Gleymum ekki afstöðu ríkisstjórnarinnar til innrásarinnar í Írak

Í dag var þess minnst að fjögur ár eru liðin síðan ráðist var í Írak með stuðningi ríkisstjórnar Íslands. Þjóðin var ekki spurð. Minnumst þess að það var ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem studdi innrásina og hafa staðið þétt við bakið á stríðsherrunum.

Í ljósi allrar þeirrar þjáningar sem lögð hefur verið á Írösku þjóðina og lágstéttarkrakkana frá Ameríku sem send hafa verið í stríðið hvet ég alla til þess að greiða þessum stríðsflokkum ekki atkvæði sitt í kosningunum 12. maí næstkomandi.

Maður veit svo sem aldrei upp á hverju þessir Haukar, hvort sem þeir heita Davíð eða Halldór, Geir eða Jón, taka upp á næst. 

JB


Fjögur ár frá innrásinni í Írak

Senn eru liðin fjögur ár frá því að innrás Bandaríkjamanna og bandalagsríkja þeirra í Írak hófst, með formlegum stuðningi íslenskra stjórnvalda. Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar ráðamanna í BNA um að friður sé að komast á í landinu, er ekkert lát á óöldinni í Írak og sífellt fleirum verður ljóst hvaða hörmungar stríðið hefur kallað yfir írösku þjóðina.

Mánudagskvöldið 19. mars munu hinir staðföstu stríðsandstæðingar efna til baráttusamkomu í Austurbæ, þar sem hernáminu verður mótmælt og þess krafist að íslensk stjórnvöld axli ábyrgð vegna hins svívirðilega stuðnings við ólöglegt árásarstríð.

Dagskráin hefst kl. 20.

Ávörp flytja:
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Helgi Hjörvar

Tónlistaratriði:
XXX Rottweilerhundar,
Ólöf Arnalds

& Vilhelm Anton Jónsson

Upplestur:
Bragi Ólafsson

Kynnir:
Davíð Þór Jónsson

Hinir staðföstu stríðsandstæðingar eru:

Samtök hernaðarandstæðinga
MFÍK
Þjóðarhreyfingin - með lýðræði
Ung vinstri græn

& Ungir Jafnaðarmenn


Góð hugmynd hjá Þórarni Eldjárn

Athyglisvert viðtal birtist við Þórarinn Eldjární Blaðinu í dag. Þórarinn hefur lengi sýnt okkur með ritum sínum skemmtileg sjónarhorn á hversdagslega hluti og í viðtalinu í dag kemur hann með hugmynd að samkomulagi sem ég tel fulla ástæðu til þess að hrinda í framkvæmd. Þetta er samkomulag um hvernig samkiptum trúarbragðanna og hins opinbera lífs ætti að vera háttað. Þórarinn orðar þetta á eftirfarandi hátt:

"Ég amast ekki við því að fólk ástundi trúarbrögð en þykir smekklegra að það haldi þeirri iðju fyrir sjálft sig. Ég er á þeirri skoðun að trúarbrögð og opinber iðkun þeirra sé oft og einatt mikið böl í heimi hér. Og því miður vaxandi nú um stundir. Helst myndi ég vilja að víðtækt samkomulag yrði gert um að öll trúarbrögð séu einkamál. Og síst af öllu tengd stjórnmálum. Mér blöskrar þetta fólk um allan heim, af ýmsum trúarbrögðum sem hefur Guð með sér í óhæfuverkum og notar trúarbrögð til að réttlæta hvaða hrylling sem er fyrir sjálfu sér og öðrum."

Þarna eru orð í tíma töluð og við þau hef ég engu við að bæta.

JB


Alvarlegar afleiðingar fátæktar

Afleiðing fátæktar á heimilum er samkvæmt nýrri rannsókn líklega áhættuþáttur fyrir ýmsa neikvæða þætti í fari unglinga. Jón Gunnar Bernburg lektor og fleiri gerðu rannsókn sem náði til allra grunnskólanemenda á landinu. Niðurstaða rannsóknarinnar leiddi í ljós að fátækt er áhættuþáttur fyrir þætti eins og depurð, reiði og afbrot hjá þeim unglingum sem við hana búa.

Þetta kemur mér ekki á óvart. Á þessum efnishyggju - og neyslutímum er erfitt fyrir unglinga að horfa upp á misskiptingu auðæfanna í landinu. Að horfa upp á suma geta gert hvað sem er og geta eignast hvað sem er á meðan aðrir eru í óvissu um það hvort eitthvað sé í kvöldmat vekur eðlilega reiði unglinga, depurð eða leiðir þá út í afbrot. Spyrja má hvort reiði sem sprottin er af slíku ástandi sé ekki réttlát reiði? Fátækt er þess eðlis að hún er iðulega metin í samanburði við aðra þjóðfélagsþegna sama samfélags. Þó að stjórnmálamenn segi almenning hafa það gott þá ber fólk kjör sín saman við þá sem hafa það enn betra. Og þegar það er margfaldur munur á launakjörum fólks þá er ekkert óeðlilegt að fólk verði biturt, ekki síst unglingar sem margir hverjir hafa ríka réttlætiskennd.

Á þesu þarf að taka. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur lagt á það áherslu að núna í vor verði ekki síst kosið um hvernig velferðarsamfélaginu mun reiða af á næstu árum. Munum við búa við áframhaldandi ameríkanseringu samfélagsins með gengdarlausri græðgisvæðingu, ofurlaunum, misskipti auðs og niðurskurði á samfélagslegri grunnþjónustu eða ætlar fólk að styrkja velferðarsamfélagið, réttlætið og jöfnuðinn?

Um þetta verður ekki síst kosið í vor. Fátæktin er nefnilega hápólitískt mál.

JB


Slagsíðan

Ég rakst inn í kjallara að Laugavegi 21 í dag. Þar hefur fram til þessa verið til húsa félagsmiðstöðin Snarrót sem hýst hefur ungt hugsjónafólk. Núna nýlega var opnuð bókaverslun sem er með býsna athyglisverðar bækur til sölu. Kallast verslunin Bókabúð Slagsíðunnar. Hafa þeir sem standa að þessari verslun sérhæft sig í að bjóða upp á róttækar bókmenntir um stjórnmál, hugmyndafræði og þjóðfélagsmál. þar má finna m.a. lesningu um réttlát viðskipti, ruglið í Bush, Zionisma, Anarkisma, sósíaliska hugmyndafræði, alþjóðavæðingu, náttúru- og umhverfisvernd, Hugo Chavez, vopnaiðnaðinn, Noam Chomski, stríðsbrölt, fíkniefnaframleiðsuna í Afganistan, baráttu bænda gegn ruslfæði og margt margt fleira.

Áhugavert fyrir fólk sem vill pæla í þjóðfélagsmálum með gagnrýnu hugarfari. Frábært framtak.

Hvet fólk eindregið að kíkja inn en opið er mánudaga - laugardaga kl. 15:00-18:00.

JB

 

 


Þegar fjölpósturinn var ekki til - áskorun til lesenda

Ég er ekkert að ýkja mikið þegar ég segi að ég hef eiginlega verið að drukkna í svokölluðum fjölpósti undanfarin ár. Það er engu öðru að kenna en eigin framtaksleysi að ég skuli ekki hafa fengið mér miða þar sem slíkur póstur er afþakkaður. Í dag var mælirinn fullur og ég gerði mér ferð á pósthúsið og óskaði eftir einum gulum til að setja á bréfalúguna. Að sjálfsögðu er þetta hluti af því að reyna að verða umhverfisvænni. Það má kannski segja að framtaksleysið stafi af því að manni er ekkert sérstaklega umbunað fyrir að vera umhverfisvænn. Það er galli og því þarf að breyta.

Þegar ég var í pósthúsinu rifjaðist upp sá tíma þegar fjölpósturinn var ekki til hér á landi. Ég man vel eftir fyrstu kynnum mínum af fjölpósti en það var þegar ég var skiptinemi í Kanada 1984. Slíkur póstur kom reglulega til okkar þarna í sveitinni þar sem ég bjó og virtist fólkið kunna vel að meta þessa pésa, alla vega voru þeir lesnir og mikið spáð í verð og vörur.

Þetta var líka á þeim árum þegar Mc Donalds var heldur ekki til á Íslandi við. En síðan hefur margt breist hér á landi og fjölpósturinn flæðir og endar iðulega í einhverjum gámi ólesinn.

Í ljósi umhverfis og sóunar hef ég semsagt ákveðið að afþakka pent allan fjölpóst og skora á aðra að gera slíkt hið sama.

JB

 


Um kjör verkafólks í dótturfyrirtæki Bakkavarar í Englandi

Alveg eru fréttirnar af kjörum verkafólks í breska fyrirtækinu Katsouris Fresh makalausar. Ekki hljómar það heldur betur að Katsouris Fresh er dótturfyrirtæki Bakkavarar. Fréttir herma að í umræddu fyrirtæki er ýmislegt sem ekki er fólki sæmandi; öryggis- og heilsumálum  er ábótavant þannig að fólk hefur t.d. verið að missa útlimi, launamálin eru ekkert til þess að hrópa húrra fyrir og stór hluti starfsmanna á við tungumálaerfiðleika að etja.

Verkalýðsfélagið GMB hefur gert úttekt á fyrirtækinu og í kjölfarið birt svarta skýrslu. Frá stjórnendum Katsouris Fresh hafa engin viðbrögð boris og því hefur verkalýðsfélagið leitað til eigendanna, þ.e. yfirstjórnar Bakkavarar.

Það virðist seint ætla að ganga að bæta kjör verkafólks í heiminum og það virðist enn síður ætla að ganga að koma eigendum alltof margra fyrirtækja í skilning um að það er fólkið á lægstu laununum sem vinnur sína löngu vinnudaga sem er undirstaða þess að fyritæki hafa möguleika á að hagnast.

Þetta dæmi er til þess eins að minna okkur sem störfum innan vébanda verkalýðsflokks að barátta verkafólks er svo sannarlega ekki lokið og það sem meira er hún er eins og ávallt áður alþjóðleg. Við höfum svo sannarlega orðið vör við það þar sem hér á landi eiga sér stað ítrekaðar tilraunir til að halda aftur af kjörum erlendra farandverkamanna.

Barátta verkafólks erlendis er einnig okkar barátta. Alþjóðahyggja verkafólks hefur væntanlega aldrei verið mikilvægari en einmitt á okkar tímum. Gleymum því ekki.

JB


Þegar lífsgæðin felast í roki, rigningu, myrkri og sjó

Ég er svo lánsamur að eiga nágranna sem eru pólskir. Já ég segi lánsamur vegna þess að það víkkar óneytanlega sjóndeildarhringinn að umgangast og fylgjast með fólki sem sest hefur hér að.

Þegar ég hef verið með fordómafræðslu með nemendum mínum og spurt þá að því hvaða hópar á Íslandi verði fyrir fordómum verða pólverjar ansi oft nefndir. Það er miður og tel ég það, eins og yfirleitt er með fordóma felast í því að fólk hefur ekki fengið að kynnast eða hefur jafnvel ekki viljað kynnast af einhverjum ástæðum. Nú eru það svo að pólsk börn eru nær daglegir gestir á heimili mínu og eru það að mínu mati óneitanlega forréttindi barnanna minna að fá að kynnast börnum af öðru þjóðernir í uppvexti sínum. Við erum öll að læra eitthvað nýtt af samskiptum okkar við pólverjana og er lærdómur ekki jákvæður?

Það sem við höfum lært af pólverjunum er ýmislegt, en þó finnst mér það athyglisverðasata er að læra að njóta brjálaða veðursins á Íslandi. Það er oft stutt í að maður kvarti undan roki, rigningu og myrkri. En nágrannar mínir hinir pólsku hafa gefið mér annað sjónarhorn á brjálaða veðrið. Það er ekki eins slæmt og ætla mætti eða m.ö.o. þá má upplifa það öðruvísi en á neikvæðan hátt.

Í kvöld bankaði pólska fjölskyldan uppá og sagðist vera að fara út í Gróttu til þess að upplifa rokið, rigninguna, myrkrið og öldurnar og spurðu hvort dóttir mín vildi ekki koma með sem og hún gerði.

Þetta finnst mér frábært. Að fólki komi alla leið frá Póllandi og sýni manni að það er hægt að hafa gaman af veðrinu sem mörg okkar blótum alltof oft. Já gott ef ég er ekki farinn að spá í að fara með þeim næst niður í fjöru þegar gerir brjálað veður og athuga hvort ég sé ekki veðrið í öðru ljósi.

Svo sannarlega getur maður lært ýmislegt af útlendingunum. Það er bara spurning hvort hinir "frjálslyndu" í pólitíkinni hefðu ekki líka gott af því að fara í eins og eina fjöruferð með pólskri fjölskyldu í brjáluðu veðri.

JB


Ef Sparisjóðurinn hefði virkilega áhuga á að vera betri banki en aðrir bankar myndi hann hætta að láta okkur viðskiptavinina greiða fyrir auglýsingaherferðina og í staðinn leitast við að lækka þjónustugjöldin

Ég hef í 40 ár verið viðskiptavinur Sparisjóðanna. Fyrst í Sparisjóðnum í Keflavík og síðan í SPRON. Ég á að vísu enn tvo reikninga i Sparísjóðnum í Keflavík en viðskipti mín eru ekki stórvægileg og eru sem stendur aðallega við SPRON.  Sparisjóðurinn hefur verið í mikilli en jafnframt fíflalegri auglýsingaherferð að undanförnu þar sem fólk á að vera að segja upp bankaviðskiptum sínum í þeim tilgangi að færa öll viðskipti til Sparisjóðsins. Í auglýsingum sínum þykist Sparisjóðurinn vera eitthvað betri en aðrir bankar en er hann það?

Þrátt fyrir þessar auglýsingar og þrátt fyrir viðskipti mín við Sparisjóðinn undanfarin 40 hef ég hvergi getað séð að Sparisjóðurinn sé eitthvað betri eða verri en aðrir bankar. Í mínum augum eru bankar á Íslandi bara bankar. Þeir eru allir gráðugir, reyna að fá mann til þess að skulda sem mest til þess að græða á manni (það var jú Sparisjóðurinn sem bauð mér að greiða jólaneysluna niður á þremur árum, hugsið ykkur fíflaganginn í einu fyrirtæki), þeir hafa allir sambærileg þjónustugjöld og allir eyða þeir gríðarlegum kostnaði í auglýsingar sem eru greiddar af okkur viðskiptavinunum þegar upp er staðið, og ofurlaunin eru þau ekki líka hjá öllum toppunum hverju nafni sem þeir nefnast? 

Þeir eiga semsagt allir í "hegðunarvanda" svo ég noti orðalag Harðar Bergmann sem ræðir m.a. hegðunarvanda fyrirtækja í nýju bókinni sinni, en sá vandi felst m.a. í að mati Harðar á stórgróða, samráði ofurlaunum, gjöld til þess að fá að greiða reikningana, uppgreiðslugjöldum á lánum, kostnaðarsömu auglýsingaglamri og svona mætti áfram telja.

Ef Sparisjóðurinn hefði virkilega áhuga á að vera betri banki en aðrir bankar myndi hann hætta að láta okkur viðskiptavinina greiða fyrir auglýsingaherferðina og í staðinn leitast við að lækka þjónustugjöldin. Þá væri bankinn farinn að tala mannamál. En eins og staðan er núna þá dettur mér eiginlega ekkert í hug þegar ég sé auglýsingar bankans annað en að kannski ætti ég bara að láta hann róa eftir þessi 40 ár. Ég hvorki græði né tapa þó ég færi viðskipti mín annað. Það er sami rassinn undir þeim öllum.

JB


"...og út úr þokunni stígur venjulega forysta Framsóknarflokksins og fær lyklavöld hvað sem fylginu líður"

Hörður Bergmann var að gefa út athyglisverða bók þar sem hann rýnir á gagnrýninn hátt í íslenskt samfélag nútímans. Bókin heitir Að vera eða sýnast. Þar fjallar Hörður um mikilvægi gagnrýninnar hugsunar og málefnalegrar umræðu um samfélagsmál sem hann segir að skorti allverulega.

Í tilefni kosningabaráttunnar læt hér fylgja góða tilvitnun í bók Harðar til umhugsunar, en þar segir Hörður m.a.:

"...líkjast starfshættir stjórnmálaflokka að mörgu leyti því sem tíðkast við markaðssetningu. Í kosningum er boðið upp á pakka í fallegum umbúðum. Væntanleg stjórnarmyndun er jafnan sveipuð þoku eins og fyrr segir - og út úr þokunni stígur venjulega forysta Framsóknarflokksins og fær lyklavöld hvað sem fylginu líður. Aflokun upplýsinga og fagurgali stjórnmálaflokka grefur ásamt faglega hönnuðu sjónarspili undan lýðræði í landinu. Fyrir kosningar hamra valdhafarnir á því sem hljómar vel og virðist mörgum í hag: stöðugleika, svigrúm til skattalækkana, nægu fé til samgöngubóta og "menningarhúsa" en þegar aftur er sest í valdastólana verður nauðsynlegt að "gæta aðhalds" til þess að "koma í veg fyrir þennslu"."

Eru þetta ekki orð í tíma töluð hjá Herði? Jú svo sannarlega og ekki síst þegar hann talar um þá sem koma út úr þokunni og fá lyklavöldin, Framsóknarflokkinn. Eigum við ekki að gefa honum frí frá næstu ríkisstjórn?

JB


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband