Það er bara eðlilegasti hlutur í heimi að tiltrú almennings á stjórnmálaflokkunum fari minnkandi

Í Morgunblaðinu í gær kom fram að almenningur hefur síður en svo minnkandi áhuga á stjórnmálum og sínu nánasta umhverfi. Hinsvegar kemur fram að fólk hefur síður áhuga á starfi og lausnum hefðbundinna stjórnálaflokka sem minni kjörsókn og minni þátttaka í starfi flokkanna ber með sér.

Þetta kemur mér ekki á óvart. Of margir stjórnmálaflokkar eru komnir á þá braut að útiloka þátttöku "venjulegs" fólks frá því að geta komist til einhverra verulegra áhrifa innan stjórnsýslunnar. Félagi Evo Morales, okkar maður í Bólivíu lýsti þessu í ræðu sem hann hélt í Mexíkó 2003 á þann veg að flestir sem þátt tækju í stjórnmálum væru farnir að lifa af þeim í stað þess að lifa fyrir þau. Átti hann þá við að fólk tæki þátt í stjórnmálum rétt eins óg það tekur þátt í atvinnulífinu í stað þess að líta á stjórnmálin og flokkana sem vettvang fyrir hugsjónir og tækifæri til að breyta nánasta umhverfi. (Þetta er samhljóma því sem ég hef lengi sagt þégar ég tala um Framsóknarflokkin sem atvinnumiðlun).

Þessi þróun er komin vel af stað hér á landi eins og eftirfarandi dæmi sannar:

Hvernig fær maður sæti á framboðslistum flokkanna? Nú með því að fara í prófkjör/foval og heyja þar kostnaðarsama kosningabaráttu upp á hundruði þúsunda. En ef maður vill ekki eyða of miklum peningum? Fær maður þá ekki sæti á lista? Það er hæpið. Og ef maður er ekki framarlega á framboðslista, verður maður þá nokkurntíman ráðherra eða borgarstjóri? Það er hæpið.

Sem betur fer eru enn til þeir flokkar sem ekki krefjast þess að fólk eigi mikið af aurum til að fá sæti á framboðslistum. Einn þessara flokka er Vinstrihreyfingin grænt framboð. Sjálfur tók ég þátt í forvali flokksins fyrir kosningarnar í vor og kostaði það mig ekki neitt. Enda var samkomulag á milli frambjóðenda að eyða helst engu.

Ef ég hefði hinsvegar tekið þátt í prófkjörum Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins og lagt mig allan fram þá væri ég hugsanlega, ef árangurinn hefði ekki orðið nógu góður að reyna að bjarga sjálfum mér frá gjaldþroti og svæfi ásamt fjölskyldunni undir dagblöðum á Miklatúni.

Nefna mætti fleiri dæmi um það hvernig flokkarnir eru að þróast og mála sig út í horn en ég læt þetta eina dæmi duga að sinni.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband