Náttúrusiðfræði

Vinstrihreyfingin grænt framboð kynnti í síðustu viku "Græna framtíð" sem er stefna flokksins um sjálfbæra þróun. Hér er um ítarlegt og vandað stefnurit að ræða sem á vissan hátt markar tímamót í stefnumótunarvinnu í íslenskum stjórnmálum. Það sem er nýtt í þessari stefnu og ég hef ekki séð annarsstaðar er að leitað er í smiðju siðfræðinnar sem fræðigreinar til þess að marka spor í stefnumótun. Sérstakur kafli er í ritinu sem heitir "Náttúrusiðfræði". En náttúrusiðfræði er sú grein siðfræðinnar sem leitast við að líta á viðfangsefni umhverfis- og náttúru út frá sjónarhóli siðfræðinnar.

Það væri óskandi að allir flokkar leituðu í ríkari mæli til siðfræðinnar þegar pólitískar stefnur eru mótaðar en líta má á alla málaflokka útfrá sjónarhóli siðfræðinnar. Ef til vill á það eftir að verða, enda má segja að siðfræðin sé tiltölulega ung grein hér á landi og ekki margir sem hafa stundað skipulegt nám í siðfræði.

En hér er kominn fyrsti vísir að því að fagleg siðferðileg sjónarmið fái eitthvað vægi í pólitískri stefnumótun og nú er bara að halda áfram og koma á framfæri sjónarhorni siðfræðinnar að í fleiri málum. Mér dettur ekki síst í huga að næstu skref Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs yrðu siðfræðileg nálgun innflytjendamála, velferðarmála og barnaverndarmála.

JB

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

"hjól" siðfræði vísindanna og þar með tengsl manna við náttúruna eru löngu fundið upp - VG gerir sér engan greiða með að státa af slíkri umræðu - við hana fást þeir vísindamenn sem stunda slíkar rannsóknir - að auki sýnist mér Ómar ætla að sjá um að "finna upp hjólið" í þessum kosningum.

Þorleifur Ágústsson, 15.4.2007 kl. 23:45

2 Smámynd: Jóhann Björnsson

Í samanburði við margar aðrar þjóðir er saga skipulegrar faglegrar siðfræðiumræðu hér á landi stutt og áhrif þeirrar fræðigreinar því að sama skapi tiltölulega lítil ennþá. Með því að stjórnmálahreyfingar hverjar sem þær eru taki mið af siðfræðilegum sjónarmiðum í stefnumótun sinni eru þær fyrst og fremst að gera samfélaginu greiða þar sem áhrif siðfræðinnar ættu að hafa þau áhrif að nálgunin verði málefnalegri og skynsamlegri en oft tíðkast. Hvort VG sé að gera sjálfu sér greiða eða ekki er ekki aðalmálið þegar horft er á samband siðfræði og stjórnmála. 

Jóhann Björnsson, 16.4.2007 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband