16.2.2007 | 22:38
Kannski eiga íslenskir dóparar eftir að dúsa í klefa með Osama Bin Laden
Orðræða stjórnmálanna er oft æði undarleg í samanburði við daglegt mál og málvenjur almennings. Stjórnmálamenn virðast margir hverjir telja sig geta sagt hvað sem er og ef fólk skilur þá ekki þá hika þeir ekki við að gefa orðum sínum þá merkingu sem þeim dettur í hug hverju sinni. Skiptir þá engu hvort merking sú sem þeir gefa orðum sínum er vitræn eða ekki.
Nýjasta dæmið um athyglisverða orðræðu í stjórnmálum eru ummæli Valdimars L. Friðrikssonar þegar hann hélt því fram að þekktir hryðjuverkamenn hefðu verið handteknir í Keflavík. Þegar farið var að kíkja í tugthúsið fannst enginn hryðjuverkamaður og kannaðist enginn lögregla við að hafa nokkurntíman tekið hryðjuverkamann fastann.
En Valdimar og samflokksmenn hans í Frjálslyndaflokknum voru ekki að tala um hryðjuverkamenn eins og flestir gera heldur hafa þeir útvíkkað orðið allverulega þannig að það kann fljótlega að verða með öllu merkingarlaust ef frjálslyndir halda áfram að setja ýmsa hópa þjóðfélagsþegna í hópinn "hryðjuverkamenn".
Þessir þekktu hryðjuverkamenn sem Valdimar og félagar eru að tala um sprengja hvorki brýr né bíla heldur eiga það til að flytja inn fíkniefni þegar vel liggur á þeim. Hryðjuverkamennirnir eru því þeir sem í eina tíð voru kallaðir smyglarar eða fíkniefnainnflytjendur. En nú fyrir tilstuðlan frjálslyndra kallast þeir hryðjuverkamenn. Það skyldi þó aldrei vera að íslenskir dópsmyglarar eigi eftir að sitja í steininum með mönnum á borð við Osama Bin Laden og fá jafnframt sömu málsmeðferð?
Það verður ekki annað sagt en að frumleikinn sé í fyrirrúmi hjá þeim frjálslyndu en hvort að það verði ekki flókið að útskýra fyrir almenningi muninn á hryðjuverkamanni og hryðjuverkamanni veit ég ekki. Frekar hallast ég þó að því að með þessu sé Valdimar og félagar heldur að flækja orðræðuna. Ég tala nú ekki um ef þeim skyldi detta í hug að fara að kalla landabruggara líka hryðjuverkamenn.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þarna fer jú hópur íhaldsmanna sem kalla sig frjálslynda. Það er augljóst að þeir eru ekkert mikið að hengja sig á merkingu orðanna sem þeir nota.
Þórhallur Halldórsson (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 10:56
Ég verð að mótmæla þessari málun allra frjálslyndra (e. Liberal /Libertarian), ég er sjálfur frjálslyndur og ekki sammála þessum rökum Valdimars. Eins mætti draga ályktun að því að allir vinstri grænir væru á móti erótík eins og Kolbrún Halldórs...
J. Einar V. Bjarnason Maack (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 12:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.