25.3.2007 | 14:19
Útrunnin matvæli og hundruðir þúsunda fyrir einn fund á mánuði
Mikið hefur verið deilt um það á undanförnum vikum hversu mikill ójöfnuðurinn er í landinu. Ég held að það sé alveg óþarfi að fara í einhverjar fræðimannsstellingar til þess að deila um hvort ójöfnuðurinn sé meiri eða minni en áður hefur verið. Kjarni málsins er að ójöfnuðurinn hér á landi er gríðarlegur. Nægir að rifja upp fréttir liðinna daga af kjörum fólks því til staðfestingar. Annarsvegar höfum við fengið að heyra af fólki sem er svo fátækt að það þarf að og þiggja matargjafir reglulega. Fátæktin er slík að útrunnin matvæli eru vel þegin, jafnvel þau matvæli sem runnu út fyrir þremur árum.
Á sama tíma berast fregnir af stjórnarmönnum bankanna sem voru rétt í þessu að hækka við sig launin. Það er semsagt ekki nóg að keppa í bruðli og flottræfilshætti með nýársveislum sem kosta svo mikið að ég efast um að ég kunni að nefna slíkar tölur. Nei, nú eru það launin enn og aftur. Fram kom í fréttum Stöðvar tvö þann 1. mars að laun stjórnarmanna bankanna geta numið 350.000 krónur á mánuði fyrir einn einasta fund. Í sömu frétt kom einnig fram að nokkrir stjórnarformenn eru komnir með yfir eina milljón á mánuði. Þetta er samfélagsgerðin sem sköpuð hefur verið undanfarin ár og geri ég ráð fyrir því að stjórnarflokkarnir séu sælir með þennan árangur sinn.
Við sem stöndum að framboði Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs erum hinsvegar ekki sátt við þessa misskiptingu. Í æ ríkari mæli er verið að skipta þjóðinni upp eftir efnahag og breikkar bilið svo mikið að hæglega má tala um siðleysi í þessu samhengi. Að taka dæmi af börnum er nærtækt: Hvernig blasir þessi misskipting við börnum? Hvað halda þau börn sem lifað hafa á kornflexi sem rann út fyrir þremur árum að þau og fjölskyldur þeirra séu þegar þau heyra af börnum sem eiga foreldra sem fá 350.000 krónur fyrir að mæta á einn fund á mánuði og eru þá ekki aðrar tekjur taldar með?
Er það virkilega svona samfélag sem Íslendingar vilja byggja? Er einhver hér á landi sem á það skilið að borða útrunnar matvörur frá hjálparsamtökum á meðan hægt er að borga öðrum 350.000 kr fyrir einn fund? Svari nú hver fyrir sig. Ég veit hvert svar Vinstri grænna er.
JB
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.