15.1.2007 | 22:47
Félagsmálayfirvöld færa starfsemi Byrgisins frá einum ofsatrúarhópnum til þess næsta
Þá er það komið í ljós. Færðar voru fréttir af verulegri fjármálaóreiðu í starfsemi meðferðarheimilisins Byrgisins í kvöldfréttum. En félagsmálayfirvöld ætla ekki að læra af þessari reynslu. Þau láta starfsemina fara úr höndunum á einum trúarofstækishópnum í hendurnar á þeim næsta. Fyrrverandi forstöðumaður gerði að sögn ýmissa ekki greinarmun á sjálfum sér og guði og nú á Samhjálp að taka við. Enn einn guðshópurinn fær málaflokkinn.
Það er með öllu óþolandi hversu langt stjórnvöld ganga í að koma samfélagslegri ábyrgð á okkar smæstu systkinum úr sínum höndum yfir á herðar einhverra félagasamtaka. Þessi stefna kallast útboðsstefnan og má segja að litið sé á fólk sem þarf á stuðningi og aðstoð að halda eins og hvert annað smíðaútboð. Sá sem vill verkið og væntanlega bíður lægst hann fær það.
Jafnframt má gera ráð fyrir því að yfirvöld félagsmála fylgist ekkert með því sem fram fer eða hvort fjármunirnir verða nýttir í þágu fólksins sem á þeim þarf að halda. Reynsla okkar af Byrginu sýnir að yfirvöld sendu peninginn og skeyttu svo í engu um hvað var gert við aurinn.
Félagsleg þjónusta á borð við þá sem Byrgið hefur rekið á skilyrðislaust að vera í höndum ríkis eða sveitarfélaga, þetta á að vera hluti af sjálfsagðri grunnþjónustu sem á að standa öllum þeim sem á þurfa að halda til boða. Við getum ekki treyst einhverjum hópum sem svo kannski eru fyrst og fremst á sálna- og auraveiðum um málið. Fyrir utan það að fólk sem þarf á meðferð að halda á að geta fengið aðstoð án þess að þurfa að búa við trúarlegt ofstæki á meðan á meðferðinni stendur.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:54 | Facebook
Athugasemdir
ég er sammála þér. Það er ferlegt ef djúpt sokknir fíklar hafa ekkert val nema fara í svona meðferð hjá trúarstofnunum.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.1.2007 kl. 23:58
Þetta er hárrétt hjá þér, Jóhann. Ríkið hefur sparað allmargar millurnar á því að láta félagasamtök um að sinna þeim sem einhverra hluta vegna hafa ekki góða möguleika á að sjá sér og sínum farborða, svo vel sé. Má nefna geðfatlaða til sögunnar, heimilislausa o.s.fr. Hinsvegar hefur Samhjálp staðið sig vel í starfi sínu með því að hjálpa heimilislausum í hús og stutt við bakið á þeim, en það breytir ekki þvi að auðvitað á ríkið að kosta þjónustuna og sjá sóma sinn í að gera það almennilega.
arnar valgeirsson, 16.1.2007 kl. 00:20
Ef þú, Jóhann, þykist vita, að Samhjálp sé ofsatrúarhópur, viltu þá ekki sanna það? Ég held það sé nú það minnsta sem hægt er að ætlast til af þér, úr því að þú fórst út í þessi skrif. Ella geturðu farið að kynna þér staðreyndirnar. Eða ertu kannski sjálfur ofsavantrúarmaður, svo að þér veitist erfitt að líta Samhjálp réttum augum?
Jón Valur Jensson, 16.1.2007 kl. 01:33
Man ég það ekki rétt, að Hvítasunnumenn hafi á sínum tíma rekið heimili af þessu tagi og Georg Viðar Björnsson verið forstöðumaður? Ef það er rétt munað hjá mér, man þá nokkur hvernig til tókst?
Hlynur Þór Magnússon, 16.1.2007 kl. 01:53
Alltaf jafn skemtilegt að sjá þig Jón Valur krefja menn um sannanir og vísindaleg vinnubrögð þegar líf þitt snýst að miklu leiti um trúarkenningar þar sem þú sérð ekki ástæðu til að gera þessar sömu kröfur.
Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 11:13
Alkholistar og fíklar geta farið í opinbera meðferð m.a. á geðdeild. Því miður hefur árangurinn af opinberum meðferðum verið takmarkaður og því hefur áhugasamtökum s.s. SÁÁ, Byrginu ofl. verið falið að annast þetta fólk með mun meiri árangri og minni tilkostnaði en það opinbera hefur getað.
Magnús Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 11:53
Ómálefnalegt er skvaldur Arnolds Björnssonar og auðsvarað. Ef trú snerist um það, sem sannað er vísindalega, væri hún ekki trú. Ágústínus kirkjufaðir var vanur að segja, þegar menn tóku afstöðu gegn trú sem slíkri, að þeir þekktu þá ekki til vináttu. Vinir treysta hverjir öðrum, taka hverjir aðra trúanlega. Það sama gerði Arnold, þegar hann var barn: hann trúði móður sinni. Með því lærðist honum margt, því að trúin getur miðlað þekkingu.
En ómálefnalegur var Arnold í því að reyna að leiða umræðuna hér afvega. Það er sannarlega alvarlegt mál, þegar Jóhann Björnsson dylgjar um það hér í grein sinni, að Samhjálp kunni að vera hópur manna "sem svo kannski eru fyrst og fremst á sálna- og auraveiðum um málið." Og undarlegt er að setja fram ásakanir eins og þessar í fyrirsögninni, þar sem hann kallar Samhjálp "ofsatrúarhóp" og segir ennfremur: "Fyrir utan það að fólk sem þarf á meðferð að halda á að geta fengið aðstoð án þess að þurfa að búa við trúarlegt ofstæki á meðan á meðferðinni stendur." Þetta er illt umtal, og þegar ekki fylgir sönnun, þá detta þau orð dauð og ómerk og verðfella um leið trúverðugleika Jóhanns þessa.
Af hverju svarar hann ekki spurningunni fremst í fyrra innleggi mínu? Er hann kjaftstopp? Eða á Arnold þessi að heita málpípa hans? (kannski eineggja tvíburar?).
En ef Jóhann hefur enga sönnun né vitneskju í þá átt, sem hann þó fullyrðir, og ef þetta er í huga hans einbert trúaratriði, þá er sjálfsagt fyrir hann að taka það fram, svo að það sé þó ljóst.
Hlyni Þór get ég svarað því, að ég minnist þess ekki að hafa heyrt nokkurn tímann neitt misjafnt um Samhjálp, þvert á móti heyrt mikið gott af starfi samtakanna, m.a. gegnum vin minn, sem er alkólhólisti. Það er dygð að tala sannleikann og ódygð að bera mönnum á brýn fégræðgi að ósekju eða dreifa ósönnuðum ásökunum og dylgjum.
Jón Valur Jensson, 16.1.2007 kl. 12:30
"Eða á Arnold þessi að heita málpípa hans? (kannski eineggja tvíburar?)."
Ég þekki ekki Jóhann og hef hann ekki hitt. Ég er hér á mínum eigin vegum.
"Ef trú snerist um það, sem sannað er vísindalega, væri hún ekki trú."
Kannski er það trú Jóhanns að Samhjálp séu ofsartrúarsamtök og þá er krafa þín um sannanir ekki réttmæt líkt og þegar um þína kristnu trú er að ræða, eða hvað?
Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 13:11
Já, alveg rétt, Arnold, ef þetta er einfaldlega trú hans, þá er óþarfi að ætlast til þess af hionum að sanna mál sitt, en þá hefði hann líka átt að taka þetta fram, í allri sanngirni, í stað þess að láta fólk halda, að hér búi einhver sönn vitneskja hans eða sönnun að baki orða hans. En það er reyndar lítillækkun á orðinu trú að nota það um einbera skoðun eða hald manna, Aristoteles sagði reyndar, að sterk eða eindregin skoðun (opinio vehemens á latínu) gæti kallazt trú (pistis á grísku hans), en það er þó trú í óeiginlegri merkingu (trú er að taka e-n trúanlegan; svo er orðið einnig notað um trúarinntakið sjálft, það sem trúað er, og jafnvel um heildarviðhorf kristins manns/samfélags í trúarefnum). Opinio (skoðun) greinist hins vegar skýrt frá þekkingu (scientia); skoðun hafa menn ekki, nema þeir hafi smá-efasemdir um þá skoðun sína í bland: að mestu taka þeir það sem gefið eða satt, en geta þó ekki neitað því, að eitthvað skorti upp á 100% vissu. Ætli það eigi ekki við um inntak þessa pistils hans Jóhanns?
Svo reynirðu um leið að klína smá-smjöri á mig, að hætti sumra, en þú varpar ekki rýrð á trú mína fyrir það, að trúarinntakið sjálft geti ég ekki sannað. Til eru hins vegar efnislegar (sögulegar, historical, og röklegar ástæður, sem styðja skynsamleik trúar minnar, s.k. motiva credibilitatis, en ég fer ekki út í þá sálma hér, heldur annars staðar síðar.
Jón Valur Jensson, 16.1.2007 kl. 13:30
"Svo reynirðu um leið að klína smá-smjöri á mig, að hætti sumra, en þú varpar ekki rýrð á trú mína fyrir það, að trúarinntakið sjálft geti ég ekki sannað. Til eru hins vegar efnislegar (sögulegar, historical, og röklegar ástæður, sem styðja skynsamleik trúar minnar, s.k. motiva credibilitatis, en ég fer ekki út í þá sálma hér, heldur annars staðar síðar."
Var ég ósanngjarn núna Jón Valur? Margt af þeim trúartexta sem þú kýst að trú er ekki hægt að sanna og mjög hæpið að finna röklegar eða sögulegar ástæður fyrir.
Ég hlakka til þessarar útektar hjá þér. Væntanlega verður hún birt á kirkju.net ?
Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 13:46
Ætli það ekki, karl minn, en bíða máttu. Og ég sagði ekki um þá trúartexta að það væri "hægt að sanna" þá sem slíka, enda væri þá trú mín ekki lengur trú, og þetta gætirðu nú bara lesið hjá Thómasi mínum frá Aquino, hann var með þetta alveg á hreinu, að trú og 100% sönnuð þekking (scientia) um nákvæmlega sama viðfangið fer ekki saman -- þekkingin ein stendur eftir. Hins vegar standa mörg rök til þess, að við getum séð vottana um boðun og starf Krists (þ.e. postulana og guðspjallamennina), um kraftaverk hans og upprisu sem trúverðuga votta. Eins hefur Kristur sjálfur slík motiva credibilitatis fyrir okkur (þ.e. fyrir hugsun okkar og afstöðu), þegar við kynnum okkur hann vel, rétt eins og þú gazt treyst móður þinni um það, sem skipti þig máli. Hann var vitnisberinn fremsti um eðli Guðs og vilja, og rökin eða ástæðurnar, sem við höfum (eða finnum við leit og athugun) til að sjá hann sem góðan mann og velviljaðan, hjálpfúsan, auðmjúkan og þó takandi undarlega djúpt í árinni um sjálfan sig, nægja okkur til að taka hann á orðinu, trúa honum, líka um þá hluti sem okkur er "ekki auðið að sjá" (Hebr.11.1; og þar sérðu líka, ef þú nennir að fletta þessu upp, að trúin er fullvissa, ekkert tilfinningaflökt, schleiermacherískt brjóstvit né skoðun hlaðin efasemdum). Gangi þér vel að hugleiða þessa hluti, sem og öðrum lesendum okkar, sem þú bauðst upp á þessar trúfræði-trakteringar.
Jón Valur Jensson, 16.1.2007 kl. 16:14
Sjáðu hádegisviðtalið á visir.is. Þú sérð fljótlega að þessum tveim stöðvum er ekki saman að jafna. Skoðaðu heimasíðuna þeirra, þeir eru búnir að vera að afvatna fólk síðan 1973. Það sem byrjaði sem kristleg hugsun er orðið fullorðin fagleg starfsemi. Forstöðumaðurinn er fyrrverandi lögreglumaður. Ég myndi spá pínulitið í málin áður en þú slærð þessu svona fram. Sjáðu ferilsskrár og prófgráður starfsfólksins þar líka. Það er auðvelt að nálgast svona upplýsingar ef þú kærir þig um.
Birna M, 16.1.2007 kl. 18:22
Að segja að Samhjálp sé trúarofstækishópur er fáranlegt og lýsir þekkingaleysi viðkomanda. Samhjálp hefur hjálpað fleiri langt leiddum fíklum en nokkur sambærileg stofnun á Íslandi. Þegar einstaklingar hafa misst alla von þarf trú að koma til. AA prógrammið byggir á trú (hugtökin æðri máttur og Guð koma fimm sinnum fyrir í tólf sporunum). Það að Guðmundur Jónsson í Byrginu hafi misnotað kristina trú og vonleysi þeirra sem þangað sóttu hjálp er óafsakanlegt. Að dæma aðra kristna menn eða söfnuði út frá sjúklegu hugarástandi Guðmundar Jónssonar er heimskulegt og á ekki heima í neinni umræðu.
Kristján (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 21:10
Tekur undir þá skoðun að það er tvennt ólíkt að bera saman starfsemi Samhjálpar og Byrgisins, þó báðir hópar kenni sig við kristna trú. Ekki er hægt að dæma alla kristna hópa út frá Guðmundi Jónssyni og óafsakanlegum verkum hans.
Eins er ég ekkert svo sannfærður um að það sé besti kosturinn að ríkið tali til við svona starfsemi.
Þráinn (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 21:40
Verð að taka undir með síðustu ræðumönnum! Samhjálp hefur unnið ótrúlegt starf sem ekki má gera lítið úr. Af því sem ég hef heyrt þá er árangurinn mjög góður. Að dæma allt starf sem unnið er á kristnum grunni út frá Guðmundi Jónssyni er út í hött og jaðrar við ofstæki af hálfu þeirra sem það gera. Ef frjáls félagasamtök, sem í þessu tilviki eru kristileg, eru tilbúinn að koma að stoðþjónustu samfélagsins á að banna það á þeim það á grundvelli trúarskoðanna?
Jón Ómar Gunnarsson, 16.1.2007 kl. 21:55
Kæri Jóhann.
Trúarlegt ofstæki ??? ég vann nú með þér í nokkur ár og kunni mjög vel við þig og held að það hafi ekki breytst. Hins vegar trui ég á Guð og á Jesú Krist sem frelsara, ef það gerir mig að ofstækismanni eða verri manni en þú ert eða vanhæfari til að hjálpa öðru fólki, getum við þá ekki farið að kalla "siðmennt" ofstækis samtök. Ég fæ ekki betur séð en að þið séuð að varpa allri heilbrigðri skynsemi fyrir borð.
Kv. Kristinn Ásgrímsson Keflavík
Kristinn Ásgrímsson (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 22:14
Jón Valur gefur í skyn að Jóhann Björnsson tengist Vantrú. Mér finnst nauðsynlegt að leiðrétta það, Jóhann er á engan hátt tengdur því félagi.
Jón Ómar og fleiri gefa í skyn að einhverjir vilji banna trúmönnum að hjálpa fíklum. Það er ekki málið.
Málið er að ríkið greiðir ofsatrúmönnum milljónatugi til að sjá um þennan málaflokk. Það er líka ljóst að markmið þessa hópa er að snúa fólki til kristni, það hefur margoft komið fram. Ríkið á ekki að styrkja trúboðsstarfssemi, sérstaklega ekki þá þar sem svo lágt er lagst að herja á þá sem eru veikir fyrir.
Matthías Ásgeirsson
Vantrú, 17.1.2007 kl. 10:50
Nei, ég gaf hvergi í skyn, að Jóhann tengdist litla félaginu Vantrú, þótt ég spyrði hann (eftir að hann hafði sneytt að Samhjálparmönnum sem "ofsatrúarmönnum"): "Ertu kannski sjálfur ofsavantrúarmaður, svo að þér veitist erfitt að líta Samhjálp réttum augum?" -- Sama spurning sýnist mér geta átt við um þann, sem hér talaði á undan mér, eða hver er sönnunin fyrir því, að Samhjálparmenn séu "ofsatrúmenn"? Ætli ofsann sé þá ekki nokkuð víðar að finna, svo sem hjá sumum þeirra sem þola ekki kristna trú?
Jón Valur Jensson, 17.1.2007 kl. 11:27
Er ekki við hæfi að benda á heimasíðu Samhjálpar til að rökstyðja að það sé rekið af ofsatrúfólki? Bendi t.d.a á pistlana á síðunni. Vísa einnig á dagskrá Samhjálpar, en trúarsamkomur eru þar í veigamiklu hlutverki.
Matthías Ásgeirsson
Vantrú, 17.1.2007 kl. 12:42
Jahérna - ég hef nú ekki lagt í vana minn að skrifa á netið en mér er ekki stætt á öðru í þetta sinn. Eru engin takmörk á því hvað fólk kemst upp með að viðra hér?
Ég amk skora innilega á Mattías og aðra að skella sér bara í heimsókn til Samhjálpar og skoða hvað fer þar fram. Ég er nokkuð viss um að hjálp þeirra væri vel þegin við að ausa súpu ofan í heimilislausa meðan þeir skoða alla "ofsatrúnna" sem á sér stað þarna.
Undirritaður hefur merkilegt nokk komist óskaddaður úr húsakynnum Samhjálpar í þau nokkru skipti hann hefur þangað komið - og enginn þar innandyra hefur nokkur tímann haft í frammi nokkurs konar umræður um krist eða trúboð af fyrra bragði - en manngæska og umhyggja fyrir náunganum fór ekki framhjá honum.
Spariði stórskotaliðið þangað til þið þekkið það sem þið skjótið á.
Kveðja / Daníel
Daníel (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 15:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.