"Tilvistarstefnan er mannhyggja" loksins komin út á bók

Á tuttugustu öldinni létu heimspekingar sem leituðust við að greina mannlega tilvist í sínu hversdagslega umhverfi allmikið á sér bera í frönsku samfélagi.  Þeirra á meðal voru Maurice Merleau Ponty, Simone de Beauvoir og Jean Paul Sartre án efa þekktust.  Þau voru óðfús í að beita hugmyndum sínum á öllum sviðum mannlegrar reynslu.  Fátt ef eitthvað var þeim óviðkomandi þar sem þau beittu svokallaðri tilvistarlegri fyrirbærafræði til að varpa ljósi á mannlegan veruleika í sinni margbreytilegustu mynd.

Merleau-Ponty sem dó aðeins fimmtíu og þriggja ára gamall hefur án efa reynst sá þeirra sem helst hefur þótt skara framúr í fræðunum, Simone de Beauvoir var áhrifavaldur í kvenréttindamálum auk þess að vera góður rithöfundur.   Heimspekingurinn og rithöfundurinn Jean Paul Sartre sem hafnaði Nóbelsverðlaununum 1964 er ekki síst þekktur fyrir tilvistarstefnuna svokölluðu sem hann hélt mjög á lofti og hefur allar götur frá tímum seinni heimstyrjaldarinnar reynst umdeild.  Í október 1945 hélt Sartre fyrirlestur í París sem bar heitið Tilvistarstefnan er mannhyggja, þar sem hann útskýrði heimspeki sína á alþýðlegan hátt.  Uppákoma þessi reyndist Sartre mikill menningarlegur sigur enda fékk hann verulega athygli í kjölfarið.  Mikinn mannfjölda dreif að til að hlýða á en ekki nóg með það, heldur brutust út ólæti með tilheyrandi fyrirgangi; handalögmálum, brotnum stólum og öðrum skemmdarverkum svo ekki reyndist unnt að selja aðgang eins og til stóð.  Klukkustund á eftir áætlun gat fyrirlesarinn hafið mál sitt í yfirfullum sal af fólki, blaðalaus og oftast með hendur í vösum.

Tveimur árum áður hafði höfuðrit Sartres Vera og Neind komið út.  Þar setti hann fram fyrirbærafræðilega greiningu á veru mannsins í heiminum.  Rit þetta fékk ekki mikla athygli í fyrstu, en þegar gagnrýnendur fóru að tjá sig reyndist bókin mjög umdeild.  Félagi Sartres, Maurice Merleau-Ponty var ósáttur við viðbrögð gagnrýnenda. Í stað þess að líta á heimspeki Sartres sem gott viðfangsefni til rökræðna töldu gagnrýnendur að hér væri á ferðinni heimspeki sem bæri að forðast og hefði slæm áhrif á líf fólks, sérstaklega voru menntaskólastúlkur varaðar við.

Nú hefur Hið Íslenska Bókmenntafélag gefið þýðingu Páls Skúlasonar á fyrirlestri Sartres út á bók og er það fagnaðarefni. Ekki síst í ljósi þess að drög að þýðingunni hafa legið fyrir í áratugi og hafa væntanlega flestir nemendur Páls ef ekki allir lesið drög hans að þýðingunni í ljósriti. 

JB

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband