Þegar lífsgæðin felast í roki, rigningu, myrkri og sjó

Ég er svo lánsamur að eiga nágranna sem eru pólskir. Já ég segi lánsamur vegna þess að það víkkar óneytanlega sjóndeildarhringinn að umgangast og fylgjast með fólki sem sest hefur hér að.

Þegar ég hef verið með fordómafræðslu með nemendum mínum og spurt þá að því hvaða hópar á Íslandi verði fyrir fordómum verða pólverjar ansi oft nefndir. Það er miður og tel ég það, eins og yfirleitt er með fordóma felast í því að fólk hefur ekki fengið að kynnast eða hefur jafnvel ekki viljað kynnast af einhverjum ástæðum. Nú eru það svo að pólsk börn eru nær daglegir gestir á heimili mínu og eru það að mínu mati óneitanlega forréttindi barnanna minna að fá að kynnast börnum af öðru þjóðernir í uppvexti sínum. Við erum öll að læra eitthvað nýtt af samskiptum okkar við pólverjana og er lærdómur ekki jákvæður?

Það sem við höfum lært af pólverjunum er ýmislegt, en þó finnst mér það athyglisverðasata er að læra að njóta brjálaða veðursins á Íslandi. Það er oft stutt í að maður kvarti undan roki, rigningu og myrkri. En nágrannar mínir hinir pólsku hafa gefið mér annað sjónarhorn á brjálaða veðrið. Það er ekki eins slæmt og ætla mætti eða m.ö.o. þá má upplifa það öðruvísi en á neikvæðan hátt.

Í kvöld bankaði pólska fjölskyldan uppá og sagðist vera að fara út í Gróttu til þess að upplifa rokið, rigninguna, myrkrið og öldurnar og spurðu hvort dóttir mín vildi ekki koma með sem og hún gerði.

Þetta finnst mér frábært. Að fólki komi alla leið frá Póllandi og sýni manni að það er hægt að hafa gaman af veðrinu sem mörg okkar blótum alltof oft. Já gott ef ég er ekki farinn að spá í að fara með þeim næst niður í fjöru þegar gerir brjálað veður og athuga hvort ég sé ekki veðrið í öðru ljósi.

Svo sannarlega getur maður lært ýmislegt af útlendingunum. Það er bara spurning hvort hinir "frjálslyndu" í pólitíkinni hefðu ekki líka gott af því að fara í eins og eina fjöruferð með pólskri fjölskyldu í brjáluðu veðri.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðlaugur Kristmundsson

Þetta er öfundsvert, ég hélt að ég væri Pollýana, en ég á langt í land. Ég ætla að fara á hestbak næst þegar það er lárétt rigning - það er svo magnað fyrirbæri, sérstaklega ef maður fer hart á móti rokinu.

Guðlaugur Kristmundsson, 11.3.2007 kl. 02:17

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þetta er náttúrulega hrein snilld hjá nágrönnum þínum. Það er reyndar fátt fallegra en að vera við fjöruborðið í hávaðaroki. Þetta minnir mig á þegar ég var strákur, þá fór ég einmitt oft út að leika mér þegar var mikið rok. Mest spennandi þótti mér að nota úlpuna sem segl og berjast gegn vindinum sem streymdi milli tveggja blokka í Breiðholtinu.

Hrannar Baldursson, 11.3.2007 kl. 16:49

3 Smámynd: Jens Guð

Ég deili húsnæði með Kínverjum.  Það er lærdómsríkt og gaman.  Reyndar tala þeir ekki ensku og afar takmarkaða íslensku.  Samt eru þeir alltaf að reyna að læra meira í íslensku. 

Svo misskilja þeir sumt,  eins og gengur.  Eitt sinn var ég með fangið fullt af dóti á leið inn til mín.  Kínverji var nærstaddur,  hljóp til og opnaði fyrir mig útidyrahurðina.  Ég sagði á íslensku:  "Takk fyrir hjálpina."  Hann svaraði:  "Sömuleiðis."

Það má líka fá betri skilning á íslensku með því að fylgjast með Kínverjunum.  Ég mætti Kínverja um klukkan 7 að kvöldi.  Í hugsunarleysi varð mér á að segja:  "Góðan dag."  Kínverjinn leiðrétti mig:  "Gott kvöld,"  sagði hann,  tók af sér úrið og sýndi mér með látbragði að það á að bjóða góðan dag til klukkan 6.  Eftir það á að bjóða gott kvöld.

Jens Guð, 11.3.2007 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband