Hversvegna þennan ægilega hávaða?

Ég sat í morgun rétt fyrir kl. 11.00 og drakk kaffið mitt í bakgarðinum mínum um 100 metra frá bjöllum Bústaðakirkju þegar þær byrjuðu að hringja inn guðsþjónustu. Ég ætla nú ekki að vera með nein leiðindi en þegar klukkurnar voru búnar að hringja alllengi að því er mér fannst með miklum hávaða þannig að nær ómögulegt var að tala saman og þegar ung stúlka austan að landi sem er gestur á heimilinu spurði af hverju hringt væri svona lengi fór ég að velta því fyir mér hvert væri eiginlega hlutverk kirkjuklukkna í nútímasamfélagi. Væntanlega hafa þær einhvertíma þjónað mikilvægum tilgangi en ég efast um að þær geri það í dag öðrum en táknrænum.

Ég er eins og komið hefur fram í ýmsum pistlum á þessari síðu mikill áhugamaður um hugmyndafræði svokallaðrar hæglætishreyfingar og þar hafa verið þróaðar hugmyndir um hæglætisborgir/bæi og hverfi, svokallaðar citta slow. Eitt af einkennum hæglætisborganna er að leitast við að hafa allan hávaða í lágmarki. Hávaðinn í borginni er alveg nægur fyrir og ég teldi það kirkjunni vera til framdráttar ef kirkjunnar menn tækju af skarið og hvettu til minni hávaða og rólegra lífs í stað þess ærandi hávaða sem ég þurfti að takast á við í morgun.

Þess má geta að í Réttarholtsskóla sem er í sama hverfi hefur skólabjalla ekki verið notuð í mörg ár. Bæði starfsfólk og nemendur þekkja sinn tíma og ekki hefur verið þörf á að láta einhverja bjöllu æpa á mannskapinn. Og fyrst að unglingarnir í Réttó rata í stofurnar á réttum tíma þá held ég að það sé engin ástæða til að ætla annað en að kirkjugestir geri það líka.

Semsagt minkum hávaðan í hverfinu sem mest við megum og stuðlum þar með að auknum lífsgæðum íbúanna.

(Þeir sem vilja kynna sér nánar hugmyndafræði hæglætishreyfingarinnar hvet ég til að lesa bókina Lifum lífinu hægar eftir Carl Honore).

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Erlings

Heill og sæll. Pistill þinn hringdi óneitanlega nokkrum bjöllum í höfði mínu, vegna þess að á árum áður átti ég heima við Kárastíg og bjó við þá sérstöðu að "njóta" hinnar margföldu bjöllusinfóníu sem Hallgrímskirkja bauð (og býður kannski enn) nágrönnum sínum upp á, einmitt á sunnudagsmorgnum. Ég var þá í þess konar vinnu að sunnudagsmorgnar voru einu morgnar vikunnar sem ég gat leyft mér þann munað að sofa út... ef ekki hefði verið fyrir fjandans bjölluhljóminn, ekki aðeins venjulegt gling gló, heldur líka hin ýmsu þjóðlög og sálmar, slegnir háværum bjöllum, frá kl. 09.30 til kl. 11.00 hið minnsta. Loks gafst ég upp á þessu ónæði og hringdi í kirkjuvörðinn og spurði, í fullri hæversku, hvers vegna hinn vinnandi maður fengi ekki að hvíla sig á sjálfan hvíldardaginn; hvort kirkjan væri farin að breyta sjálfu boðorði Guðs almáttugs um þá hvíld sem hverjum manni væri nauðsynleg, og frómt sagt; skyldugur að njóta á þessum degi. Fátt varð um svör, en eitthvað var umlað um hefðir og siði og ég sagði aumingja manninum, sem var svo óheppinn að svara í símann þegar ég hringdi, eftir aðeins þriggja klst. svefn, að ef hlutverk kirkjunnar væri að gæta að sálarheill manna þá hefði Hallgrímskirkja rústað minni og ég yrði ómögulegur maður til vinnu út alla næstu viku, bara fyrir einhvern andskotans bjölluhljóm og músíseríngu sem hefði ekkert með trúarlíf að gera og væri löngu úr gildi fallið og biskupinn skyldi svo sannarlega fá orð í eyra frá mér, og allt hans hyski, ef maðurinn skrúfaði ekki nú þegar fyrir þennan djöfulgang. Eftir þessa ræðu þagnaði Hallgrímskirkja, og klukkan var ekki orðin 10.00. Ég náði að sofna aftur og þegar ég vaknaði hélt ég hvíldardaginn heilagan, svo sem lög gera ráð fyrir. En kirkjan og Guð er sitthvor hluturinn. Guð hefur ekki hátt, en kirkjan getur átt það til, því hún er jú jarðnesk stofnun, svona einsog Kauphöllin og Fiskmarkaðurinn. Og það er rétt sem þú bendir á, að hæglæti og lágstemning ætti að vera aðal kirkjunnar, ef hún vill ganga á Guðs vegum.

Friðrik Erlings, 15.7.2007 kl. 21:55

2 Smámynd: Janus

Ég veit nú ekki hvort andskotans og fjandans bjölluhljómur séu réttu orðin til að lýsa þessum hávaða! Finnst það nú svona frekar gróft þegar haft er í huga um hvaða stofnun er rætt. Ég bý við þetta sama og þú/þið, nema hjá mér er það Grafarvogskirkja sem byrjar alltof snemma á sunnudögum. Svo ég tali nú ekki um sorgarhringingu sem ómar virka daga, maður verður sorgmæddur oft á dag við það að heyra hana :)

 En það var ég sem valdi þetta hverfi og valdi að kaupa þessa íbúð svo það þýðir ekkert að kvarta :) Ekki fer maður að flytja af því kirkjan hringir í nokkrar mínútur á hverjum degi!!!

Bling, blong...!

Janus, 16.7.2007 kl. 02:41

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Nú er hins vegar spurning um það hvort hóflegur kirkjuklukknahljómur er ekki einmitt citta slow-merki. Bý ekki nálægt kirkju og hef ekki gert lengi. Akureyrarkirkja sem ég bjó eitt sinn nálægt gefur merki á kortérsfresti, merki sem mér finnst slökunartákn, af því það fær mig næstum til að stoppa en a.m.k. hægja á mér.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 16.7.2007 kl. 08:25

4 identicon

Heppinn að búa ekki við hliðina á mosku. Þá er maður vakinn líka um um miðjar nætur þegar kallað er til bænahalds

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 10:10

5 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Alveg sammála þér Jóhann, hávaðinn í bænum er alveg nóg. Ég bjó í Gautaborg í mörg ár og var ekki vör við eins mikinn hávaða og hér í Hafnarfirði, enda eru borgir í Svíþjóð skipulagðar fyrir fólkið sem býr þar, en bæir á Íslandi eru skipulagðir fyrir bíla bæjarbúa. Eg er nú samt svo heppin að ég er ein af fáum sem búa ekki alveg í nágreni kirkju, en Janus hefur kannske ekki gert sér grein fyrir hve margar kirkjurnar eru og það er ekki auðvelt að finna kirkjufrítt hverfi. Las bókina sem þú benntir á og fannst hún mjög áhugaverð. Las hana þegar ég var í fríi á Cubu og hjálpaði hún mér til að varfa niður. Þar gegnur lífið ekki hratt fyrir sig, fólk brosir, syngur og er glatt og enginn er að flýta sér.

Ásta Kristín Norrman, 16.7.2007 kl. 14:07

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Friðrik, við hljótum að hafa átt heima við Kárastíg á sama tíma.  Ég man eftir þessu tónleikum þeirra, en verra fannst mér samt neyðarhringingar þeirra til messu.  Það er eins og þetta sé eina leiðin til að minna landann á að það er til kirkja.  Með fullri virðingu, þá ætti að vera nóg að hringja í stutta stund svo hinir villuráfandi sauðir rati.  Hinir þekkja hvort eð er leiðina

Marinó G. Njálsson, 17.7.2007 kl. 22:18

7 identicon

Mér hefur nú alltaf fundist bjölluhljómur notalegur, sérstaklega þó þegar ég er staddur erlendis, en einnig hér heima og ef þetta raskar svona svakalega ró ykkar þá held ég nú að stressið sé í topp hjá ykkur. Eyðið nú frekar púðrinu í fjárans mótorhjólaliðið sem virðast halda að það sé jafn gaman fyrir okkur hin að heyra prumpið í þeim eins og þeim finnst það gaman.

Steingrímur Þórhallsson (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband