26.4.2007 | 17:28
Stríðið í Írak og siðferðileg afstaða ríkisstjórnarinnar
Nú eru rúm fjögur ár liðin síðan ráðist var inn í Írak með stuðningi ríkisstjórnar Íslands. Þó að ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafi ekki verið vakandi fyrir mögulegum afleiðingum innrásarinnar þá var það vitað strax í upphafi að hér var um mikil mistök að ræða. Nú hefur það svo sannarlega komið enn frekar í ljós hversu afdrifarík þessi mistök voru. Fjöldi fólks hefur fallið og framtíðarvonir alltof margra hafa orðið að engu.
Sú ákvörðun að styðja stríðið í Írak án þess að þjóðin væri spurð er dæmi um þá siðlausu utanríkisstefnu sem ríkisstjórn Íslands fylgir. Í blindni er fylgt eftir því sem Bush og aðrir stríðsherrar vilja að því er virðist alveg gagnrýnislaust. Það er meginvandinn í utanríkisstefnu stefnu stjórnvalda, það að taka ákvarðanir án þess að gagnrýnin og yfirveguð hugsun komi þar nokkuð nærri. Hvað þá siðferðileg hugsun, drottinn minn dýri skyldu stjórnarherrarnir vita hvað það er?
Utanríkisráðherra Íslands, Valgerður Sverrisdóttir hefur viðurkennt að hér hafi verið um mistök að ræða sem byggðust á röngum upplýsingum. Það sem gerðist að mínu mati var einfaldlega það að hér var um að ræða afleiðingu þess að Ísland hefur ekki haft sjálfstæða utanríkisstefnu. Ef við hefðum haft sjálfstæða utanríkisstefnu hefðum við eðlilega leyft Írökum að njóta vafans og ekki stutt innrásina hugsunarlaust eins og gert var.
Vandi ríkisstjórnarinnar í þessum máli er mikill og það sem meira er þá er hann að mestu leiti siðferðilegur. Stuðningur ríkisstjórnarinnar er siðferðilega rangur og til þess að gera sér enn betur grein fyrir því hvet ég stuðningsmenn innrásarinnar að svara eftirfarandi spurningum samviskusamlega:
1) Hvort hefur það reynst almenningi í Írak betra eða verra að ráðist var inn í landið á sínum tíma?
2) Hversu mörgum óbreyttum borgurum má fórna til þess að koma illum einræðisherra frá?
3) Hver er siðferðileg ábyrgð bandaríkjaforseta gagnvart velferð lágstéttarbarnanna sem eru í herliðinu hans? Verða herstjórar á borð við Bush ekki einnig að gæta að sínum eigin hermönnum og fjölskyldum þeirra?
Við ættum að minnast afstöðu stjórnarflokkanna í Íraksmálinu þegar við göngum að kjörborðinu í vor. Ég minni jafnframt á að við Vinstri græn höfum allt aðra og mun firðsamlegri utanríkisstefnu þar sem meginstoðirnar eru sjálfstæði og hlutleysi landsins og stuðningur við friðsamlega lausn deilumála í stað hamslausra stríðsleikja.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.