15.2.2007 | 20:22
Ef maður skuldar þá er maður góður viðskiptavinur en ef ekki þá getur maður étið það sem úti frýs
Umræðan í dag sem þau Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson hafa haldið upp fyrir hönd almennings með gagnrýni á græðgisvæðingu bankanna fékk mig til þess að rifja upp póst sem ég fékk nýverið. Það var kort frá fjölskylduþjónustu banka nokkurs sem ég hef átt viðskipti við í áratugi. Bankinn var bara að láta mig vita að ég ætti ekki rétt á neinum glaðningi frá þjónustunni s.s. í formi endurgreiðslna á debetkortafærslun né öðru þar sem ég hefði ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett eru af hálfu bankans.
Þetta koma mér að sjálfsögðu ekkert sérstaklega á óvart og þó. Ég fékk svo "gamaldags" uppeldi í peningamálum að mér var kennt að skulda helst aldrei neinum neitt, kaupa bara það sem ég ætti fyrir og ef ég ætlaði að kaupa eitthvað dýrt að leggja þá fyrir þar til ég hefði safnað fyrir því sem ég vildi kaupa. Að sjálfsögðu var lögð rík áhersla á að greiða alla reikninga á tilsettum tíma. Þetta hef ég gert alla ævi og einu skuldirnar sem ég hef átt er af íbúð og námslán.
En svona viðskiptavinir sem haga sér eins og ég eru greinilega slæmir viðskiptavinir að mati bankans míns, enda eins og fyrr segir fæ ég enga umbun fyrir viðskipti mín. Málið er að bankinn getur lítið sem ekkert grætt á mér. Ég var líka ekki titlaður "betri viðskiptavinur" í þessu bréfi. En mjög oft fæ ég samt bréf frá bankanum þar sem ég er titlaður "betri viðskiptavinur" en ég hef tekið eftir því að sá titill á eingöngu við þegar bankinn er að bjóða mér skuldir. Semsagt, ef maður vill skulda þá er maður betri viðskiptavinur en ef maður vill hvorki skuldir né yfirdrátt þá er maður eiginlega bara einhverskonar olnbogabarn í íslenska bankakerfinu.
Hvernig væri nú eins og Ögmundur hvatti til í Kastljósinu í kvöld að bankarnir færu að skoða sjálfa sig með augum almennings? Þeir gætu orðið margs vísari um eigið "ágæti".
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Leyfðu mér að segja þér sögu:
Tveir menn keyptu VW Golf fyrir 5 árum. Annar aðilinn fór vel með bílinn sinn og Golfinn hans þurfti aðeins einu sinni að fara á verkstæði, og þá til þess að skipta um bremsuklossa. Hinn kaupandinn aftur á móti fór illa með sinn bíl og borgaði háar upphæðir vegna reglulegra og tíðra heimsókna á bifvélaverkstæði Heklu.
Veistu hvor fékk jólakort frá bifvélaverkstæðinu?
Kalli (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 11:38
Mér er alveg lífsins ómögulegt að skilja Ögmund og Jóhönnu í þeim málflutningi að það sé alveg sjálfsagt mál að allur almenningur sé skuldugur upp fyrir haus í yfirdráttar og öðrum okurlánum. Eru þá ekki einhverjir búnir að eyða hressilega um efni fram. Er ekki kaup og verslunarfíkn stórs hluta almennings aðal vandamálið.
Friðrik Vil (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 14:59
Góð ábending. Nú hefur S - 24 verið að bjóða lán með um 15% vexti sem til tilvalið fyrir þá sem vilja greiða niður yfirdráttarlán. Jú þeir eru tilbúnir að lána en þá verð ég að skaffa ábyrgðarmann sem á fasteign. Bankarnir verða að hafa bæði belti og axlarbönd þó þeir séu aðeins að lána sem samsavarar einum mánaðarlaunum. Græðgisvæðing bankana er allveg með eindæmum. Er ekki kominn tími til að almenningur rísi upp og mótmæli þessu. Eða samælast um að " við tökum ekki lán" saman ber "við borgum ekki."
Siggi (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 16:50
Ég held þetta sé nú ekki alveg rétt hjá þér. Til að komast í vildarþjónustu í mínum banka (Glitni) þarf t.d. aðeins að hafa ákveðna 5 þjónustuþætti hjá bankanum, svosem lífeyrissparnað, tryggingar, greiðslukort, greiðsluþjónustu eða jújú húsnæðislán, bílalán eða yfirdrátt. Punkturinn er í það minnsta sá að það er vel hægt að komast í þennan hóp án þess að skulda neitt hjá bankanum - held að skilmálar hinna bankanna séu mjög svipaðir.
Annars finnst mér þessi bankaumræða oft vera ansi skrítin. Það er t.d. klifað á því að gróði bankanna sé tilkominn útaf okurvöxtum - nú þykist ég vita að stærsti hluti gróðans sé tilkominn vegna verðbréfabrasks en það er svosem aukaatriði, aðalatriðið er að það er Seðlabanki Íslands sem er að halda uppi vaxtastiginu í landinu, ekki almennu bankarnir. Svo ef fólk vill kvarta undan okurvöxtunum ætti það að tala við Davíð Oddsson og co. og (fyrst og fremst) ríkisstjórnina, Alþingi og sveitarfélögin sem eru einfaldlega ekki að halda nógu vel á spöðunum þegar kemur að hagstjórninni og Seðlabankinn neyðist þessvegna til að hækka stýrivextina upp úr öllu valdi til að halda verðbólgunni niðri (og genginu uppi).
Andri Thorstensen (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 18:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.