Umbúðirnar eru flottar en ekkert er tryggt með innihaldið

Mér var hugsað til þeirrar mismunandi menningar sem fyrirfinnst á íþrótta- og líkmamsræktarstöðvum þegar ég las viðtal við Hafdísi Jónsdóttur aðstoðarframkvæmdastjóra World Class í Blaðinu í morgun. Á nýju stöðvunum sem eru í byggingu á vegum World Class skortir ekkert á umbúðirnar: "Útsýnið í líkamsræktarstöð World Class í Smáranum verður heldur ekki amalegt enda verður stöðin á 15. hæð......Þarna verður tækjastöð með fullkomnasta búnaði sem í boði er. Það verða gufuböð inni í búninsherbergjunum......"  Og fleira var týnt til af fíneríi.

Því er ekki að neita að aðstandendur World Class hafa gert góða hluti til heilsueflingar en einhvernveginn fór ég að bera saman í huganum þessar gljáfægðu stöðvar við æfingaaðstöður sem hafa einhvernveginn meiri "sál" (hvað svo sem það þýðir). Ástæðan fyrir þessum hugleiðingum mínum er án efa ljósmyndasýningin World Press Photo sem er í Kringlunni núna en þar er ein myndasyrpa úr æfingaaðstöðu hnefaleikamanna í Sao Paulo í Brasílíu sem er utandyra en undir brú í hverfi þar sem einna flestir heilmilausir í borginni búa.

Þrátt fyrir gömul æfingatæki og ekkert útsýni og væntanlega ekki mjög hreint loft í miðju umferðaröngþveiti æfa þar öflugir hnefaleikamenn og fylgir mynd af Joao Kehl  brasilískum meistara sem stefnir á Suður Ameríska titilinn.

Það er æðislegt að bera saman World Class og Garrido´s boxing gym í Brasilíu. Einhvernveginn finnst mér stemmningin yfir Garrido´s boxing gym vera meira "alvöru", en World Class einhvernveginn svona "sykursæt" og "áreynslulaus" (svo ég nota gildishlaðin orð sem ómögulegt er að útskýra).

Sjálfur hef ég prófað fjölda íþrótta- og líkamsræktarstöðva bæði hérlendis og erlendis og þegar ég lít til baka er það einn staður sem stendur upp úr í minningunni. Það var staður í Belgíu sem rekinn var af Kung Fu klúbbi sem hafði komið sér fyrir í gamalli kirkju sem breytt hafði verið í íþróttahús. Breytingarnar höfðu svo sem ekki verið neitt rosalegar, kirkjubekkirnir höfðu verið fjarlægðir og svo var bara byrjað að æfa. Ekki einu sinni var haft fyrir því að koma fyrir sturtuaðstöðu. Enginn var í neitt sérstaklega smart íþróttafötum heldur, en samt voru öll þessi "ósmartheit" pínu smart þarna inni. Það var heldur ekkert verið að fjasa þó að þjálfarinn kveikti sér í einni og einni sígarettu í miðjum klíðum.

En samt sem áður varð árangurinn af æfingunum mjög góður og þarna æfði fólk sem var ekki að spá í útsýni og eitthvað svona útlitspjatt, heldur átök, svita og árangur. Og það smitaði út frá sér og það er það sem er eftirminnilegast: Grimmdin í að ná árangri.

Ég hef tekið eftir því að þessi aðstöðudýrkun sem ríkir innan líkamsræktargeirans mótar huga unga fólksins. Ég tók að mér fyrir nokkrum árum að kenna hópi 10. bekkinga sund. Við fengum aðstöðu í 12,5 metra laug og það leið ekki á löngu að nær ósynd ungmennin fóru að kenna aðstöðunni um. Þetta var svo lítil laug að það átti víst ekkert að vera hægt að kenna sund í svona polli héldu sum þeirra fram.

Ég var nú ekki lengi að svara því og segja þeim að margir af helstu afreksmönnum íslenkrar sundsögu hafi æft mestallann sinn feril í 12,5 metra laug og nefndi ég sem dæmi njarðvíkinginn Eðvarð Þór sem æfði lengi í slíkri laug en komst í heimsklassa og átti um tíma norðurlandamet.

Þannig að þegar líkamsræktin er annarsvegar er ekki allt fengið með nýjungum, ajax sápulykt, strauuðum göllum (helst bleikum) og fægðum speglum að ógleymdu útsýninu (það er spurning hvort að það geti ekki stundum jafnvel spillt fyrir árangrinum?)

(Myndir af Garrido's boxing gym má sjá á vefnum:

http://www.worldpressphoto.org/index.php?option=com_photogallery&task=view&id=854&Itemid=146&type=&selectedIndex=2&bandwidth=high 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband