Skólaþrældómurinn

Eftir að hafa kennt í unglingadeild grunnskóla í bráðum sex ár og ekki síst eftir að sonur minn byrjaði í 8. bekk er ég á því að vinnuálag unglinga er mjög oft langt umfram það sem góðu hófi gegnir. Sérstaklega á þetta við um unglinga sem eiga sér eitthvað líf fyrir utan skóla og eru í íþróttum eða tónlistarnámi eða einhverju þessháttar.

Dæmigerð viðvera unglings í 8. bekk grunnskóla svo tekið sé mið af einni stundatöflu er þrjá daga í viku frá kl. 08.05 -14.40, einn dag í viku frá kl. 08.05 - 14.00 og einn dag frá kl.08.05 - 13.10. Síðan er heimavinna og því miður virðast sumir kennarar vera haldnir þeirri röngu hugmynd að gæði kennslu felist í því að leggja sem mest á börnin; það á að lesa stór bókmenntaverk á ýmsum tungumálum, það á að skrifa ritgerðir, vinna vinnubækur, læra málfræðireglur, reikna dæmi ofl ofl og mikið af þessu er gert heima. Að sjálfsögðu eru stífir skilafrestir á þessu öllu saman svo að kennarar hafi nú eitthvað að segja við foreldra í foreldraviðtölunum því ekkert er verra að mati sumra kennarar en að þögnin ein ríki í foreldraviðtölum. Nú svo eru gefna einkunnir fyrir þetta allt saman og sjálfsmynd nemenda mótast síðan smátt og smátt í ljósi þessarar vinnu sem oft þarf að vinna á kvöldin og um helgar nema viðkomandi hætti í tónlistinni eða íþróttunum eða fermingarfræðslunni. Ég læt nú eiginlega vera að tala um kaflaprófin, skyndiprófin, annarprófin, jólaprófin, vorprófin, samræmduprófin og hvað nú þær heita allar þessar mælistikur.

Þegar ég spái í þessa löngu vinnudaga unglinganna þá velti ég því stundum fyrir mér hvaða kennarar það voru í minni skólagöngu sem höfðu mest áhrif á mig. Voru það málfræðifasistarnir sem ætluðust til þess að maður lægi daginn út og daginn inn yfir þurrum málfræðiæfingum eða aðrir álíka verkefnamiðaðir kennarar. Nei, ég satt að segja man afskaplega lítið eftir svoleiðis kennurum. Þeir kennarar sem ég man eftir og hugsa hlýlega til voru þeir sem gáfu mér eitthvað, kenndu mér eitthvað sem hefur gagnast mér án þess að ég eigi auðvelt með að festa hendur á því hvað það var nákvæmlega sem þeir kenndu. Þetta voru þeir kennarar (þeir voru því miður of fáir) sem kenndu "sjálfa sig". Þetta voru þeir sem gáfu af sér með því að gefa sér tíma til þess að staldra við, leggja stundum bækurnar til hliðar og ræða við okkur. 

Samræðan er stórlega vanmetin í grunnskólastarfi þar sem ég þekki til, en spyrja má hvernig verða einstaklingar sem aldrei er talað við?

Annað sem ég vil einnig varpa til umhugsunar er hlutur hamingjunnar í skólastarfi. Hversu háan sess fær hamingjan í aðalnámskrá grunnskóla? Ég hef margoft lesið aðalnámskrá gunnskóla og eflaust er einhversstaðar talað um að skólinn eigi að stuðla að hamingju nemenda, en málið er bara það að það fer svo lítið fyrir henni og ef hún er þar þá man ég ekki eftir henni.

Ég hef því verkefni handa ykkur lesendur góðir að fletta upp í aðalnámskrá grunnskóla og finna hvar talað er um að skólinn skuli stuðla að hamingju nemenda. Ljóst er að útúrstressaðir nemendur af vinnuálagi verða seint hamingjusamir. Þvert á móti er því miður of oft verið að ala börnin upp í því að dyggð sé að vera útúrstressaður vinnualki.

En við skulum hinsvegar gá að því að hamingja er það besta sem við sem störfum í skólum getum gefið unglingunum okkar.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elfur Logadóttir

Hjartanlega sammála þér.

Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég flutti til Noregs nú í haust er hinn ótrúlegi munur á tímasókn, heimanámi og sérstaklega hópastarfi og öðru samstarfi.

 Dóttur minni í 9. bekk, líður miklu betur í skólanum hér, sem hefur viðveru í ca. 25 kennslustundir á viku (ólíkt ca. 40st heima) heldur en heima og það þrátt fyrir að heimavinnan sé meiri.

Ég er nokkuð viss um að það sem gerir gæfumuninn er einmitt samræðan. Þau tala saman, vinna saman og, það sem meira er, leika sér saman langt umfram það sem gert er á Íslandi. Og samt ná þau að fara yfir allt það sem farið er yfir í skólanum heima.

Elfur Logadóttir, 12.1.2007 kl. 04:05

2 Smámynd: Sigmar Hj

Vinnuálag er mjög hóflegt á þeim krökkum sem kunna að nýta sér kennslustundir að einhverju viti.  Það er mín reynsla (25 ár) í kennslu.  Sum sem "eiga sér líf" eftir kennslu ættu ef til vill í sumum tilvikum að átta sig á því að lífið eftir kennslu er ágætt en ekki aðalatriðið meðan á skólatíma stendur.

Sigmar Hj, 12.1.2007 kl. 16:43

3 identicon

Ég er alveg sammála þvi að hamingja og gleði eigi að vera aðalmarkmiðið með skólastarfi. Hluti af því er að undirbúa nemendur vel fyrir framtíðina, bæði gegnum vinnu og leik í kennslustundum og heimanám. Skv. minni kennslureynslu hefur Sigmar Hj rétt fyrir sér hér að ofan þegar hann segir að vinnuálag sé almennt hóflegt hjá þeim sem nýta kennslustundirnar. Held reyndar að stór hluti heimavinnunnar eigi sér rætur í vilja og kröfum foreldra; hversu oft hef ég ekki heyrt fólk kvarta yfir lítilli heimavinnu hjá börnunum sínum, og líta á það sem mark um að kennarar séu að kasta til höndunum.  Og sem tungumálakennari verð ég að mótmæla þeim neikvæða tóni sem hljómaði gagnvart lestri og ritgerðaskrifum. Ritþjálfun sú sem fer fram í grunnskólunum er eitt af því mikilvægasta í undirbúningi fyrir nám og störf í framtíðinni, að nemendur geti bæði skrifað skýrt og skorinort, ekki bara langt og mikið.

Reynir Þór Eggertsson (IP-tala skráð) 12.1.2007 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband