11.7.2007 | 10:01
Baráttusveit gegn öfund
Ég var að lesa ágæta grein Stefáns Snævarr sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 30. júní s.l. Þar sem hann svarar gagnrýni Hannesar Hólmsteins Gisurarsonar á jafnaðarstefnuna.
Frjálshyggjan varð að tískupólitík á sínum tíma þegar ég var í framhaldsskóla og háskóla og fór frjálshyggjumaðurinn og ríkisstarfsmaðurinn Hannes þar fremstur með miklum hávaða.
Það sem hefur vakið athygli mína að undanförnu er að það sem einna helst hefur einkennt málflutning frjálshyggjumanna er að álíta allt og alla sem vilja meira réttlæti, jöfnuð og umhverfisvernd, minni sóun, græðgi og neysluæði vera öfundsjúka. Frjálshyggjufólkið er því orðið að einskonar baráttusveit gegn öfundsýki.
Stefán vitnar í Hannes þar sem hann lýsir þessari pólitík frjálshygjunnar með eftirfarandi orðum: "Ekkert er gegn því að sumir búi við betri kjör en aðrir og vandséð er annað en að öfund valdi því að menn sjái ofsjónum yfir auðsöfnun vellríkra manna."
Það er því ekki undarlegt að maður spyrji fylgismenn frjálshyggjunnar hvort ekki sé til eitthvað sem telst réttlætiskennd og andúð á yfirgangi, græðgi, sóun og ójöfnuði? Eða með öðrum orðum hvort ekki sé mögulegt að gagnrýna óhóflegan lífskjaramun af öðrum hvötum en vegna öfundsýki?
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.