16.7.2007 | 15:35
Fjögur tonn á dag!
Það má með sanni segja að við lifum á einhverskonar IKEA tímum. Tímum þar sem hægt er að fá vörur á þokkalegu verði en ekkert er sérstaklega tryggt með langa líftíma þeirra. Það þykir víst ekki skipta ýkja miklu máli því þá er bara farið aftur og keypt nýtt ef það gamla virkar ekki. Nú eða ef maður fær leið á hlutnum þá er hægt að senda hann í Góða hirðinn í þeirri von að einhver geti notað hann.
Það kom mér nokkuð á óvart að lesa í fasteignablaði Morgunblaðsins í dag að Góði hirðirinn fær um fjögur tonn á dag af allskyns hlutum. Ég hef kannski ekki forsendur til að meta hvort þetta er mikið eða lítið en einhvernveginn hallast ég á þá skoðun að þetta sé býsna mikið og beri vott um mikla endurnýjunarþörf og einnota menningu þegar fólk losar sig við jafn mikið af dóti og raun er á. Ég hef reyndar ekki hugmynd um það hversu mikið fer út af þessum hlutum en það er vissulega fullþörf að vekja athygli á þessu umhverfisvæna starfi sem unnið er í Góða hirðinum og hvetja fólk til þess að gefa gömlu hlutunum nýtt líf, það er að segja ef það þarfnast einhvers.
Og fyrst maður er farinn að tala um neyslumenningu þá vekur Fréttablaðið athygli í dag á því að í Noregi og í New York er farið að ræða um hversu óumhverfisvænt það er að taka flöskuvatnið fram yfir kranavatnið. Sá sem drekkur sódavatn losar 80 sinnum meiri koltvísýring út í andrúmsloftið og í New York er talað um að þrjár flöskur af hverjum fjórum skili sér ekki í endurvinnslugáma heldur lenda í ruslatunnum.
Gáum að þessu.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.