Drengurinn í bleika kjólnum

Nokkuð hefur verið rætt að undanförnu um hvaða litir hæfi nú börnunum best, blátt, bleikt, hvítt eða jafnvel einhverjir aðrir. Eftir að þessi umræða fór af stað rifjaðist upp fyrir mér atvik sem átti sér stað fyrir löngu síðan þegar sonur minn tók upp á því að klæðast bleikum kjól. En þannig atvikaðist það:

Við bjuggum í Belgíu á þeim tíma. Ég sat inni á baði í íbúðinni okkar og blés í flautuna mína fyrir son minn, þá tæplega þriggja ára sem lék sér á gólfinu (ástæðan fyrir því að við vorum inni á baði var sú að aðeins tveir ofnar voru í húsinu og á köldum dögum var hlítt í baðherbergin).

Skyndilega heyrist mikill hávaði og læti neðan úr ganginum og ég heyri strax að það er konan sem rekur saumastofuna De Knip á hæðinni fyrir neðan sem rekið hafði nefið inn í ganginn til okkar og var eitthvað að gala.  Þetta var lítil miðaldra kona, hjólbeinótt mjög og oftast óðamála en afar indæl.  Konan mín var þarna komin á vettvang og heyri ég hana svara saumakonunni hátt og snjallt á þessari líka fínu flæmsku svo eflaust mátti víða heyra:  "Maðurinn minn hugsar bara ekki!"  "Hvað voru þær að tala um mig?" hugsaði ég og dreif mig fram.  Málið var það að allir héldu að barnið væri inni á baðherbergi að hlusta á flautuleik föður sins þegar annað hafði heldur betur komið í ljós.  Án þess að ég hafi áttað mig á hafði drengurinn farið út úr baðherginu fram í stofuna og klætt sig í bleikan kjól sem móðir hans hafði keypt til þess að gefa lítilli stelpu í afmælisgjöf.  Því næst fór hann fram á gang og niður stigann og út á gangstétt.  Á gangstéttinni sem lá við mikla umferðargötu spókaði hann sig í bleika kjólnum og virtist vera afskaplega ánægður með sjálfan sig þar til saumakonan sá hann út um gluggann og dreif hann inn hið snarasta, enda lífshættulegt fyrir rúmlega tveggja ára barn að vera að leika sér við aðra eins umferðargötu.  Fyrir utan það að á þeim tíma voru barnsrán ekki óalgengur hlutur í Belgíu. 

Ef hægt er að segja að maður hafi einhverntíman sloppið með skrekkinn þá var það þarna og í ljósi þessarar reynslu mæli ég ekki með bleikum kjólum fyrir unga drengi.W00t

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fishandchips

Ætlaði að setja inn broskarl, en tölvudruslan í þrjóskukasti.

Enn þessi saga mín minnti mig á þegar sonur minn var ca. 5 ára.

Þá fékk hann fyrsta tvíhjólið (ok. það eru 20 ár síðan). En ég hafði eina reglu, stranga reglu, enginn hjálmur, ekkert hjól. Þannig að við mæðginin fórum út að kaupa hjálm. Það gekk nú hálf brösulega, því ekki voru til hjálmar í hans stærð. Samt fórum við í allar hjólabúðirnar (minnir að þær hafi verið allavega 3-4 á þessum tíma). En eini hjálmurinn sem fannst og passaði, var skærbleikur.

Eftir nokkra rekistefnu við soninn, sem var að mestu sáttur við litinn, (aðalega mamman hálf ósátt) voru fest kaup á þessum forláta hjálmi. En þennan hjálm notaði minn maður stoltur, þangað til hann varð of lítill. Held að þessi reynsla hafi bara gert honum gott, gert hann hæfari í að vera einstakur. Núna er hann atvinnuflugmaður í útlöndum, með konu og börn.

Úbbs, kannski þessvegna er hann í útlöndum....

Fishandchips, 7.12.2007 kl. 00:21

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Það rifjaðist upp fyrir mér kvikmynd sem ég sá einhvern tíma, annað hvort hollensk eða belgísk, um dreng sem vildi ganga í kjól...því miður man ég ekki hvað hún heitir. Hún endaði vel.

Greta Björg Úlfsdóttir, 17.12.2007 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband