19.4.2007 | 11:55
Siv, Vinstri græn, hagkerfið blandaða og viljinn til rangfærslna
Það var athyglisvert að heyra Siv Friðleifsdóttur túlka stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á framboðsfundi á Stöð tvö í gær. Þar sagði hún að VG væri á móti blönduðu hagkerfi. Ekki var henni gert af þáttastjórnendum að rökstyðja mál sitt frekar enda kæmi það mér ekkert á óvart að þáttastjórnendur hafi vart trúað sínum eigin eyrum.
Það þarf nefnilega alveg gríðarlega mikinn vilja til misskilnings eða kannski réttara sagt vilja til rangfærslna til að geta haldið því fram að VG sé á móti blönduðu hagkerfi á Íslandi. Hvað gerir fólk ekki í atkvæðakapphlaupinu mikla sem nú fer fram. Ögmundi Jónassyni tókst þó að skjóta inn stuttri athugasemd við þessa fullyrðinu ráðherrans og sagði eins og satt er að VG styður af heilum hug og leggur í raun mikla áherslu á blandað hagkerfi þar sem ýmis rekstarform fyritækja fái notið sín.
En í hita leiksins getur það alltaf gerst að stjórnmálamenn, jafnvel vanir stjórnmálamenn láti ýmislegt flakka gegn betri vitund, enda getur það ekki verið að Siv viti ekki betur en raun ber vitni um afstöðu VG til hagkerfisins og hin ýmsu rekstarform. En svona til fróðleiks fyrir Siv og aðra áhugasama um stefnu VG þá læt ég hér fylgja með smá texta úr stefnu VG um samfélag og atvinnulíf:
"Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill beita sér fyrir því að atvinnulífið þróist í átt til aukinnar fjölbreytni og nýti umvherfisvæna tækni. Sérstaka áherslu ber að leggja á stuðning við fjölbreytta nýsköpun, vöxt og viðgang lítilla og meðlastórra fyrirtækja. Atvinnufyrirtæki eiga að greiða eðlilega hlutdeild af hagnaði sínum í sameiginlega sjóði ríkis og sveitarfélaga. Koma verður í veg fyrir óhóflega gróðasöfnun í skjóli einokunar eða fákeppnisaðstöðu einstakra fyrirtækja og skattleggja sérstaklega gróða sem sprettur af nýtingarrétti atvinnurekenda á sameiginlegum auðlindum. Mikilvægt er að hefðbundnir atvinnuvegir, einkum við sjávarsíðuna og í sveitum landsins, þróist í sátt við samfélagið og verði til styrktar byggð í landinu öllu. Nýta ber sérstöðu Íslands og íslenskar auðlindir ásamt tækni og þekkingu til að skapa landsmönnum störf í fjölbreyttu og þróuðu atvinnulífi en varast ber að einblína á allsherjarlausnir og einstaka stóriðjukosti."
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.