Ég hef verið að leita að stefnu félagsmálaráðuneytisins í barnaverndarmálum. Í lögum um barnavernd segir meðal annars í 5.gr. að félagsmálaráðuneytið beri ábyrgð í stefnumótun í barnavernd og segir ennfremur að ráðherra eigi að leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun í barnavernd til fjögurra ára að loknum sveitarstjórnarkosningum.
Ég leitaði að framkvæmdaáætlun ráðuneytisins í barnavernd á vefsíðu ráðuneytisins en fann ekki og því hringdi ég í ráðuneytið til þess að spyrjast fyrir. Ég fékk að ræða við tvo starfsmenn sem könnuðust ekki við málið. Það varð því úr að ég ákvað að senda tölvupóst á netfang sem gefið er upp á vefsíðu ráðuneytisins til þess að fá upplýsingar um þessi mál. Tölvupósturinn var svohljóðandi:
Ég hef verið að reyna að finna á vef ráðuneytisins framkvæmdaáætlun í barnavernd (skv 5. grein barnaverndarlaga) en hef ekki fundið. Getur þú upplýst mig um hvernig staða málsins er? Það sem kemst næst framkvæmdaáætlun í barnavernd er þá helst hluti af áætlun sem ég fann á vef ráðuneytisins og heitir Aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis. Er sú áætlun komin til framkvæmda?
Bestu kveðjur
Jóhann Björnsson
Þessi fyrirspurn var send fyrir rúmri viku síðan en enn hefur ekkert heyrst frá ráðuneytinu.
Á meðan ég bíð eftir svari frá ráðuneytinu um baranverndarmál fær maður fréttir af metbiðlistum á barna og unglingageðdeild, alls 170 börn bíða eftir plássi. Í umræddum fréttum má einnig lesa um fjölskyldur sem haldið er í "gíslingu" vegna veikinda barna sinna og svo eru einnig fregnir af væntanlegri sumarlokun deildarinnar.
Svo koma stjórnarherrarnir fram og tala um hagvöxtinn og kaupmáttaraukninguna en ekki eru þeir til svara um málefni barnanna.
Er einhver þarna úti sem getur hjálpað mér að finna stefnu og framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í barnaverndarmálum (ef hún er þá til)?
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Facebook
Athugasemdir
Ályktun um barnaverndarmál
Framsóknarflokkurinn telur að endurskoða beri barnaverndarmál í heild sinni í takt við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Horft skal til nágrannaþjóða okkar varðandi útfærslu og framkvæmd þessara mála og úrlausnir þeirra nýttar til umbóta á íslenskri löggjöf er varðar börn og barnavernd.
Leiðir
Fyrstu skref
Endurskoða skal lög og reglur um barnaverndarmál í heild sinni á næsta kjörtímabili og skal sérstaklega horft til nágrannaþjóðanna, einkum Norðurlandanna. Ennfremur skal gera stöðumat á starfsemi barnaverndarmála á Íslandi með hagsmuni barna að leiðarljósi.
Gestur Guðjónsson, 24.4.2007 kl. 17:26
Ég þakka Gesti fyrir að senda mér ályktun Framsóknarflokksins, en það sem ég er að leita að er það sem kallað er í Barnaverndarlögum frá árinu 2002 framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum. Í lögunum er þetta orðað svona: "Ráðherra leggur fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum." (5.gr).
Ekki held ég að það dugi ráðherra að veifa ályktun Framsóknarflokksins framan í þingheim þegar talað er um framkvæmdaáætlun barnaverndarmála.
Hinsvegar fékk ég þær fréttir núna áðan frá þingmanni nokkrum að því miður hefur ráðherra hvorki lagt þessa framkvæmdaáætlun fram árið 2002 né heldur árið 2006 þó slíkt sé lögbundið.
það er súrt.
JB
Jóhann Björnsson, 24.4.2007 kl. 21:28
Get verið sammála þér með planið séu upplýsingar þínar réttar.
Þetta er enn eitt málið sem strandar á því að ríki og sveitarfélög geta ekki komið sér saman um verkaskiptingu. Þess vegna var þessi ályktun samþykkt með þessum hætti. Amk hef ég heyrt innan úr BUGL að þar séu mörg pláss teppt að óþörfu vegna þess að það eru ekki til úrræði fyrir þá krakka sem geta ekki farið beint heim að meðferð lokinni, t.d. vegna heimilisaðstæðna. Buglið er ríkið meðan að hin úrræðin eru á hendi sveitarfélagsins, ef ég hef skilið kerfið rétt. Þarna þarf að bæta úr í samvinnu allra aðila.
Í Svíþjóð eru sveitarfélögunum gert að greiða fyrir innlagnardaga sem orsakast af því að þau eru ekki tilbúin til að taka við fólki af stofnunum eins og BUGL eða spítölum. Það gæti verið leið, þótt hún sé svolítið drastísk.
Gestur Guðjónsson, 25.4.2007 kl. 00:20
Ályktun? ÁLYKTUN???
Hvað á að gera? Það er hægt að álykta héðan og til Nepal og aldrei gerist neitt. Málið er: Börn eru ekki að fá þá heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa!!! Svona nakið og einfalt er þetta.
Eru á sama tíma að verða af nauðsynlegri menntun því þau geta ekki sinnt henni. Síðan annað það að geðsjúkir einstaklingar eru mjög oft verstir sínum nánustu, systkinum og foreldrum. Hvað þurfa þeir hópar að líða?
Ég endurtek: BÖRN eru ekki að fá heilbrigðisþjónustu. Punktur.
Ingi Geir Hreinsson, 25.4.2007 kl. 08:12
Ég veit ekki betur en að verið sé að vinna hörðum höndum að því að bæta búsetuúrræði fyrir geðfatlaða, 1 milljarður af símapeningunum var eyrnamerktur því að mig minnir. Það er verið að byggja við BUGL. Á BUGL er talsverður hluti rýma tepptur vegna þess að sveitarfélögin geta ekki tekið við krökkunum.
Svo vil ég benda á þá útgjaldaaukningu sem orðið hefur til velferðarmála á síðasta kjörtímabili. Get ekki sett inn myndir í athugasemdir, svo ég bendi á færslu sem ég skrifaði um það.
Sú aukning er að talsverðu leiti til komin vegna hækkunar launa umönnunarstétta, sem ég trúi ekki að þið séuð mótfallin, en einnig vegna aukinnar þjónustu. Það er ekki hægt að eyða meiru en kemur inn og það hefur verið talsvert. Hafandi sagt þetta er full þörf á að klára BUGL málin og ég er sannfærður um að lykillinn að því er skýrari verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga.
Gestur Guðjónsson, 25.4.2007 kl. 15:52
Þörf og góð ábending Jóhann. Góð eftirgrennslan. Ríkisstjórnin hefur víst ekki einu sinni samþykkt Barnaverndarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er skömm að þessu eins og svo mörgu sem á vantar í mannréttindamálum ríkistjórnarinnar.
Gangi þér vel í kosningabaráttunni.
Svanur Sigurbjörnsson, 27.4.2007 kl. 12:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.