7.2.2007 | 22:52
Óhugnaðurinn í Breiðavík
Fyrir tæpum tveimur árum gisti ég á gistiheimilinu sem nú er rekið í Breiðavík. Í sama húsi og nú berast óhugnanlegar fregnir af grófum mannréttindabrotum. Í spjalli við annað fólk sem þar var barst það til tals að á heimilinu sem rekið var til ársins 1972 hafi illa verið búið að þeim drengjum sem þar var gert að dvelja. Síðan les ég það í morgun í Fréttablaðinu að Bergsteinn Björgúlfsson kvikmyndagerðarmaður sé að gera mynd um mál barnanna en hann fékk fyrst fregnir af þessu máli frá vini sínum sem gisti á gistiheimilinu á Breiðavík.
Í kjölfar þessa spyr ég mig að því hvort að mál þessara drengja hefði kannski alveg gleymst ef ekki hefði verið farið af stað með rekstur gistiheimilis? Hvað ef húsnæðið hefði farið í eyði, hefði þessi hörmulega saga barnanna þá aldrei komið fram?
Sem betur fer hefur verið vakin athygli á þessu máli og virðist svo vera sem víðtæk sátt sé um að reyna að bæta fórnarlömbum það sem í raun verður aldrei bætt. Það verður þó að segjast eins og er að drengirnir sem enn eru á lífi eru orðnir fullorðnir menn eiga samúð þjóðarinnar allrar. Það er von mín að stjórnvöld beri gæfu til þess að halda á þessu máli af myndarleik. Í viðtali við eitt fórnarlambið í Kastljósi sagði hann að hann óskaði eftir opinberri afsökunarbeiðni frá fulltrúum ríkisins. Mér finnst það sjálfsagt mál og það allra minnsta sem hægt er að gera.
Að sama skapi verðum við að sjá til þess að svona nokkuð muni aldrei aftur gerast.
En það sem mér finnst óhugnanlegast í þessu máli öllu er að fyrst núna, öllum þessum árum síðar er þetta mál að koma upp. Hvað segir það okkur um siðvit þjóðarinnar? Það skal enginn segja mér það að ekki hafi fjöldi fólks vitað af því hvað átti sér stað þarna. Því er ekki undarlegt að maður spyrji sig að því hversvegna gerði enginn neitt á sínum tíma?
Það er spurning sem ég hef ekki svar við.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Smá knús í umræðuna HÉR
Júlíus Garðar Júlíusson, 8.2.2007 kl. 09:47
Ekki eru öll kurla komin til grafar ennþá. Hvernig var ummönnun fjölfatlaðara í Kópavogshælinu?
Hins vegar að aðstæður eldri borgara sem þurfa að dveljast á hjúkrunarheimili verði mannsæmandi ekki seinna en strax!
Hvað veður næst?
Er okkar siðgæði viðundandi?!
Skemmst er að minnast heyrnleysingjaskólans, umræðuna s.l.ár.
Gætum fengið sama dóm eftir fjörutíuár ef ekki verður gegnið skjótt í umrædd mál.
Sigríður Laufey Einarsdóttir, 8.2.2007 kl. 21:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.