3.3.2007 | 21:36
Rætt um siðfræði í skólastarfi
Siðfræði í skólastarfi
Erindi flutt við Háskóla Íslands í mars 2007 (Hér er aðeins um stutt ágrip að ræða þar sem ég talaði án þess að hafa skrifaða ræðu)
Föstudaginn 2.mars ræddi ég í Háskóla Íslands hugmyndir mínar um siðfræði- og heimspekikennslu á unglingastigi. Ég fór að stunda heimspeki og siðfræði með unglingum fyrir rúmum 10 árum þegar ég hóf að kenna á undirbúningsnámskeiðum Siðmenntar fyrir borgaralegar fermingar. Síðan hef ég jafnframt lagt stund á þessar greinar með nemendum í Réttarholtsskóla ,en þar hef ég unnið að þróunarverkefni í siðfræði undanfarna mánuði. Þar sem ekki allir sem áhuga höfðu á að hlusta höfðu tök á að koma fara nokkur atriði úr spjalli mínu hér á eftir.
Markmið Siðfræðiástundunar með unglingum
Hvert er markmiðið með því að stunda siðfræði með nemendum? Yfirmarkmiðið er að þjálfa nemendur í að koma auga á það sem getur talist á einhvern hátt siðferðilega athugavert og fá þá til þess að bregðast við. Þannig að það er verið að leitast við að efla siðferðilegt sjálfræði nemenda sem þýðir að þau komi auga á og bregðist á gagnrýnin og meðvitaðan hátt við siðferðilegum vanda í þeirra hversdagslega lífi.
Hvernig er farið að?
Verkefninu er skipt niður í fjóra meginþætti: A) Gagnrýna hugsun og mikilvægi gagnrýnnar hugsunar í siðfræði. B) Uppbyggileg og heiðarleg rökræða og mikilvægi hennar í siðfræðiástundun. C) Hvernig lífi er best að lifa (hér er vísað til siðfræðinnar sem leið til þess hafa áhrif á lífsstíl). D) Að vakna til vitundar um siðferðileg álitamál og ígrunda leiðir til að bregðast við þeim. (hér fæst ég fyrst og fremst við nánasta umhverfi nemenda og reyni að halda skálduðum dæmisögum (svokölluðum klípusögum) í lágmarki þar sem nemendur átta sig vel á því að þær eru mjög oft óraunverulegar og jafnvel óraunsæjar). Þess í stað nota ég mikið raunverulega reynslu fólks sem ég finn í frásögnum og fréttum.
Það er vel mögulegt að taka fyrir einn lið þessarar heildar og ekki annan og stundum gerir maður það, en það fer eftir hópum og samhengi kennslunnar. Það sem maður þarf einnig að hafa í huga er að viðfangsefnin höfði til nemenda og kveiki frekari áhuga eða forvitni á að bregðast við lífinu á siðferðilegan hátt. Ef við skoðum hvern lið fyrir sig þá erum við að gera eftirfarandi hluti í tímum:
A) Gagnrýnin hugsun: Hefðbundin útlistun á því hvað gagnrýnin hugsun er og mun á gagnrýninni hugsun og ógagnrýninni. Þetta geri ég t.d. með því að láta nemendur velta fyrir sér auglýsingum, fréttum og stuttum greinum. Þeir fá tækifæri til þess að greina rökfærslur sem fram koma og bregðast við þeim Einnig leyfi ég nemendum að virkja hugsun sína með rökþrautum, gátum sem er þá einnig til þess fallið að gera eitthvað skemmtilegt saman um leið og þau þurfa að virkja hugsun sína.
B) Uppbyggileg og heiðarleg rökræða: Flest ungmenni eiga ekkert sérstaklega auðvelt með að rökræða en þau eiga auðveldara með að kappræða og vera í einhverju þrasi. Það er því mjög mikilvægt að kynna fyrir þeim rökræðuna og kosti hennar og muninn sem er á rökræðu annarsvegar sem leið til þess að komast að því sem er satt og rétt og kappræðu hinsvegar sem leitast við að sigra andmælandann burtséð frá réttmæti málstaðarins og gæði röksemda. Þegar við förum að takast á við álitamál þá er þess gætt að umræðan lendi ekki í einu allherjar þrasi sem leiðir okkur ekki að neinni niðurstöðu. Því er lögð áhersla á 1) Virka hlustun 2) Gefa sér tíma til að vega og meta eigin skoðanir og rök sem og annarra. 3) Tjá sig á skipulegan og yfirvegaðan hátt. 4) Að vera reiðubúin að skipta um skoðanir án þess að það þyki nokkuð skammarlegt.
C) Rökræðan um hið góða líf: Siðfræðinni var í árdaga ætlað það hlutverk að fást við það í hverju hið góða líf væri fólgið. Ég tel það mjög mikilvægt að halda því inni hér vegna þess að nemendur kjósa sér einhvern lífsstíl, ýmist á meðvitaðann hátt eða ómeðvitaðan sem er misjafnlega góður. Að rökræða lífstílinn á gagnrýnin og yfirvegaðan hátt er því ákveðinn lykill að því að móta líf sitt á ábyrgan hátt. Hvernig líf er gott líf? Hvaða áhrif á hefur lífstíll minn á aðra? Hvaða áhrif hefur lífstíll minn á sjálfan mig, er þetta eitthvað sem mun færa mér gæfu eða þvert á móti verða mér til bölvunar?
D) Að átta sig á siðferðilegum álitamálum: Hér erum við væntanlega komin að veigamesta þætti þessa þróunarverkefnis, það er að fást við siðferðileg álitamál sem slík. Ég skipti umfjölluninni í þrjá meginflokka en það er útfærsluatriði hvernig þeir eru teknir, kannski saman eða í sitt hvoru lagi. a) Mál sem snerta lífstíl og afstöðu einstaklingsins til eigin lífs b) Mál sem snerta samskipti við annað fólk c) Mál sem snerta umhverfið, bæði nánasta umhverfi sem og umhverfið hnattrænt.
Hvað svo?
Hvernig fer maður að því að fá nemendur til þess að koma auga á siðferðileg álitamál og efla siðferðilegt sjálfræði sitt? Ég nota stef úr klassískri siðfræði í umræðum eins og:- Hvað ef allir .? Hvað ef allir gerðu eins og ég? Hvernig væri þá samfélagið, skólinn, bekkurinn osfrv?- Hvað ef maður væri í sporum hins. Hvernig vildi maður þá hafa hlutina? - Og einnig stef frá Epíkúrusi með ánægjuútreikning.Veitir ákveðin breytni manni ánægju þegar til lengri tíma er litið eða er um skyndiánægju að ræða sem verður síða að gríðarlegri óánægju stuttu síðar? (Sjá nánari útlistun á þessari hugmynd í: Lucretius De rerum natura eða On the nature of things)- Og einnig stef frá Aristótelesi um að rata meðalhófið á milli tveggja öfga. - Og líka dreg ég fram hamingjuhugsun ef við á sbr. Er umrædd breytni þess valdandi að fólk verði hamingjusamt eða óhamingjusamt. Þannig má segja að ég noti mismunandi stef úr siðfræðikenningum eftir því hvað ég tel best eiga við hverju sinni, allt eftir því hvernig viðfangsefnin eru og leyfi ég nemendum að velja hvað þeir telji styrkja sjónarmið sín.
Hvað nota ég í tímum:
· Atburði úr hversdagsleikanum: Til dæmis; Þekkir þú einhvern sem hefur svindlað á prófi, hnuplað úr búð, skemmt eigur osfrv?
· Nota greinar og fréttir úr blöðum þar sem siðferðileg álitamál koma fyrir. (Finna má slíkt nánast daglega og hef ég vart undna að klippa út úr blöðum fréttir af einhverju sem skoða má betur með gleraugum siðfræðinnar)
· Nota einnig en þó frekar lítið tilbúnar siðklemmur eða klípusögur (er nemendum frekar óraunverulegt nema ég hafi eitthvað sem hefur í raun gerst.
Þetta er grunn stefið í siðfræðikennslunni en síðan í fyrirlestri mínum við HÍ sýndi ég þau gögn sem ég nota í kennslustundum, greinarnar, myndirnar, fréttirnar og frásagnirnar. Þannig fengu áheyrendur að setja sig í stutta stund í spor nemenda minna. Ég vona að þetta skýri að einhverju leiti það sem ég er að gera með nemendum mínum í siðfræði.
Skúli Pálsson kennari og heimspekingur var á meðal áheyrenda og skrifaði á vefsíðu sína það sem hann upplifði á fyrirlestri mínum. Sjá nánar: http://www.123.is/skulip/
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.