24.2.2007 | 21:11
Hundasúrur og fjallagrös eða álver í hverja sveit?
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs stendur yfir núna um helgina og hefur umræðan þar verið mjög frjó. Í dag var málþing um atvinnulíf sem var virkilega spennandi. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur alloft verið sökuð um að vilja byggja atvinnlíf þjóðarinnar á því að senda landsmenn á fjöll til að tína fjallagrös og hundasúrur. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti hundasúrum og fjallagrösum en þetta skot á VG kemur fyrst og fremst til af þeirri gagnrýni sem við höfum haft á núverandi stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar sem vill að því er virðist álver helst sem víðast.
Ríkisstjórnin og allnokkur fjöldi fólks lítur svo á að atvinnulífið eigi að vera þess eðlis að ríkið skammti fólki verksmiðjur sem það vinnur síðan í til æviloka. Þegar ég ólst upp í Keflavík þá var þessi hugsunarháttur ríkjandi. Okkur krökkunum sem og öðrum var talið trú um að ef herinn færi yrði ekki um aðra atvinnu að ræða. Mikill fögnuður greip iðulega um sig þegar tilkynnt var um aukinn hernaðarumsvif en að sama skapi greip um sig mikil skelfing ef útlit var fyrir að ekki væri þörf á frekari hernaðarumsvifum. Gott ef frjálst hugarflug og tillögur um annarskonar atvinnustarfsemi hafi ekki verið álitið hálf vafasamt á þeim tíma.
Þetta er rangur hugsunarháttur þegar rætt er um atvinnulíf. Það er atvinnulífinu ekki hollt að ríkið eitt komi með stórar lausnir sem allir verða að trúa á. Slíkt slævir skapandi hugarflug um þá möguleika sem kunna að vera fyrir hendi og gætu allt eins verið mun arðbærari er stór mengandi verksmiðja í boði ríkisins.
Á málþinginu í dag kom fram mikilvægi þess að leggja rækt við sköpunarkraftinn, virkja hugann til þess að sjá tækifærin sem við höfum. Þegar það er lagt til að við könnum þá möguleika sem við höfum til fjölbreytts atvinnulífs erum við oft og iðulega krafin svara um hvað það er nákvæmlega sem við ætlum að bjóða upp á í atvinnumálum. Við viljum meira af smáum og meðalstórum fyrirtækjum, en það væri ekki rétt af VG að skipa svo fyrir um að svo og svo mörg smá trésmíðaverkstæði væru við þessa götu og svo væri plastpokagerð við hina götuna og kannski væri kjötvinnsla í næstu götu osfrv.
Ef við gerðum það værum við búin að negla atvinnulífið allt niður í einhverskonar gamaldags Sovétskipulag. Það sem við þurfum að leggja áherslu á er að vera hvetjandi til þess að þeir sem áhuga hafa á fyrirtækjarekstri greini tækifærin í sinni heimabyggð og fái stuðning til þess að koma hugmyndum sínum af stað. Þannig byggjum við upp fjölbreytt og spennandi atvinnulíf. Við megum nefnilega ekki gleyma því að fólk er í síauknum mæli farið að vilja vinna við störf sem það telur spennandi. Vinna er víst ekki lengur bara vinna.
JB
Sjá einnig http://blog.central.is/johannbj
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
...og prjónastofunum. Vandamálið við VG er að þar er ekki að finna eina einustu manneskja sem vit hefur á atvinnulífinu, hvað það er að reka fyrirtæki, hvað þá að stofna til nýs atvinnurekstrar. Þ.a.l. er VG eins langt frá því að geta verið trúverðugt afl þegar að þessum mjög svo mikilvæga þætti kemur.
Sigurður J. (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 05:53
Það er hægt að láta sér detta sitt lítíð af hverju í hug t.d. að týna grös frekar en ríkisrekna atvinnustefnu. En Marel fer frá Ísafirði..
Pétur Þorleifsson , 25.2.2007 kl. 10:54
Afsakið þetta er tengillinn um að tína (með einföldu íi) grös : http://www.grasagudda.is/?q=node/1407 Læknir einn gerir mikið af því að tína ber á haustin. Hann segir að honum líði vel og sé þakklátur þegar hann stendur í berjatínslunni.
Hvaða bækling var Ómar að tala um sem vinstri grænir gáfu út fyrir norðan þar sem voru útlistaðar alls konar hugmyndir ?
Pétur Þorleifsson , 25.2.2007 kl. 11:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.