Hvar eru allar bækurnar? Smá pæling um heimsins besta háskóla

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðunni um metnaðarfull áform háskólafólks um að koma Háskóla Íslands í röð 100 bestu háskóla heims. Ég yrði að sjálfsögðu eins og eflaust allir landsmenn afskaplega ánægður ef HÍ yrði í þeim hópi. Þrátt fyrir að vera ekki í hópi þeirra bestu getum við að mörgu leyti vel við unað því við erum að keppa við mjög öfluga skóla úti í heimi sem hafa margra alda sögu.

Fyrir um 11 árum kom ég heim úr MA námi úr skóla í Belgíu sem var stofnaður árið 1425. Sá skóli er síður en svo sá eini í heiminum sem er svo gamall. Við getum því auðveldlega séð í hendi okkar að skólar sem hafa svo langa sögu hafa mjög mikið forskot á okkur sem við náum kannski ekki endilega á svipstundu. Því yrðum við nokkuð góð ef við kæmumst í hóp 500 bestu á næstunni.

Forskot svona gamalla skóla felst ekki síst í rita og gagnakosti. Ég man þegar ég var nýkomin úr námi að utan og fór í fyrsta sinn í Þjóðarbókhlöðuna, en hún hafði verið tekin í notkun meðan ég var úti við nám. Ég gekk inn og á milli hæða og sá nokkra hálftóma bókarekka hér og þar og mér fannst þetta eitthvað skrítið svo ég vatt mér að starfsmanni og spurði hvar bækurnar væru geymdar. Mér var bent á það sem ég hafði séð. Í sambanburði við bókakost Leuvenháskóla í Belgíu fannst mér þetta afskaplega rýrt. Mér sýndist í fljótu bragði allur sýnilegur bókakostur Þjóðabókhlöðunnar vera svipaður að magni og allur bókakostur bókasafns heimspekiskorar Leuvenháskóla. Eru þá bókasöfn allra annarra deilda þar úti ótalin.

En varðandi það að meta skóla í heild sinni að gæðum og raða upp þá verð ég að viðurkenna að ég skil þetta ekki alveg til fulls. Vissulega eru einhverjir staðlar notaðir en ég held að háskólar sem hafa margar deildir og margar skorir sem eru ólíkar hljóta að vera misjafnar að gæðum. Sérhæfing háskólanna innan greinanna er líka mikil og sem dæmi get ég nefnt heimspeki sem er mín grein. Heimspekin greininst í ýmsar undirgreinar og það er eflaust erfitt að meta hvaða deild er sú besta. Ein kann að vera í hópi 10 bestu deilda í fyrirbæraræði á meðan önnur er á meðal 10 bestu í stjórnmálaheimspeki og sú þriðja best á sviði fornaldarheimspeki og svona mætti áfram telja.

Spurningin sem eftir stendur varðandi Háskóla Íslands er því sú hvort skólinn ætlar sér að verða í hópi 100 bestu skóla í tannlæknakennslu, sagnfræðikennslu, dönskukennslu og öllum hinum greinunum sem kenndar eru auk rannsókna eða ætlar skólinn að einbeita sér að einhverjum ákveðnum sviðum til að ná þessum markmiði þar?

Stundum verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti og taki eitt skref í einu.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fræðingur

En núna er þó verið að stíga fysta skrefið, sem er meira en ekkert.

Fræðingur, 13.1.2007 kl. 01:23

2 Smámynd: Þorvarður Ragnar Hálfdanarson

Það er gott að HÍ hugsi stórt og til framtíðar en ég er hræddur um að þrátt fyrir nýlegar viljayfirlýsingar og sparisvip sé enn langt, afar langt, í að HÍ verði einn af 100 bestu háskólum heims, allavega er á heildina er litið. Kannski er möguleiki að einni eða tveimur skorum takist að ná langt þó ég sjái það ekki vera að gerast á næstunni. Þeir eiga kannski séns í að verða besta íslenskudeild í háskólum heimsins...

Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 13.1.2007 kl. 01:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband