13.4.2007 | 13:48
Frjálslyndiflokkurinn sáir fræjum haturs og tortryggni
Frambjóðandi Frjálslyndaflokksins í Reykjavík Viðar Helgi Guðjonshen skrifaði nýverið grein þar sem hann telur útlendinga sem hér búa vera rótina að öllum þeim vanda sem við okkur blasir.
Af lestri greinarinnar má klárlega álykta sem svo að útlendingar séu upp til hópa, berklasjúkir eiturlyfjasalar og skipulagðir nauðgarar sem halda laununum niðri og með öllu ómögulegt sé að kenna íslensku.
Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður Frjálslyndaflokksins sá ekki ástæðu til þess að bera á móti þessu harkalega sjónarmiði Viðars í viðtali við Egil Helgason og fram hefur komið að formaðurinn Guðjón Arnar Kristjánsson segir ummæli Viðars ekki koma sér við.
Um þessar mundir má heyra fréttir af vaxandi kynþáttahatri hér á landi þar sem m.a. er gróflega vegið að erlendum verkamönnum með slagorðum sem forysta Frjálslyndra notar, "Ísland fyrir íslendinga" auk teikninga af hakakrossi og manni sem hangir í snöru.
Forysta Frjálslyndra er klárlega að koma því til leiðar með málflutningi sínum, ákafa og tortryggni í garð útlendinga að kynþáttahatur og pirringur í garð útlendinga verði að vandamáli hér á landi. Ég hef því miður allt of oft lent í deilum við fólk sem er farið að pirra sig á þeim útlendingum sem það þarf að eiga samskipti við og iðulega er vitnað til Magnúsar Þórs og félaga hans í Frjálslynda flokknum til þess að rökstyðja það hversu skelfilegar manneskjur útlendingar eru.
Í einu tilviki spurði ég viðmælanda minn, eftir að hafa fengið langa ræðu pirrings og ofstopa að segja mér hvort það væri ekkert gott sem fylgdi þeim útlendingum sem hann ætti samskipti við. Hik kom á viðmælanda minn og átti hann erfitt með í útlendingapirringi sínum að viðurkenna að svo væri.
Það er fyrst og fremst Frjálslyndiflokkurinn með upphrópunum sínum og ofstæki sem er að koma í veg fyrir að heilbrigt fjölmenningarsamfélag þar sem allir fái notið virðingar þrífist hér á landi. Við höfum enn tækifæri til þess að byggja fjölbreytt samfélagi og læra af reynslu annarra þjóða og koma í veg fyrir að mistök sem átt hafa sér stað erlendis verði okkar hlutskipti. Því miður er Frjálslyndiflokkurinn langt komin með að eyðileggja þann möguleika með því að sá fræjum tortryggni og ofstækis.
JB
Greinin birtist í Morgunblaðinu í gær 12.apríl
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er í Frjálslynda flokknum. Ég hef ekki lesið grein Viðars Helga og hef ekki fullkomna yfirsýn yfir allt sem fulltrúar flokksins tjá sig opinberlega um málefni útlendinga.
Sjálfur er ég harðlínu anti-rasisti. Af því fólki sem ég best þekki og umgengst mest hjá Frjálslynda flokknum verð ég ekki var við útlendingaandúð. Þvert á móti verð ég var við áhuga fyrir því að útlendingum á Íslandi séu tryggð þau mannréttindi sem við Íslendingar viljum halda í heiðri.
Innan flokksins og utan mun ég berjast fyrir anti-rasisma og fordæmi allar tilhneigingar í aðra átt.
Jens Guð, 14.4.2007 kl. 02:11
Ég mæli eindregið með grein Guðjóns Arnar Kristjánssonar sem birtist í Morgunblaðinu í dag og nálgast má á heimasíðu Frjálslynda flokksins. Lýður Árnason læknir skrifar einnig góða grein í Mogga dagsins.
Magnús Þór Hafsteinsson, 14.4.2007 kl. 12:14
Hvað segir Jóhann Björnsson um þessa "hatursræðu" Steingríms J Sigfússonar
Það gefur auga leið að minni háttar hræringar, hæringar sem ekki merkjast þegar stórþjóðirnar væru að telja upp hjá sér, gætu sett allt úr skorðum á Íslandi. Það þarf ekki annað að gerast en það verði vinsælt á Spáni eða í Portúgal að fara í fiskvinnslu til Íslands og menn ryðjist hingað inn og bjóðist til að vinna hér fyrir miklu lægra kaup. Það þarf ekki nema bara að íbúar í tveimur til þremur blokkum í Lissabon kæmu hingað til þess að ójafnvægi gæti skapast á íslenska vinnumarkaðnum.
Sigurjón Þórðarson, 14.4.2007 kl. 12:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.