Væri ekki ráð að koma á fót kennaraeftirliti ríkisins?

Nýverið sendi Félag grunnskólakennara bækling inn á hvert heimili þar sem reynt er að sannfæra almenning um að kennarar séu nú eitthvað að vinna. Ástæða þótti til að prenta sérstakan bækling þar sem ýmsir hafa gefið sterklega í skyn og jafnvel sagt það berum orðum að það eina sem kennarar geri í vinnunni sé að vinna ekki vinnuna sína. Bæklingur þessi ber þess nokkur merki að vera innlegg inn í kappræðu við þá sem halda því fram að kennarar yfirhöfuð vinni ekki. Víst segja kennarar og hinir meintu viðmælendur segja þá nei og kennarar segja þá aftur víst og svona er karpað endalaust um skólamál nei, víst, nei, víst, nei, víst, nei, víst....... Þarna er komin dæmigerð lýsing á skólamálaumræðunni hér á landi. Sú umræða snýst nær eingöngu um það hvort kennarar séu í raun eitthvað að vinna yfirhöfuð. Síður er spurt um námsárangur, líðan nemenda, þroska þeirra og færni. Jú rétt er að taka fram að af og til er tekin umræðusyrpa um samræmdu prófin.

Í áðurnefndum bæklingi er því haldið fram að kennarar fái ekki meira frí en aðrir, því er einnig haldið fram að kennarar vinni líka þegar þeir eru ekki í kennslustofunni. Og nú klóra margir sér í höfðinu og spyrja: "Hvernig getur kennari verið að vinna þegar hann er ekki að kenna beinni kennslu?" Mörgum er það lífsins ómögulegt að skilja það að hægt er að vinna við kennslu án þess að vera alltaf að kenna.

Ég fór til dæmis með hóp af nemendum í dag í heimsókn niður á Alþingi. Ég var ekkert að kenna á meðan við sóttum þingið heim en var ég í vinnu? Það hvarflar ekki að mér að svara þeirri spurningu heldur er þetta fínt verkefni til úrlausnar fyrir þá sem vilja koma á fót einhverskonar "vistaskyldu" kennara inni í lokaðri kennslustofu þar sem viðvörunarbjöllur hringja leggi þeir krítina frá sér eitt augnablik.

Það er athyglisvert hversu mörgum er mikið í mun með að vilja binda kennarana við borðfæturna á kennaraborðunum í skólastofunum helst frá kl. 08.00-17.00 alla virka daga. Magn viðverustunda er þannig álitið tákn um gæði í skólastarfi en er það svo? Ég dreg það stórlega í efa. Þeir hinir sömu sem vilja tjóðra kennara við stólinn hefðu þá væntanlega viljað að ég væri með staðsetningartæki um ökklann þegar mér dettur annað eins í hug eins og að fara út úr skólastofunni og heimsækja Alþingi og taka nemendur með. En málið er bara það með starf kennarans eins og Félag grunnskólakennara hefur því miður þurft að útskýra, svo miklu meira heldur en skólastofa og rígbundin viðvera.

Þó að öllum kennurum sé þetta fullljóst held ég að það sé ekki til neins að gefa út bækling um málið, það eru svo margir sem vilja ekki skilja eðli starfsins.

En aftur af ferðinni í dag niður á Alþingi. Krakkarnir vildu náttúrulega vita af hverju svona fáir þingmenn væri við í þingsalnum og héldu sumir því fram að þingmennirnir væru ekkert að vinna vinnuna sína. En konan elskulega sem tók á móti okkur var svona eins og Félag grunnskólakennara og sagði að það væri margt annað vinna hjá alþingismönnum heldur en að sitja í þingsalnum. Þannig að þingmennirnir áttu alla mína samúð við þessari gagnrýni nemenda minna.

JB

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

Góður pistill.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 20.2.2007 kl. 21:33

2 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Já flott grein og góður endir

Ég held nefnilega að sumt af þessu fólki sem er að koma inná heilu stéttirnar með tímasparnaðar og skipulagsformúlur séu ekki endilega að gera góða hluti. Það er mikið ófrelsi sem getur fylgt því að fylgja "skyldunni" um of.  Þegar verið er að búa til skyldur.

Svo þar eð ég hef verið að kenna líka veit ég að jafnmikill tími fer í að undirbúa önn, tíma, eiga við nemendur, fylla út pappíra, meðmælabréf, umsóknir, fara yfir verkefni etc etc. Svo á ég til að eyða allt of miklu af eigin pening við að kenna án þess að vera að biðja um að fá endurgreitt.
Jæja allavega, góður pistill.

Ólafur Þórðarson, 21.2.2007 kl. 04:53

3 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Veffari. Það þú ætlaðir væntanlega að segja og svo framvegis, eða er það ekki ?

Ég er ein af þeim sem hef fylgst með málefnum kennara og nemenda í mjög mörg ár og ég man eftir ýmsu í kjarabaráttu kennara.

Fyrir nokkurum árum  höfðu kennarar ekki aðstöðu til undirbúnigns í skólanum og neyddust því til að vinna þá vinnu heima hjá sér. Fyrir það vildu þeir fá og fengu greitt sérstakt álag. Nokkrum árum síðar var farið fram á að þeir sinntu þessum undirbúningi í skólanum þar sem nú væri aðstaða til þess auk þess að skólastjórar vildu geta stýrt þeirri vinnu og fóru fram á að kennarar ynnu saman t.d. fyrir hvern árgang. Þá brá svo við að þessir kennarar vildu alls ekki inna þessa vinnu af hendi í skólanum öðru vísi en að fá sérstaklega greitt fyrir það!!!!!

Er það nema vona að maður verði hvumsa.

Svo veit ég líka að  ein ástæða fyrir þessu viðhorfi almennings til kennara er einfaldlega eigin reynsla af þeim. 

Hún er alltof oft slæm, það þekkja allir dæmi um afleita kennara sem ekki nokkur leið hefur verið að losna við. Margir eiga mjög slæmar minningar af sinni skólagöngu sem situr í þeim alla tíð og í því þarf að vinna.

Kennarar verða viðurkenna að sumir þeir sem eru að kenna ættu alls ekki að gera það. Það verður að finna leið til að losna við óhæfa kennara.

Þegar kennarar verða tilbúnir til að taka á þessu erfiða máli og taka til í sínum röðum er ég viss um að leiðin að leiðréttingu launa og viðurkenningu almennings verður greiðari. 

Þóra Guðmundsdóttir, 21.2.2007 kl. 14:26

4 Smámynd: Valdimar Gunnarsson

Góður pistill - ég hef ekki enn séð þennan bækling frá kennurum en hef heyrt að hann sé e.t.v. fullmikið á kennaramáli - mætti vera skiljanlegra orðalag fyrir "venjulegt" fólk

Valdimar Gunnarsson, 21.2.2007 kl. 16:39

5 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Ef bæklingurinn er á of miklu "kennaramáli" má spyrja hver kenndi viðkomandi Mér fannst hann nú bara vera á alþýðumáli.

Þóra Guðmundsdóttir, 21.2.2007 kl. 17:10

6 identicon

Kennarastéttin sem heild getur ekki svarað fyrir einstaka kennara. Við erum eins margvísleg og við erum mörg.  Nefnið mér stétt sem þar sem að allir eru 100 % !

Það vill líka gleymast að við erum ekki að vinna færibandavinnu, við erum að vinna með manneskjur og ég get ekki neitað  nemanda um viðtal sem að  þarf á mér að halda í frímínútunum. Við erum að vinna með fólk og við það er ekki hægt að staðla kennslu frekar en hægt er að staðla manneskjur. Þetta eru ekki kjötstykki sem að við erum að vinna með.

Margret Einarsdottir Long (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 17:32

7 identicon

að vilja binda kennarana við borðfæturna á kennaraborðunum í skólastofunum helst frá kl. 08.00-17.00 alla virka daga.

Í síðasta verkfalli kom fram hugmynd tveggja sveitarstjórnamanna um að kennarar fengju 300.000 kr grunnlaun fyrir að vera í skólanum 8-16 undir stjórn skólastjóra. KÍ vísaði þessu á bug með þurrum athugasemdum. Ok, ef kennarar vinna eins og allir aðrir og eins og kynnt var í bæklingnum fræga, ef vinnutíminn er hvort eð er sá sem lagður var þarna fram, af hverju var þessu þá hafnað? Af hverju í ósköpunum? Nota bene, þetta var stórhækkun á grunnlaunum. Það hefur enginn, ekki nokkur maður, getað svarað mér þessu og hef ég spurt nokkrar þekkjandi manneskjur að þessu.

Á meðan þessari spurningu er ósvarað lít ég svo á að það sé eitthvað sem ekki stemmir í málstað KÍ.

Sigurjón Sveinsson (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 21:20

8 identicon

Mögum kennurum hrís hugur við bundinni viðveru vegna þess að undirbúningur kennslu er í eðli sínu skapandi starf og gengur betur eftir að tekið hefur verið hlé frá ys og þys kennarastofunnar, t.d. á kvöldin eða á laugardegi. Þetta hefur margoft komið fram og var held ég kjarninn í þessum "þurru athugasemdum" sem Sigurjón vitnar til hér að framan. Af hverju vill fólk ekki skilja þetta?

Bjarni, fyrrum kennari (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 11:18

9 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Vegna athugasemdar Margrétar.

Það er alveg hárrétt að engin stétt er 100% en yfirleytt getur maður sniðgengið þá sem standa sig ekki í öðrum stéttum t.d. verður fljótlega lítið að gera hjá lélega píparanum. Það getur nemandinn ekki gert. Hann er kannski svo óheppinn að fara annaðhvort í taugarnar á ágætum kennara eða bara lenda hjá einum ömurlegum og hvað getur hann gert ? Nákvæmlega ekkert. Hann situr kannski uppi með hann í mörg ár. Þú veist það jafnvel og ég að innanum þetta góða fólk er annað fólk sem er vitað og viðurkennt að ættu ekki að kenna. Það er ábyrgðahluti að bregðast ekki við því því eins og ég sagði getur nemandinn ekkert gert og því verða aðrir að gæta hagsmuna hans.

Það sem meira er að slæm reynsla barna á sínum fyrstu árum í skóla getur haft áhrif á hann til lífstíðar það hefur t.d. oft þau áhrif að hann hætti við fyrsta tækifæri. 

Brottfall unglinga úr framhaldsskóla  má oft rekja til grunnskólans og einmitt vegna mikilvægis starfsins hljótum við að gera meiri kröfur til kennara en annara stétta.

Þóra Guðmundsdóttir, 22.2.2007 kl. 12:30

10 Smámynd: Hafsteinn Karlsson

Sæll Jóhann

Fínn pistill. Þessi umræða um vinnutímann er fáránleg og fleytir okkur ekkert áfram í því að gera skólann betri. Þetta er svona "víst - nei" karp eins og þú lýsir því svo vel. 

Ræðum hvernig skóla við viljum, hvernig við getum komið til móts við öll börn í skólanum. Tölum um innihaldið - ekki umbúðirnar.  

Hafsteinn Karlsson, 25.2.2007 kl. 06:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband