2% þjóðarinnar fundu hamingjuna og sumir keyrðu hana heim í bílförmum

Í Fréttablaðinu í morgun birtist mjög athyglisverð frétt á forsíðu sem jafnframt var myndskreytt. Þar mátti sjá fullt af fólki í hörku vinnu við að höndla hamingjuna, geri ég ráð fyrir. Hinsvegar vildi blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina ekki kannast við það að fólk væri þarna í hamingjuleit heldur talaði hann um kaupæði, en fréttin greindi frá úsölu IKEA á útlitsgölluðum vörum. Í fréttinni segir m.a.:

"Tæplega 6000 manns bitust um útlitsgölluð húsgögn og útstillingar og að sögn verslunarstjóra þurftu stórtækustu viðskiptavinir hans vörubíl undir feng sinn."

Það kom einnig fram í fréttinni að þrátt fyrir þessa útsölu sem fram fór í Holtagörðum hafi aðsóknin að IKEA í Garðabænum ekkert minkað.

Það hefur löngu sýnt sig og sannast enn frekar nú að íslendingar eru afskaplega þurfandi þjóð og skortir mikið. Getur það verið að þeir sem versla í bílförmum eigi eitthvað heima hjá sér? Það mætti ætla að svo væri ekki en margt hefur bent til þess að blaðamaðurinn áðurnefndi hafi haft rétt fyrir sér þegar hann talaði um kaupæði þar sem í blaðinu þann 28. ágúst 2005 birtist frétt sem bar yfirskriftina "Kaupæði er vaxandi sjúkdómur".

Í þeirri grein segir m.a.: "Kaupæði er nýr sjúkdómur í samfélaginu....Kaupæði er velmegunarsjúkdómur og tilfelli hans hafa aukist í takt við aukna velmegun...Talið er að um 17 milljónir ameríkana þjáist af kaupæði en engar tölur eru til um kaupæði íslendinga. Þó er talið líklegt að talan sé há hér á Íslandi þar sem íslendingar eru þekktir fyrir lífsgæðakapphlaup og eyðslu. Þeir sem þjást af kaupæði versla vegna einmanaleika, spennu, þunglyndis, skorts á sjálfstrausti...kaupfíklarnir fá samviskubit og sektarkennd."´

Við getum því velt því fyrir okkur hvernig þeim líður sem sitja núna heima með bílfarmana af útlitsgölluðu góssi úr IKEA, samkvæmt þessu ættu þeir að vera þjakaðir af samviskubiti og sektarkennd.

 Neyslumenningin og hraðinn sem henni fylgir er orðið að ákveðnu samfélagsmeini sem að mínu mati á bara eftir að auka á óhamingju fólks fyrir utan skaðleg áhrif á umhverfi og náttúru. En sem betur fer eru ýmsir farnir að snúa  vörn í sókn og andæfa þessari óheftu græðgi bæði hér á landi sem og úti í hinum stóra heimi.

 

Ég las um jólin athyglisverða bók sem tengist þessu sem heitir “Lifum lífinu hægar” eftir breska blaðamanninn Carl Honore. Í bókinni tekur hann saman þá gagnrýni sem komið hefur fram um ýmis einkenni nútímasamfélags s.s. mikinn hraða og tímaskort, neysluhyggju, græðgi, skyndibitamenningu, farsímafíkn, ófhóflega langa vinnudaga og allt það stress og óhamingju sem fylgir í slíku samfélagi.

 

 Tekur hann saman hvernig þessi þættir hafa slæm áhrif á ýmsum sviðum samfélagsins, eins og í mannlegum samskiptum, í skipulagi bæja og borga, í heilsugæslu, uppeldi, vinnumarkaði og matarmenningu svo fátt eitt sé nefnt.

 

 Of fáir gefa sér tíma til þess að staldra við og njóta. Það hefur of lengi þótt flott og bera merki um gott líf ef fólk segir: “Það er brjálað að gera, maður hefur bara ekki tíma til neins.”Síðan keyrir fólk of hratt, borðar óhollan skyndibita og fer illa með heilsuna af stressi.

 

 Dæmi um afleiðingar hraðasamfélagsins nefnir Carl Honore nokkrar í bókinni sem ég læt fylgja hér til umhugsunar:

 

 “Í matvörubúð í Los Angeles kemur til handalögmála við kassann vegna þess að viðskiptavinurinn sem er á undan í röðinni er of lengi að setja í pokana.”

 

 “Kona í London skrapar með lykli vélarhlíf á bíl sem varð á undan henni í laust stæði.”

 

 “Háttsettur maður í stórfyrirtæki rýkur á flugþjón þegar vélin neyðist til að hringsóla í heilar tuttugu mínútur yfir Heatrow fyrir lendingu. “Ég heimta að við lendum strax á stundinni.” Hrópar hann eins og spilltur krakki.”

 

 Í þessari bók er mikið af hápólitískum málum sem stjórnmálamenn ættu að fara að gefa gaum. Samfélag hraðans er að mínu mati undirrót margs af því slæma sem samfélög þurfa að takast og er nærtækt að nefna mengun, græðgi, ofbeldi og fíkn.

 

 Við þurfum að fara að “gíra” samfélag okkar niður, það er ekki á réttri leið

ef við setjum hvert neysluæðið á fætur öðru ár eftir ár, en eins og frægt er orðið var sett íslandsmet í innkaupum þann 23. desember s.l.

Fyrir þá sem eru áhugasamir bendi ég auk bókarinnar eftir Carl Honore á fyrirlestur sem Háskóli Íslands gaf út eftir Magnús Skúlason og heitir "Skaðsemi velmegunar, hugliðing um stöðu mannsins í tæknivæddri veröld".

 

 Jóhann Björnsson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel mælt, Jóhann. Ég fyllist alltaf meira og meira ógeði á þessu neyslubrjálæði.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 15:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband