21.6.2007 | 18:34
Guði sé lof að Egill Skallagrímsson er ekki í Vinnuskóla Kópavogs
Þær fregnir bárust núna í morgun að allt ætlar um koll að keyra í agaleysi, kvenfyrilitningu, klámbröndurum, óhlíðni og einhverju enn verra í Vinnuskóla Kópavogs. Þetta er síður en svo eitthvert gamanmál að mati Sigurðar Grétars Ólafssonar hjá Vinnuskólanum en hann segir meðal annars: "Fljótlega gerði ég mér grein fyrir því að ég þyrfti líka að setja reglur varðandi bann við nauðgunarbröndurum, grófum klám athugasemdum og niðrandi útlendingabröndurum.......Þær reglur endurtek ég fyrir einstaklingum í vinnuhópnum nánast daglega." Og Sigurður heldur áfram og segir síðar: " Orðaval, hlýðni og hvernig krakkarnir taka skipunum eru skýrustu dæmin og hafa versnað til muna í þau tíu ár sem ég hef starfað í Vinnuskólanum."
Ekki er þetta fallegt að heyra. En einhvernveginn finnst mér eins og ég hafi heyrt svona "allteraðfaratilfandans" umræðu áður þegar rætt er um unglinga.
Ég man þegar ég var sjálfur unglingur suður í Keflavík þá tóku Víkurfréttir skapvonskukast sem stóð í nokkrar vikur og beindist fyrst og fremst að unglingum í Grindavík. Blessuðum unglingum var allt fundið til foráttu og varð úr að við nokkrir krakkar tókum okkur til og buðum til opins borgarafundar þar sem ritstjórar blaðsins voru boðaðir til þess að svara fyrir skrif sín. Fullt var út úr dyrum, fulltrúar unglinga höfðu framsögur, reifuðu sjónarmið sín og beindu spurningum til ritstjóra. Í ljós kom að skrif þeirra reyndust heldur ýkt þó vissulega leyndust þar sannleikskorn. En í kjölfar þessa fundar breyttust skrif þeirra um unglinga til hins betra og það var farið að taka líka eftir því jákvæða sem krakkarnir voru að gera.
Málið er nefnilga það að það er afskaplega auðvelt að falla í þá vitleysu að blása upp tilvik sem gerast hjá miklum minnihluta unglinga og horfa framhjá því sem vel er gert. Vissulega haga unglingar sér misjafnlega en ég get alls ekki verið sammála því að hegðun unglinga almennt fari versnandi með hverju ári eins og haldið er fram í frétt Blaðsins. Og hef ég nú starfað með unglingum í 11 ár.
En svona fréttir eins og fram koma hjá þeim í Vinnuskólanum eru svo sem ekkert nýjar. Sókrates á að hafa verið með svipuð tíðindi af unga fólkinu fyrir rúmum 2000 árum þegar hann á að hafa sagt:
"Unglingar nú á dögum vilja bara lifa í vellystingum. Þeir kunna ekki mannasiði, neita að láta skipa sér fyrir, bera enga virðingu fyrir þeim fullorðnu og nota tímann til að kjafta saman þegar þeir ættu að vera að vinna. Ungt fólk stendur ekki lengur upp þegar eldra fólk kemur inn í herbergið. Þeir andmæla foreldrum sínum, gorta í veislum, úða í sig sætindum þegar þeir sitja við matarborðið, krossleggja fætur og rífa kjaft við kennarana sína."
Nú er bara að treysta á að Blaðið fari og finni líka hvað unglingar gera sem talist getur jákvætt. Ég er sannfærður um að dæmi þess eru margfalt fleiri. Og hversvegna ekki að leyfa þeim að birtast líka á prenti?
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
ég er alltaf að lesa svona lýsingar í gömlum tímaritum og bókum og verð reyndar alltaf jafn hissa yfir því að óhlýðni hafi verið til þá líka!
Unglingar eru með þolanlegasta fólki samfélagsins.
það er gott þegar þeir ná að sýna sig og sanna
halkatla, 21.6.2007 kl. 20:47
Tja - eftir höfðinu dansa limirnir. Á meðan bæjarstjóranum leyfist að stunda klámbúllur, af hverju ættu unglingarnir þá að gera sér grein fyrir að klámvæðingin er ekkert grín?
Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 10:22
Takk fyrir góðan pistil Jóhann. Athugasemd Sóleyar er líka snilld. Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 22.6.2007 kl. 10:36
Sóley hvaðan hefur þú þær upplýsingar að bæjarstjórinn í Kópavogi stundi það sem þú kallar klámbúllur?
Katrín, 22.6.2007 kl. 12:12
Ég starfa með unglingum í Njarðvík, hef gert í mörg ár. Þetta eru góðir krakkar og það er munur á árgöngum. Þetta er fyrst og fremst foreldranna að ala börnin sín upp svo þau beri virðingu fyrir hvort öðru og séu kurteis.
Það viðkemur ekkert agaleysi unglinga í vinnuskóla Kópavogs að bæjarstjórinn hafi farið inn á Goldfinger. Hvílík eindemis vitleysa. Haldið þið virkilega að bæjarstjórinn sé sú fyrirmynd sem krakkarnir apa eftir? Án efa einhver sem vita ekki einu sinni hver hanna er. Nei rót vandans liggur annarsstaðar. Það eru foreldrar og við sem ölum upp börnin sem höfum mest áhrif.
Örvar Þór Kristjánsson, 22.6.2007 kl. 12:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.