Borgarstjórinn okkar er ábyggilega voða góður karl (gamli góði Villi) en hann má eiga það þrátt fyrir alla sína gæsku að vera oft frekar klaufalegur. Í baráttu sinni gegn spilakössum lagði hann það til í sjónvarpsviðtali hvort ekki væri ráð að setja spilakassana út í Örfirisey. Og hvað er svona klaufalegt við þessa hugmynd?
Jú andstaða borgarstjóra gegn spilakössum í Mjóddinni er flott, en það sem mér finnst ekki eins flott er að færa spilaruglið til í bænum þó svo að staðurinn sé ekki beint í alfaraleið. Ég er á þeirri skoðun að spilakassar eigi ekki að líðast í landinu, en nú eru starfræktir 970 spilakassar í landinu.
Ég komst að þessari skoðun þegar ég var í framhaldsskóla og málið var rætt í sálfræðitíma. Þar sagði kennarinn að spilakassarnir væru þannig úr garði gerðir að þeir geta aldrei tapað spili. Er einhver sem vill spila við þá sem aldrei geta tapað? Eftir að ég fór að hugsa spilakassana á þann hátt varð ég mjög andsnúainn þeim, enda fjölmargir sem ánetjast þeim og tapa aleigunni.
Því miður eru ýmsir sem fjármagna starfsemi sína að hluta a.m.k. með rekstri spilakassa og er það mjög vafasöm leið til fjármögnunar. Ég hef t.d. aldrei heyrt um nokkurn mann sem fer í spilakassa eingöngu til þess að styrkja gott málefni.
Háskólinn er ansi öflugur í að efla spilafíkn landsmanna og það er svo merkilegt hversu vafasöm fjármögnun Háskólans er, því skólinn fjármagnar sig ekki bara með eflingu spilafíknar heldur er okkur vesalingunum sem stöndum utan allra trúfélaga gert að greiða okkar "sóknargjöld" til skólans án þess að fá nokkra þjónustu fyrir vikið.
Svo heyrði ég einhverntíman um að SÁÁ sem berst gegn fíkn starfrækti spilakassa. Ég vona að svo sé ekki lengur því ef svo er hver er þá munurinn að reka spilakassa sem gerir út á spilafíkn eða selja brennivín sem gerir út á áfengisfíkn?
En málið verður rætt á laugardaginn kl. 11-13 á fundi hjá vinstri grænum að Suðurgötu 3. Frummælandi verður Ögmundur Jónasson. Allir hvattir til að mæta og taka þátt í skoðanaskiptum um þetta mál.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.1.2007 kl. 13:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.