8.2.2007 | 23:18
Heimsmet í flokkaflakki?
Nú er það nýjasta í pólitíkinni að Kristinn H. Gunnarsson er kominn í Frjálslyndaflokkinn. Er hann semsagt búinn að prófa Alþýðubandalagið og svo er hann búinn að prófa Framsóknarflokkin og núna er það Frjálslyndiflokkurinn. Þá á hann bara eftir að prófa Samfylkingu, Sjálfstæðisflokk og svo Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Ef við byggjum við tveggja flokka kerfi væri hann kominn til baka aftur til þess flokks sem hann byrjaði í, en hringurinn hér á landi er öllu lengri. Kannski er Kristinn búinn að setja heimsmet í flokkaflakki, hver veit. Og ef svo er þá bara til hamingju Kristinn.
Ég man þegar ég var unglingur í Keflavík fyrir mörgum árum og var að aðstoða við framboð Ólafs Ragnar til Alþingis fyrir Alþýðubandalagið. Þá var alloft skotið á Ólaf fyrir að vera flokkaflækingur þar sem hann hafði ekki alla sína tíð verið í sama flokknum. Ólafur svaraði því alltaf til að hann hefði nú ekki skipt um skoðanir, það væru hinsvegar flokkarnir sem hefði breyst og sjónarmið þau sem þar væru ríkjandi.
Ekki veit ég hvort þetta var að öllu leiti satt og rétt hjá Ólafi enda skiptir það kannski ekki öllu máli. Ég hef lengi kennt nemendum mínum í heimspeki það að ekki sé ástæða til þess að skammast sín fyrir það að skipta um skoðun svo fremi sem maður kemst að einhverju sem maður telur réttara og betra en maður taldi áður. Það er bara eðlilegur farvegur í sannleiksleitinni að ný þekking og viska taki við af þeirri sem eldri er.
En aftur að Kristni. Ekki veit ég hvernig hlutirnir snúa að hans heilabúi. En það er býsna grunsamlegt að hann skuli reyna fyrir sér í prófkjöri Framsóknarflokksins og þar sem niðurstaðan er honum ekki í hag fer hann í Frjálslyndaflokkinn. Mig grunar því að hér sé því fullkominn atvinnupólitíkus á ferðinni, þ.e.a.s. maður sem ekki kann orðið neitt annað en að vera pólitíkus eða vill ekki vera neitt annað og því eru stefnuskrár flokkanna aukaatriði en sætið aðalatriðið.
Kristinn er ekkert einn um að vekja þessar grunsemdir hjá mér. Það hafa fleiri gengið til liðs við Frjálslyndaflokkin sem ekki hafa náð frama innan sinna gömlu flokka og má þar t.d. nefna Valdimar Leó og ekki má gleyma að Frjálslyndiflokkurinn var upphaflega stofnaður utan um óánægju stjórnmálamanns sem starfað hafði í Sjálfstæðisflokknum. Það væri því kannski nær að segja að Frjálslyndiflokkurinn sé fyrst og fremst einhverskonar endurvinnsla frekar en stjórnmálaflokkur. Þetta er vettvangur sem hefur þann tilgang að blása lífi í það sem aðrir flokkar telja búið að vera.
Það má því kannski segja að í framboði í vor séu þrír stjórnmálaflokkar þ.e.a.s Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin grænt framboð, ein endurvinnsla þ.e. Frjálslyndiflokkurinn og svo ein atvinnumiðlun þ.e. Framsóknarflokkurinn en eins og frægt er orðið hefur hann það eina markmið með framboði að koma sínu fólki að í launuð störf á vegum ríkis og sveitarfélaga. En allt saman kallast þetta pólitík, svo skrítið er það.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:31 | Facebook
Athugasemdir
Svo skilar Frjálslyndi flokkurinn reyndar fólki til hinna flokkanna líka. Það fór einn yfir í Sjálfstæðisflokk á kjörtímabilinu ef ég man rétt. Kannski Frjálslyndi flokkurinn frelsi fólk
Hvert ætli Margrét blessunin fari?
Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 23:31
Tilfelli Ingibjargar Sólrúnar er ekki sambærilegt. Kvennalistinn verður til sem sérframboð kvenna fyrir kosningar, það er ekki eins og hún hafi verið að hlaupa yfir í annan flokk á miðju kjörtímabili af því að það gengi ekki nógu vel. Síðan rann Kvennalistinn saman við Samfylkinguna seinna meir. Þetta er tvennt ólíkt.
Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 23:46
Hvað varðar Ólaf Ragnar þá eru það óheilindi hans í framboðsmálum sem voru illa séð. fyrst átti hann að verða erfðaprisn Eysteins Jónssonar, sagði sig úr flokknum eins og kunnug er. Var síðan með sérfylkingu og leysti hana upp án þess svo mikið sem orða það við stuðningsmenn sína eystra.
Undirrituð er úr Austurlandskjördæmi og þekkti stuðningsmenn hans sem aldrei hafa fyrirgefið honum óheilindin. Ferill Ólafs Ragnars virðist fylgja honum inn í forsetaebættið. Hann fer sínu fram án tillits til hefðar. Heilindin umdeild um beytingar hans á forsetaembættinu sem tæplega geta talist eðlileg án stjórnarskrárbreytingar.
Sigríður Laufey Einarsdóttir, 9.2.2007 kl. 10:08
Ég vill kalla flokka eins og Frjálslynda "fýluframboð" eða "fýluflokka" því þeir byggjast á flokksmönnum sem hafa af ýmsum ástæðum farið í fýlu í öðrum flokkum og koma nú saman til að leita sér að nýjum farveg. Vandamálið er að þetta fólk á ekkert sameiginlegt annað en að vera óánægt með eitthvað annað. Þegar á reynir þá eru skoðanir og markmið mismundandi og allt endar í deilum í "fýluflokkunum". Nýjust deilur í Frjáslyndaflokknum er gott dæmi. Til samanburðar má nefna Kvennaframboðið, þó það hafi nú safnast til ferða sinna þá var það ekki vegna deilna en málefnið þar var skýrt og flokksmenn sammála um það. Hver eru málefni Frjálslyndaflokksins. Hann virðist vera að prófa hina og þessa málaflokka og nú síðast innflytjendamál.
gbirg (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 11:59
Slær einhver Jóni Baldvin við?
Jón Baldvinn:
Sósíalistafl, Þjóðvarnarfl, Alþýðubl; Frjálslyndir vinstrimenn, Alþýðufl. og Samfylking.
Sigurður Þórðarson, 9.2.2007 kl. 12:02
KHG má eiga það að hann varð ekki spyllingunni að bráð. eins og svo margir framsókarmenn, sem hafa til þess aðstöðu.
Sigurður Þórðarson, 9.2.2007 kl. 21:51
Á ekki endurvinnsla að vera umhverfisvæn?
Fræðingur, 11.2.2007 kl. 02:54
Þetta er full mikil einföldun Jóhann enda grunar mig að þú hafir nú sett þetta svona upp til að vekja upp umræður frekar en að hafa krufið þessi mál til mergjar. Fólk skiptir um skoðanir og flokka af mörgum ástæðum. Stundum lenda flokkar í höndum staðnaðrar og ólýðræðislegrar forystu og því eftir litlu fyrir menn að slægjast í slíkum flokkum. Fólk sem er leitandi og þorir að þróa hugmyndir sínar og skoðanir getur lent í því að flokkurinn sem var svo passandi fyrir það áður er það ekki lengur. Svipað gerist með hjónabönd.
Vissulega eru stjórnmál fyrir sumum f.o.f. vettvangur til að berast á og koma sínu nefi áfram. Þetta fólk þolir illa að bíða síns tíma eða hleypa öðrum sér fremri að. Þetta fólk gleymir því gjarnan að baráttan fyrir málefnunum góðu er það sem skiptir mestu. Þetta fólk hugsar bara í atkvæðum. "Gerum þetta til að fá fleiri atkvæði og tölum ekki um þessi mál til að fæla ekki frá okkur". Þannig verður pólitík þessara manna að lýðskrumi. Ég held að það séu ekki síður fólk sem kýs að vera fast í sama flokknum sem eru lýðskrumarar. Niðurnjörfuð flokkspólitík verður hugðarefni þeirra og málefni víkja fyrir foryngjahylli og sérhagsmunum. Það þykir ekki fínt hjá mörgum að skipta um skoðanir. Menn fá þá á sig stimpil "hringlandaháttar" og ganga sumir ansi langt í því að sverta pólitíska andstæðinga sína þessum stimpli. Þannig verður stjórnmálaumræða að leiðinlegu karpi sem enginn nennir að hlusta á. Jóhann, við skulum reyna að breyta þessu. Fólk þarf að læra að taka höndum saman þó að það sé ekki í sama flokki. Við viljum öll þjóðinni fyrir bestu. - Kveðja
Svanur Sigurbjörnsson, 14.2.2007 kl. 17:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.