Forystumenn stjórnmálaflokkanna ræddu málin og gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum í sjónvarpinu í kvöld. Áherslur forystumannanna voru kynntar og það sem stóðu uppúr var þetta:
Jón Sigurðsson hefur ekki tekið eftir því að ójöfnuður í samfélaginu hefur aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar þrátt fyrir fréttir af því að margir eru farnir að trassa það að láta börnin sín fara til tannlæknis og þrátt fyrir matargjafir mæðrastyrksnefndar sem talað hefur verið um í fréttum að undanförnu.
Ómar Ragnarsson vill byggja kjarnorkuver.
Guðjón Arnar vill hið ómögulega, annarsvegar að halda þennsluhvetjandi aðgerðum áfram t.d. byggingu álvers á Húsavík og á sama tíma vill hann ekki fleiri útlendinga til landsins. Hverjir eiga þá að vinna við álversframkvæmdirnar?
Geir Haarde ætlar að sjálfsögðu að passa vel upp á fjármagnseigendur og helst að láta þá hagnast sem mest og best og virðist það vera í lagi að leyfa þeim að sleppa við að greiða til samfélagsins en þiggja engu að síður alla þá þjónustu sem veitt er á samfélagslegum grunni eins og skóla, sjúkrahús, löggæslu, gatnakerfi ofl ofl.
Ingibjörg Sólrún kom ekki á óvart heldur staðfesti þann grun minn að enginn veit hvað Samfylkingin vill í stóriðjumálum.
Er þá ekki bara ráð að kjósa Vinstrihreyfinguna grænt framboð?
Jú engin spurning.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Í Hagtíðindum hagstofunnar birtust nýlega gögn sem eru hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins sem einnig nær til EFTA landanna. Í tilkynningu hagstofunnar um könnunina sagði: „Af 31 Evrópuþjóð árið 2004 var ein þjóð með lægra lágtekjuhlutfall en Íslendingar, tvær með sama hlutfall en 27 þjóðir voru með hærra lágtekjuhlutfall. Tvær þjóðir voru með lægri fimmtungastuðul en Íslendingar en 28 með hærri stuðul. Loks voru þrjár Evrópuþjóðir með lægri Gini-stuðul en Íslendingar en 27 þjóðir með hærri stuðul.“
http://www.andriki.is/default.asp?art=08042007
Geir Ágústsson, 9.4.2007 kl. 21:45
STÖÐUGUR KJARNORKUVETUR greinilega í kollinum á Jóhanni Björnssyni. Það hefur enginn talað um að reisa ætti kjarnorkuver hérlendis. Við eigum meira en nóga orku hér, til dæmis í jarðhita, sem við getum nýtt til skynsamlegra hluta, til dæmis til að knýja áfram rafbíla okkar í framtíðinni, því bensín og olía eru ekki orkugjafar framtíðarinnar. Hins vegar er engin þörf fyrir okkur að virkja alla okkar gríðarlegu orku. Þar að auki bráðna jöklarnir ört og jökulárnar því horfnar eftir nokkra áratugi.
Ef framleiða ætti vetni eða metanól, sem kæmi í stað alls bensíns og olíu sem bíla- og fiskiskipaflotinn okkar notar nú, þyrfti til þess 3,7 terawattstundir (TWh) á ári, samkvæmt Braga Árnasyni fyrrverandi prófessor. Þá myndi útstreymi gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum hérlendis minnka um 57% frá því sem það er nú en talið er að úr vatnsorku og jarðhita á Íslandi væri hægt að framleiða um 50 TWh af raforku á ári. Ein terawattstund er 1.000 gígawattstundir. Enn er ekki hagkvæmt að selja héðan raforku um sæstreng til Evrópu, enda myndi það skapa meiri atvinnu fyrir okkur að nýta hana hér.
"Eitthvað annað" stóriðjusinna er stóriðjan sjálf, því árið 2003 var hlutur ál- og kísiljárnframleiðslu hér einungis 1,3% af landsframleiðslunni, en verslunar, veitinga- og hótelreksturs 11,7%, fiskveiða og fiskvinnslu 9,6%, samgangna 7,7%, menningar 4%, rafmagns-, hita- og vatnsveitna 3,4% og landbúnaðar 1,4%. Og landsframleiðslan eykst einungis um 1,2% með álverinu í Reyðarfirði.
Steini Briem (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 22:49
Takk fyrir fína pistla, Jóhann. Það eru greinilega ekki allir á sama máli og þú en það var nú vitað mál. En ég er það nú að mestu leyti og það er sosum engin spurning að maður krossar við Vinstri græna. Jebb, ekki spurning...
arnar valgeirsson, 9.4.2007 kl. 23:27
Gaman af því Jóhann, sem áhrifamaður innan Siðmenntar, finnst það vera ljóður á ráði ISG að hún er ekki Guð almáttugur sem veit allt. Er ekki í lagi að segja bara: Við tökum ekki afstöðu fyrr en eftir frekari rannsóknir?
Mér finnst það bara ábyrgt og flott að ákveða hvaða svæði við viljum vernda og í framhaldinu hvar við getum virkjað og hvernig við nýtum best þá auðlind okkur öllum til hagsbóta.
En mér þykir leitt að sjá þennan útúrsnúning hjá þér, þetta kallast ekki málefnaleg umræða. Ég hélt þú værir meiri maður en svo að leggjast í svona víking með stjórnarflokkunum, ég meira að segja setti dóttur mína í hendurnar á þér þegar hún fermdist borgaralega fyrir nokkrum árum. En svo bregðast krosstré....
Ibba Sig., 9.4.2007 kl. 23:54
Er einhver vafi hvað Samfylkingin vill í stóriðjumálum? Fresta ákvörðunum um frekari uppbyggingu þar til búið er að ganga frá rammaáætlun um náttúruvernd þar sem fyrir liggur hvaða svæði á að vernda og hvaða svæði má nýta til orkuöflunar í framtíðinni. Skynsamlegt, ekki bara út frá náttúruverndarsjónarmiðum, heldur líka ástandi atvinnu- og efnahagsmála. Samfylkingin boðar því ekki ótímabundið stopp til framtíðar á að Íslendingar haldi áfram að þróa nýtingu sjálfbærra orkuauðlinda til atvinnuuppbyggingar enda þekking á því sviði orðin sjálfstæð útflutningsgrein.
Er það misskilningur hjá mér eða voru ekki bæði Ómar Ragnarsson og Steingrímur J. farnir að tala á svipuðum nótum og lagt var upp með í Fagra Íslandi Samfylkingarinnar?
Ég hef nefnilega átt í mesta basli með að skilja hvað VG vill í stóriðjumálum. Stopp eða frestun en hvað svo? Um aldur og ævi, óháð mögulegum nýtingarkostum, kaupendum eða ástandi í atvinnu- og efnahagsmálum? Hér vantar öll svör.
Arn (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 00:28
Skil ekki hvað það er erfitt fyrir þig að skilja afstöðu Samfylkingarinnar í stóriðjumálum. Skýr stefna þar finnst mér. Vinstri Grænir? Nei takk.
Þórdís Bára Hannesdóttir, 10.4.2007 kl. 10:20
Mig langar til að segja við þig, Ibba Sig, að mér finnst úr takti að kvarta yfir umsjón Jóhanns með borgaralegri fermingu dóttur þinnar. Þar voru fleiri sem komu að og ekki veit ég þeirra stjórnmálaskoðanir. Sonur minn tók þá ákvörðun, og lét svo foreldra sína vita síðar, að hann vildi fermast borgaralega því hann var ekki viss með sína trú. Ég studdi hann algjörlega í því og var mjög ánægður með þá fræðslu sem krakkarnir fá þar og ekki talaði sonurinn á pólítiskum nótum eftir fræðsluna. Þó sjálfur styðji ég vinstri græna færi ég nú ekkert á hliðina þó fólk i öðrum flokkum hefði (og hefur sennilega) farið í gegnum fræðsluna hjá Siðmennt með honum. Og þess má geta svona í forbífarten, að ríkisstjórnarflokkarnir eru ofsa glaðir með að hafa staðið við sautján kosningaloforð af þeim fjörutíu sem þeir gáfu. En semsagt ekki tuttugu og þrjú! Það sem mér hugnaðist við Steingrím og félaga fyrir síðustu kosningar var einmitt að ekki voru gefin loforð sem vitað var að ekki yrði staðið við. Ekki fékk flokkurinn góða kosningu þá en það var heldur ekki verið að kaupa neitt á fölskum forsendum. En kannski fólk sé farið að fatta að það er þó hægt að treysta slíkum flokki. En það er ágætisfólk í öllum flokkum, svo og svartir sauðir og ef þú trúir á samfylkinguna, þá bara kýstu hana.
arnar valgeirsson, 10.4.2007 kl. 17:34
Ég er nú reyndar sammála þér hérna Arnar, ég var og er hæstánægð með það hvernig Jóhann kom fram við krakkana og fræðsluna sem þau fengu.
Kannski þess vegna er ég svo hissa þegar hann grípur til svona vísvitandi misskilnings á einfaldri stefnu Samfylkingar í stóriðjumálum. Mér finnst það bara ekki við hæfi, svona miðað við hversu klár, meðvitaður og vel upplýstur hann er.
Stjórnarflokkarnir ættu svo að skammast sín fyrir þennan lista, hann sýnir svart á hvítu hvernig þeir vinna. Og Steingrímur rúlar, það er satt. En ég kýs samt ekki flokkinn hans en óska VG alls hins besta því sterkur vinstri vængur með Samfó og VG er besta útkoma kosninganna í næsta mánuði. Því eyði ég ekki kröftum mínum í að snúa út úr öllum stefnumálum "samherjanna" á vinstri vængnum eins og við erum að sjá á þessu bloggi.
Ibba Sig., 12.4.2007 kl. 01:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.