4.2.2010 | 21:27
Ræðan í borgarstjórn
Við síðustu borgarstjórnarkosningar var ég í 8. sæti á lista VG og svo gerðist það í desember s.l. að ég var kallaður sem varamaður inn á borgarstjórnarfund. Hér koma nokkur brot úr ræðu minni á fundinum, en þessi brot sýna þankagang minn í pólitíkinni:
"Forseti góðir borgarfulltrúar
Það hefur sýnt sig að undanförnu að allmargir í samfélagi okkar eru flinkir við að telja krónur og aura. Og það er gott, enda veitir víst ekki af á þessum síðustu og verstu. Ég geri ekki lítið úr því. En þrátt fyrir mikilvægi þess að hagræða, eða spara eins og maður orðar það í venjulegu heimilisbókhaldi þá stendur engu að síður eftir þessi spurning: Hver eru brýnustu viðfangsefni stjórnmálamanna í borginni á tímum efnahagslegs samdráttar?
Áður en þeirri spurningu er svarað er mikilvægt að hafa í huga hvað gerist þegar þegar kreppir að? Jú einfaldasta svarið við þessari spurningu er það að lífsgæði fjölmargra rýrna, hvort sem í hlut eiga börn eða fullorðnir. Og hvað gerist þegar fólk sér fram á skert lífskjör?
Hvað gerist þegar fólk missir vinnuna?
Þegar unglingarnir okkar fá færri vinnudaga í vinnuskólanum og enga möguleika á að samræma vinnutíma við tómstunda og íþróttastarf eða samveru með fjöldskyldunni.
Hvað gerist þegar unglingarnir okkar á framhaldsskólastigi fá yfirhöfuð ekki sumarvinnu?
Hvað gerist ef dregið er úr þjónustu frístundaheimila? Svo ég dragi nú aðeins fram örfáar spurningar.
Jú samstöðu og samheldni borgarbúa er stefnt í hættu, aukin hætta er á áhættuhegðun
Mikilvægasta verkefni stjórnmálamanna á tímum efnhagslegs samdráttar er að stuðla að félagslegu réttlæti og siðferðilegri ábyrgð.
Fyrir ekki svo mörgum árum bárust okkur oft fréttir af miklum uppþotum í innflytjendahverfum franskra stórborga. Margir voru fljótir að draga þá ályktun að hér hlyti að vera eingöngu um hreint og klárt trúarbragðastríð að ræða þar sem múslimar og kristnir áttust við. En þeir sem hinsvegar rannsökuðu málin komust að annarri niðurstöðu. Rót vandans fólst ekki í árekstri mismunandi menningarheima eða mismunandi trúar- eða lífsskoðunum heldur í því að félagslegu réttlæti var ábótavant. Fólki í þessum hverfum, einkum ungu fólki var talin trú um það að það hefðí sömu réttindi og tækifæri til að blómstra í lífinu og aðrir íbúar á meðan það upplifði allt annað heldur en því var talin trú um.
Á tímum sem þessum skiptir meginmáli að fólk finni lífi sínu tilgang og það skiptir öllu máli að unga fólkið okkar hafi ástæðu til að fara á fætur á morgnanna, því ef það festist í for atvinnuleysis þá er voðinn vís, skammt kann að verða í áhættuhegðun og hver veit hvenær sá sem ekki hefur ástæðu til að vakna að morgni mun fara á fætur þegar birta fer í efnahagsmálum?
Að koma í veg fyrir að sambærilegir hlutir eigi sér stað hér í borg, að koma í veg fyrir það að fólk upplifi sig afskipt og án félagslegs réttlætis er eitt mikilvægasta verkefni borgaryfirvalda.
Og hvernig fer maður að við slíkt? Jú annarsvegar með því að leggja megináherslu á að stuðla að samstöðu borgarbúa en ekki sundrung. Og hinsvegar með því að leggja megináherslu á siðferðilega ábyrgð í pólitískum störfum. Hafa stjórnmálamenn siðferðileg grunnhugtök að leiðarljósi þegar þeir taka ákvarðanir? Hvernig er hægt að breyta siðferðilega rétt þegar allt er á hausnum kann einhver að spyrja. En það er ekki síst á slíkum tímum sem afar brýnt er að dusta rykið af siðferðilegum hugtökum á borð við réttlæti, jafnrétti, samstöðu og samfélagslega ábyrgð. Allt sem við gerum hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur áhrif siðferðilega séð.
Við höfum verið að horfa upp ákveðna tilburði í borginni til þess að sundra fólk frekar en að sameina það: leikskólastjórum boðið í kokteil á meðan aðrir starfsmenn fá ekki jólagjafir var ein fréttinn í vikunni. Og svo var málið afsakað með því að þetta hafi nú bara kostað kr. 200.000. Nú ætla ég ekki að fullyrða að þessi frétt sé rétt, enda trúi ég ekki öllu því sem fjölmiðlar segja en ef hún er rétt þá er aðalmálið ekki sú upphæð sem varið er í veitingarnar heldur sú breytni sem mjög líklega er til þess fallin að stuðla að óeiningu á meðal borgarstarfsmanna, þar sem einn er metinn meira en annar á samdráttartímum.
Það ber ekki á öðru en að borgarstjórnameirihlutanum sé ekkert endilega í mun að þjappa íbúunum saman á þessum tímum. Þjappa íbúunum saman burtséð frá allt og öllu, burtséð frá kyni, kynhneigð, fötlun, uppruna og lífsskoðunum."
Síðar í ræðu minni segi ég svo:
"Í nýjum bæklingi frá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur er tekið dæmi um mismunun vegna trúarskoðana. Þar segir:
Foreldrar Bergþóru, sem standa utan trúfélaga, vilja ekki að hún læri kristin fræði eða fari í kirkju á skólatíma. Bergþóru er boðið að sitja á bókasafninu, án þess að fá kennslu, á meðan kristindómsfræðslan stendur yfir. Foreldrarnir vilja hinsvegar að hún sitji við sama borð og hin börnin og njóti fræðslu á meðan."
Grundvallarmisskilnings gætir í þessu dæmi. Almennt eru foreldrar ekki bara ósáttir við að börn þeirra séu látin hanga á bókasafni á meðan trúarathafnir fara fram. Foreldrar eru fyrst og fremst ósáttir við að starfsemi opinberra skóla sé þannig háttað að þeir neyðist til að láta taka börn sín út úr venjulegu skólastarfi, frá samnemendum sínum og félögum.
Það er algjör óþarfi að stuðla markvisst að sundrungu íbúanna, og ekki síst þegar í hlut eiga börn og unglingar."
Stuttu síðar segi ég svo:
"Vinstrihreyfingin grænt framboð leggur til að útsvar verði hækkað til þess að mæta að einhverju leiti þeim efnahagsvanda sem við blasir. Er eitthvað rangt við það að útsvar verði hækkað á meðan við erum að komast yfir mesta vandann? Ef illa er farið með skattfé almennings þá má vissulega færa rök fyrir því að hér sé ekki um góða hugmynd að ræða. En ef umræddri útsvarshækkun verði varið til að styrkja velferðina, félagslega réttlætið og siðferðilegu ábyrgðina sem við höfum gagnvart samborgurum okkar þá er þetta bara hið besta mál.
Skemmst er að minnast fregna sem bárust fyrr á þessu ári þar sem ýmsir þýskir eintaklingar sendu stjórnvöldum þar í landi bón um að frekari skattahækkanir því þeir töldu sig vera aflögufæra og vildu leggja sitt af mörkum til samneyslunnar. Það má eiginlega segja að ég leggi sambærilega bón fyrir borgaryfirvöld af því að mig langar svo að leggja meira af mörkum til samneyslunnar í þágu þeirra sem raunverulega þurfa á því að halda. Þetta er fyrst og fremst siðferðileg skuldbinding."
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.