Ég hef í 40 ár verið viðskiptavinur Sparisjóðanna. Fyrst í Sparisjóðnum í Keflavík og síðan í SPRON. Ég á að vísu enn tvo reikninga i Sparísjóðnum í Keflavík en viðskipti mín eru ekki stórvægileg og eru sem stendur aðallega við SPRON. Sparisjóðurinn hefur verið í mikilli en jafnframt fíflalegri auglýsingaherferð að undanförnu þar sem fólk á að vera að segja upp bankaviðskiptum sínum í þeim tilgangi að færa öll viðskipti til Sparisjóðsins. Í auglýsingum sínum þykist Sparisjóðurinn vera eitthvað betri en aðrir bankar en er hann það?
Þrátt fyrir þessar auglýsingar og þrátt fyrir viðskipti mín við Sparisjóðinn undanfarin 40 hef ég hvergi getað séð að Sparisjóðurinn sé eitthvað betri eða verri en aðrir bankar. Í mínum augum eru bankar á Íslandi bara bankar. Þeir eru allir gráðugir, reyna að fá mann til þess að skulda sem mest til þess að græða á manni (það var jú Sparisjóðurinn sem bauð mér að greiða jólaneysluna niður á þremur árum, hugsið ykkur fíflaganginn í einu fyrirtæki), þeir hafa allir sambærileg þjónustugjöld og allir eyða þeir gríðarlegum kostnaði í auglýsingar sem eru greiddar af okkur viðskiptavinunum þegar upp er staðið, og ofurlaunin eru þau ekki líka hjá öllum toppunum hverju nafni sem þeir nefnast?
Þeir eiga semsagt allir í "hegðunarvanda" svo ég noti orðalag Harðar Bergmann sem ræðir m.a. hegðunarvanda fyrirtækja í nýju bókinni sinni, en sá vandi felst m.a. í að mati Harðar á stórgróða, samráði ofurlaunum, gjöld til þess að fá að greiða reikningana, uppgreiðslugjöldum á lánum, kostnaðarsömu auglýsingaglamri og svona mætti áfram telja.
Ef Sparisjóðurinn hefði virkilega áhuga á að vera betri banki en aðrir bankar myndi hann hætta að láta okkur viðskiptavinina greiða fyrir auglýsingaherferðina og í staðinn leitast við að lækka þjónustugjöldin. Þá væri bankinn farinn að tala mannamál. En eins og staðan er núna þá dettur mér eiginlega ekkert í hug þegar ég sé auglýsingar bankans annað en að kannski ætti ég bara að láta hann róa eftir þessi 40 ár. Ég hvorki græði né tapa þó ég færi viðskipti mín annað. Það er sami rassinn undir þeim öllum.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.