlileg siðferðisleg viðmið, það misnotar börn og hvaðeina. Sum taboo eru nauðsynleg!
halkatla, 27.7.2007 kl. 18:10
æi, anna karen. með fullri virðingu fyrir þínum tilfinningum þá get ég ekki séð samasemmerki á kattaáti og þrísom með foreldrum, ja mínum, nú eða þínum.. reyndar ekki heldur samasemmerki með kattaáti og misnotkum á börnum.
en það er gott að fólk setji sér siðferðisleg viðmið. ég er bara ekki alveg sammála þínum ha.
eins og ómar bendir á þá eru bæði kisur og voffar étnir í einhverjum löndum. og hann segist vera til í að prófa að smakka á kisu. bara ekki sinni eigin. efast stórlega um að hann sé eitthvað að pæla í hjásofelsi með foreldrum sínum.
sjálfur hef ég smakkað á nokkuð hefðbundnum mat eins og sniglum og ostrum sem mér finnst ekkert spes. grindhvalsnýrum sem mér fannst reyndar algjör vibbi en færeyingar eru æstir í. ísbjarnarkjöt er ekkert alslæmt og ísbjarnarhjarta bara nokkuð bragðgott, að mínu mati.
jamm, allt í lagi. afsaka þig meðan að þú ælir............
arnar valgeirsson, 29.7.2007 kl. 23:21
Siðferðislega sé ég ekkert rangt við að borða gæludýr sitt. Tilfinningalega finnst mér varla hægt að ræða, þar sem við erum svo misjöfn. Hundurinn minn verður alldrei borinn á borð í minni fjölskyldu, en ég gæti vel hugsað mér að smakka hundakjöt. Get því ekki séð hvers vegna það ætti að vera siðferðislega ragnt að borða hana Twiggy mína, en ekki bróður hennar. Við skulum vona að einhverjum þyki vænt um bróður hennar, þó ég gæti hugsað mér að borða hann.
Ásta Kristín Norrman, 30.7.2007 kl. 11:17
Það var ekki rangt af fjölskyldunni að leggja sér köttinn til munns, þar sem enginn skaði hlaust af því hvorki fyrir þá sem átu hann, né nokkra aðra. Það stendur skýrum stöfum í þrautinni :'Enginn hlaut skaða af átinu'. Það sem ekki skaðar einn eða neinn getur ekki verið rangt.
Svava frá Strandbergi , 9.8.2007 kl. 23:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.