Höfuðið fór af bróður Saddams og fjölskyldunni svelgdist á súpunni.

Eftir að sjónvarpið ákvað að hafa sjónvarpsfréttatíma sinn kl. 19.00 hafa margar fjölskyldur sem vilja fylgjast með fréttum ákveðið að fylgjast með um leið og matast er. Er þetta að mörgu leyti afskaplega óheppilegt og ég tala nú ekki um afskaplega ófjölskylduvænt og á köflum ógeðfellt svona rétt þegar matast er ef fréttirnar eru þess eðlis.

Í kvöldfréttum í gærkvöldi 14. jan. yfir súpuskálinni fékk maður að heyra m.a. af aftöku bróður Saddams Hussein og komst maður ekki hjá því að heyra sitthvað meira en að maðurinn hafi verið tekinn af lífi með hengingu. Það fylgdi nefnilega sögunni að höfuðið hafi farið af manninum við aftökuna.

Nú mætti ætla að ég væri svona svakalega klígjugjarn og viðkvæmur en ég get svo sem alveg þraukað svona tal yfir súpunni minni en ég hef eiginlega meiri áhyggjur af öllum börnunum sem þurfa að heyra þetta þar sem kveikt er á sjónvarpinu. Rétt eins og yfirleitt er varað við þegar myndefni er ekki við hæfi barna þá finnst mér að annaðhvort ættu fréttamenn að vara við lesnum textum þegar því er að skipta eða bara gæta orða sinna, barnanna vegna. Hefði t.d. ekki verið nóg að segja manninn hafa verið tekinn af lífi með hengingu. Þurfti nauðsynlega að tiltaka það sérstaklega að höfuðið hafi farið af sem hugsanlega hefur orðið tilefni til umræðna við matarborðið um rúllandi höfuð út um allar trissur með fremur ógeðfelldum tilhugsunum og kannski martröðum sem slíku fylgir.

Fréttamenn spáið í þetta þar sem þið hafið nú þröngvað ykkur ofan í matardiskana okkar með því að sjónvarpa fréttum kl. 19.00. (og ekki segja að við getum bara slökkt, við viljum fylgjast með því sem er að gerast).

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Haraldsson

.... fjölskyldan svelgdist ... (?)

Hefur Mbl. ekki málfarsráðgjafa?

Hver svelgdi fjölskylduna?

Helgi Haraldsson, 17.1.2007 kl. 08:06

2 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Sæll Jóhann!

     Þetta vandamál hefur verið leyst í minni fjölskyldu.  Ég er með lítil börn, og við einfaldlega færðum matartímann til klukkan sex.  Þá fá börnin tíma til að leika sér eftir mat, áður en þau fara að sofa, og svo er það nú staðreynd að því fyrr sem þú borðar á kvöldin, þeim mun betra, því að það er jú ekki gott að leggjast til svefns með ómeltan mat í maganum.  Mæli með þessu.

Sigríður Jósefsdóttir, 17.1.2007 kl. 12:27

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

... fjölskyldan svelgdist ... (?)

Hefur Mbl. ekki málfarsráðgjafa?

Hver svelgdi fjölskylduna?

Er höfundur ekki kennari?

Kannski meiri stjórnmálamaður en kennari.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.1.2007 kl. 18:02

4 identicon

Kæru félagar Helgi og Heimir við skulum alveg vera rólegir varðandi orðalag (Vonandi deyr enginn) en samkvæmt orðabók sem Menningarsjóður gaf út 1978 og ég hef aðgang að hefur orðið svelgdi fjórar merkingar. Ein er eins og þið réttilega bendið á merkir að svelgja það sama og að gleypa sbr hver svelgdi fjölskylduna þeas hver gleypti fjölskylduna sem er ansi skemmtileg orðalag. Síðan er önnur merking nefnd í orðabókinni og þar er talað um að svelgjast á einhverju sbr að svelgjast á súpu. Í þeirri merkingu er átt við að eitthvað hrekkur ofan í barka einhvers. Þessi seinni merking á orðinu að svelgjast er sú merking sem ég er að nota þeas einhverjum svelgdist á súpunni þeas súpan hrökk ofan í barka fólksins sem hana var að borða. Nánar má lesa um þetta sem og aðrar merkingar þessa skemmtilega orða í Íslenskri orðabók. Bestu kveðjur og takk fyrir vinsamlegar athugasemdir.

Jóhann B

Jóhann Björnson (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 18:23

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þakka ábendinguna.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.1.2007 kl. 18:30

6 identicon

Hann er bæði kennari og stjórnmálamaður.....

Jón (IP-tala skráð) 20.1.2007 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband