Eins og flestum er kunnugt hefur svokölluð Vinaleið, þjónusta Þjóðkirkjunnar sem rekin hefur verið í grunnskólunum valdið miklum deilum í samfélaginu. Ekki hefur alveg verið ljóst hvernig tekið verður á málinu af hendi skólayfirvalda en nú hefur Heimili og skóli sem eru landssamtök foreldra tekið afstöðu í þessu umdeilda máli og sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
"Þann 11. nóvember 2006 sendi stjórn Heimilis og skóla erindi til skólanefndar Álftaness, Garðabæjar og Mosfellsbæjar um fyrirkomulag Vinaleiðar í viðkomandi sveitarfélögum. Skemmst er frá því að segja að það tók skólanefndirnar rúma tvo mánuði að svara erindinu en þess var óskað að svör bærust innan hálfs mánaðar enda mikil umræða um þjónustuna í samfélaginu. Í ljósi þeirra svara sem stjórninni bárust vill hún koma eftirfarandi á framfæri:
Umræðan sem þjónustan Vinaleið hefur skapað í samfélaginu kallar á að sveitarfélög taki af öll tvímæli um hvers eðlis þjónusta í skóla eigi að vera og á hvers vegum. Stjórn Heimilis og skóla telur nauðsynlegt að sveitarfélög í fullu samráði við hagsmunaaðila marki sér almennar starfsreglur og taki sameiginlega ákvörðun um tilboð um viðbótarþjónustu sem alla jafna er ekki hluti af hefðbundnu skólastarfi eða stoðþjónustu, s.s. kostun á einhverju verkefni eða þjónustu eins og Vinaleið.
Stjórn Heimilis og skóla telur enga ástæðu til að ætla að tilgangur með þjónustu Vinaleiðar sé trúboð í skólum. Þeim misskilningi þarf að eyða í hugum starfsmanna skóla, foreldra og annarra í samfélaginu. Að sama skapi hefði í upphafi átt að gera forsjármönnum barna með skýrum hætti ljóst að um valkvæða þjónustu er að ræða og að þeir gætu tekið ákvörðun um að segja barn sitt frá þjónustunni.
Vinaleið er hugsuð sem stuðningur við börn en ekki meðferðarúrræði. Á sama tíma og það er mikilvægt að tala ekki niður stuðning við börn telur stjórn Heimilis og skóla brýnt að sveitarfélög endurskoði almennt stoðþjónustu skóla og þörf barna og forsvarsmanna þeirra fyrir slíka þjónustu. Ætla má að í einhverjum tilfellum hafi Vinaleið komið í staðinn fyrir aðra sérfræðiþjónustu en ekki er ljóst hvort þeir sem sinna henni hafi til þess tilskilda menntun sbr. reglugerð um sérfræðiþjónustu í skólum.
Grunnskóla er ætlað að stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers barns. Mikilvægt er að friður ríki á hverjum tíma um þá þjónustu sem býðst innan skólans. Með tilliti til jafnræðissjónarmiða og með vísan í 2. grein grunnskólalaga, telur stjórn Heimilis og skóla eðlilegra að til framtíðar standi sálgæsluþjónusta Þjóðkirkjunnar börnum og forsvarsmönnum þeirra til boða utan húsakynna skóla, eftir að skóladegi lýkur."
Full ástæða er til að taka undir með Heimili og skóla þar sem hvatt er til þess að yfirvöld menntamáli taki afstöðu í málinu og marki verklagsreglur um það hvernig þjónustu boðið sé upp á í skólunum, hvaða kröfur eru gerðar til þeirra sem sinna þjónustunni og hverjir af utanaðkomandi aðilum fái heimild til þess að reka starfsemi sína í skólunum. Ég tel að farsælast sé að sem fæst félagasamtök fái aðgang að skólunum og alls engin trú- eða lífsskoðnunarfélög, skólarnir eiga að vera hlutlausar menntastofnanir.
Það ber að ríkja sátt um starfsemi grunnskólans.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:36 | Facebook
Athugasemdir
Nánast að öllu leyti er ég sammála þessari fréttatilkynningu frá samtökunum Heimili og skóli nema þá helzt lokasetningunni. Og ég vil undirstrika, að eftirfarandi setningar í yfirlýsingunni eru fjarri því að staðfesta þá gagnrýni, sem Vinaleiðin hefur fengið á sig frá ýmsum Siðmenntarmönnum og trúlausum:
"Stjórn Heimilis og skóla telur enga ástæðu til að ætla að tilgangur með þjónustu Vinaleiðar sé trúboð í skólum. Þeim misskilningi þarf að eyða í hugum starfsmanna skóla, foreldra og annarra í samfélaginu.
Jón Valur Jensson, 6.3.2007 kl. 10:26
Af hverju ættu foreldrar að þurfa að "segja barn sitt frá þessu" ? Púkanum finnst það í hæsta máta óeðlilegt - nær væri að fara fram á að foreldar þyrftu sérstaklega að óska eftir því að börnin tækju þátt í þessu.
Púkinn, 6.3.2007 kl. 18:01
Hárrétt hjá þér Púki.
Þórhallur Halldórsson (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 10:55
Jón Valur vitnar í þessu klausu:
"Stjórn Heimilis og skóla telur enga ástæðu til að ætla að tilgangur með þjónustu Vinaleiðar sé trúboð í skólum. Þeim misskilningi þarf að eyða í hugum starfsmanna skóla, foreldra og annarra í samfélaginu."
Vandamálið við þessa klausu Heimilis og skóla er að Séra Jóna Hrönn Bolladóttir, prestur í Garðabæ og forsvarsmaður Vinaleiðar þar í bæ lýstir því yfir á opnum fundi í Garðabæ um daginn að Vinaleið væri trúboð. Hún sagði orðrétt, þegar hún var spurð hvort Vinaleið væri trúboð:
"Það er bara ekki hægt að nota þetta orð lengur, trúboð er bara orðið jafnt og ofbeldi. Þannig að það er bara eðlilegt að við notum bara ekki orðið trúboð, en það er það. Það fylgir bara presti, embætti hans og því sem hann stendur fyrir og persónu, það fylgja því bara ákveðin skilaboð."
Þannig að Vinaleið er trúboð og Vinaleið er einungis fyrir Þjóðkirkjubörn (Biskup Íslands í Kompásþætti)
Matthías Ásgeirsson
Matti (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 14:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.