21.3.2007 | 22:51
Þegar tískulöggan mætti kommagrýlunni skælbrosandi í fjólublárri skyrtu og ráðherrajakkafötum nýkominni úr litgreiningu
Ég man alltaf þegar ég var að að alast upp í Keflavík þá heimsótti ég ömmu mína a.m.k. einu sinni í viku, enda vorum við hinir bestu vinir. Amma hafði sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálunum og hélt oftar en ekki þrumu ræður á stofugólfinu eða við eldhúsvaskinn, allt eftir því hvar hún stóð hverju sinni þegar hinn pólitíski andi kom yfir hana. Amma var sósíaldemókrat og hafði alla tíð litið mikið upp til Hannibals.
En amma átti sér líka mikla fjandmenn í pólitík, menn sem hún óttaðist meira en nokkuð annað og hlustaði ég af athygli þegar hún talaði um þessa pólitísku andstæðinga sína en það voru kommúnistarnir. Hún lísti kommúnistunum sem því allra versta sem hægt væri að hugsa sér og voru þeir verri en nokkur grýla. Einu sinni man ég eftir því að í Dagblaðinu var mynd af Svavari Gestssyni þáverandi formanni Alþýðubandalagsins. Amma tók upp blaðið og sýndi mér myndina af þessum skelfilega manni og sagði eitthvað á þessa leið: "sjáðu skeggið á honum, það er algjör hörmung." Þannig var illa snyrt skeggið á Svavari álitið tákn um þá grýlu sem hann hafði að geyma, kommagrýlu eins og það var oft kallað suður í Keflavík. Ég hlustaði skelfdur á ömmu.
Síðan líða árin og heimsmyndin breytist og kommagrýlan sem svo oft var á sveimi hverfur svo að segja algjörlega. Amma jafnaði sig á þessu öllu með þýðu í alþjóðasamskiptum og sætti sig vel við það að ég hafi ákveðið að ganga til liðs við þá sem hún áður taldi holdgervinga kommagrýlunnar. Ég held meira að segja að hún hafi farið að kjósa okkur kommana í bæjarstjórnarkosningum.
Síðan hverfur amma á vit forfeðra sinna og ég heyri ekki meir af kommagrýlunni..... fyrr en núna nýlega.
Þá er það svo að Sigurður nokkur Kári rifjar upp á heimasíðu sinni að kommagrýlan er ekki alveg dauð. Honum er nú heldur brugðið enda er kommagrýlan sem hann mætti niðri á Alþingi hvorki skapill, ljót né heldur hefur hún neitt illt í huga og því síður hefur hún illa snyrt skegg. Nei Sigurður hefur þvert á móti áhyggjur af því að kommagrýlan sem nú er komin fram er skemmtileg, jákvæð, hugmyndarík, vinsæl í skoðanakönnunum, kemur vel fyrir, er málefnaleg, brosmild og er óhrædd við að máta ráðherrabúninga og búning landsföður og fara í diskógalla og lesa Jónas Hallgrímsson og ég veit ekki hvað og hvað.
Kommagrýla nútímans er nefnilega bara mjög flott og til í að taka við stjórn landsins og rétta af ruglið sem núverandi stjórn hefur komið af stað. Og hún er ekkert að þykjast vera eitthvað annað en hún er og þó að Sigurður Kári segi að hún þykist vera græn til að fela sósíalismann þá hefur hún ekkert að fela. Kommagrýlan sem hann talar um er nefnilega í rauninni græn og hún er ekki bara græn, hún er líka rauð og róttæk og skammast sín ekkert fyrir það og það sem meira er, hún er líka bleik og kvenfrelsissinnuð. Og þegar allt þetta er lagt saman þá gerir þetta hana að flottum valkosti fyrir kosningarnar í vor.
Því er ekki að ástæðulausu sem ég spyr hvort að ég hafi fundið fyrir ótta í skrifum Sigurðar Kára?
Dæmið sjálf með því að kíkja á www.sigurdurkari.is greinin heitir Fóru Vinstri grænir í litgreiningu.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.