24.6.2007 | 22:45
Meira hæglæti
Vert er að vekja athygli á viðtali Mogunblaðsins í dag 24. júní við Ósk Vilhjálmsdóttur þar sem hún skipuleggur ferðalög í anda hugmyndafræði hæglætishreyfingarinnar. Hæglætishreyfingin er ört vaxandi hreyfing í heiminum sem hefur það að markmiði sínu að fólk finni lífsgæðin í lífi sem lifað er hægar á stresslausari hátt en nú tíðkst víða. Ósk útskýrir svona ferðalög með eftirfarandi hætti: "Þetta er leit að lífsgæðum sem við missum af í stressinu. Kílómetrafjöldinn skiptir ekki öllu máli heldur að ferðalögin feli í sér andríki og innihald." Síðan segir í viðtalinu: "Skyndibitaferðir þar sem heimsóttar eru tíu borgir á tíu dögum eru því á undanhaldi og fólk kýs í auknum mæli að líta sér nær."
Hugmyndafræði hæglætishreyfingarinnar nær til flestra þátta mannlífsins s.s. matarmenningar, borgarskipulags, samgangna, ferðalaga, frístunda, uppeldis og læknisfræði svo fátt eitt sé nefnt.
Víða í samfélagi okkar er þörf á hugmyndafræði hæglætishreyfingarinnar. Ekki síst tel ég fulla ástæðu til þess að innleiða þessa hugmyndafræði í skólastarf. Það er því miður orðinn mikill þrýstingur í skólastarfi að nemendur ljúki sem mestu á sem skemmstum tíma. Að taka sér tíma í námi þykir nú ekki par fínt. Ekki hef ég þó heyrt nein almennileg rök fyrir þessum skólaflýti sem felst t.d. í því að nú á að bjóða nemendum sem lokið hafa 9. bekk að taka ekki 10. bekk heldur fara beint í framhaldsskóla. Helstu rökin hafa verið þau að nemendur geta þá farið fyrr út á vinnumarkað. Gott og vel en hver eru þá rökin fyrir því að fara fyrr á vinnumarkað? Er það eftirsóknarvert fyrir unga fólkið? Ég er ekkert of viss um það.
Í bókinni Lifum lífinu hægar eftir Carl Honoré er heimspeki hæglætishreyfingarinnar útlistuð. Þar er núverandi asakerfi í skólum þar sem reynt er að troða sem mestu í höfuð nemenda á sem skemmstum tíma líkt við næringargildi þess að gleypa í sig hamborgara. Hætt er við að margir fari á mis við ákveðið þroskaferli sem verður að fá að taka tíma.
Núna í sumar undirbý ég kennslu mína næsta vetur við Réttarholtsskóla með hugmyndafræði hæglætishreyfingarinnar í huga. Það verður fróðlegt að sjá hvernig nemendur mínir eiga eftir að spjara sig í hæglætinu.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er einmitt á þessari skoðun það er sem sagt að okkur sé alveg óhætt að hægja á okkur og njóta þess að vera til. Ég tók einmitt þátt í þesu kapphlaupi eins og þetta að vera með flottari útihurð og svona, reyna að vera með hæsta vísreikninginn á mínum vinnustað og svo þetta sem aldrei verður bætt, það er þetta orð "seinna" í hvert sinn sem krakkarnir komu með tillögur um að fara eitthvað eða gera eitthvað skemmtilegt saman þá kom yfirleitt sama svarið frá mér - seinna og núna eru börnin farin að heiman og aldrei kom seinna. Lifum hægar og njótum.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 24.6.2007 kl. 23:06
Er algjörlega sammála. Okkur vantar að hægja aðeins á okkur. Okkur vantar meiri gæði í nám en ekki meira magn á styttri tíma. Það vantar meira af þessu "rólyndis"-hugarfari inní skólakerfið og samfélagið í heild.
Þorbjörg Ásgeirsdóttir, 25.6.2007 kl. 10:32
Algjörlega sammála þér Jóhann. Þetta er þörf ábending. Þ
að varð allt vitlaust þegar ég fékk mér vinnu í "Öskunni" og sem sendibílstjóri í tæp tvö ár eftir stúdentspróf. Ég hefði þó ekki vilja missa af þeirri reynslu. Ég get að minnsta kosti rætt við öskukallana í hverfinu um "gamla daga".
Júlíus Valsson, 25.6.2007 kl. 10:53
Glæsilegt hjá þér frændi Er alveg komin uppí kok af þessum asa og þeysingi á öllum sviðum.
Kv
Frænka
Jóhanna Guðríður (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 16:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.