18.6.2010 | 10:24
Leiðindin innleidd í grunnskóla Reykjavíkur
Það er alveg með ólíkindum hversu hugmyndasnauðir stjórnmálamenn eru þegar kemur að því að efla starf í grunnskólum. Það að etja einum skóla gegn öðrum í einhverri samkeppni, þar sem keppt er um verðlaun eða heiður virðist vera það eina sem þeim dettur í hug. Þekktust eru líklega menntaverðlaun forsetans sem áttiu að verða leiðin að aukinni viðurkenningu og bættu skólastarfi, sem ég reyndar dreg í efa að sé raunin þegar upp er staðið.
Nú vill nýr borgarstjórnarmeirihluti líka efla skólastarf grunnskólanna og hvernig á að fara að því? Jú það á að láta skólana fara í keppni sín á milli. Í Fréttablaðinu í gær var greint svo frá þessari stefnu borgarstjórnarmeirihlutans:
"Skólar keppi um "Menningarfána". Þannig geta skólar sem skara fram úr í menningar- og listfræðslu fengið viðurkenningu. Síðar mætti svo bæta við fánum fyrir aðrar greinar."
Mig langar til að varpa fram nokkrum spurningum: Hversvegna þurfa skólar að fara að keppa sín á milli í stað þess að stuðla að samvinnu og samstarfi þar sem starfsfólk skólanna miðlar af reynslu sinni og hugmyndum? Ef keppnisandinn heltekur skólana eru þá líkur á því að einn skóli sé viljugur til að láta af hendi allar sínar góðu hugmyndir til samkeppnisaðilanna sem gætu þá hneppt þennan æðislega "menningarfána"?
Þetta er aðeins of mikið "2007" fyrir minn smekk, en í þá daga átti að leysa öll heimsins vandamál með samkeppni, ekki var verra ef baráttan var pínulítið óheiðarleg og jafvel enn betra ef hún var pínulítið "blóðug".
Ég á eftir að sjá mig keppa um "Heimspekifána grunnskólanna" fyrir hönd Réttarholtsskóla og berjast eins og ljón að titlinum gegn félaga mínum í faginu, honum Jóni í Laugalæk: "Nei Jón ég ætla ekki að segja þér frá frábærum hugmyndum sem ég er með í heimspekikennslunni vegna þess að þú gætir unnið "Heimspekifána grunnskólanna", ok bæ."
Ég hvet borgaryfirvöld til að hætta þessu fyrirhugaða samkeppnisbrölti og hugsa málið upp á nýtt. Það skyldi þó ekki vera að borgarstjórnarmeirihlutinn þurfi aðeins meiri rökhugsun?
Og síðast en ekki síst, í viðleitni ykkar til að efla skólastarf þá er allt í lagi að þið kíkið í heimsókn, ekki hef ég séð stjórnmálamann á vappi í mínum skóla svo árum skipti (ekki einu sinni fyrir síðustu kosningar).
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:37 | Facebook
Athugasemdir
Góð athugasemd, við skólafólk höfum líka alltof lengi þagað yfir ýmsu brölti stjórnmálamanna, sérstakleg hér í Reykjavík þar sem menn sem setjast í ráð þurfa að sýna hvað þeir hafa gert og þá eru það einhver upphrópunarvekefni meðan skólinn þarf á festu að halda.
Erling Olafsson (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 11:50
Þetta er rétt hjá þér. Það er betra að láta hvern nemanda keppa við sjálfan sig.
Vendetta, 18.6.2010 kl. 12:48
... Sammála þessi, held það sé kannski bara hugmyndaskortur sem ráð þessari úrfærslu og eins og þú segir kannski skortur á að hugsa málið lengra ... Er ekki bara málið að bjóða borgarstjórnarmeirihlutanum (og minnihlutanum líka) upp á smá námskeið .? ... Sé ekki hæfari mann til þess en þig :)
Sólveig Jónas (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 12:51
Útkoman þegar stjórnmálamenn fara að vasast í skólamálum vill að öllum jafni verða verri en að var stefnt. Að sumu leyti er það eðlilegt, því að skólamálefni eru þeim fæstum kunn. Þeir bara bera ekki skynbragð á þá hluti. Betra væri að þeir leituðu í upphafi ráða og hugmynda hjá þeim sem vit hafa á, áður en þeir fara að skipa málum.
Magnús Óskar Ingvarsson, 18.6.2010 kl. 14:42
EINMITT !! ótrúleg grunnhyggni, asnagangur og vitleysa - En ansans vesen er það að þið Jón skuluð ekki vera til í fjölriti eða að yfirvöld sjái ekki að svona kennsla er grunnurinn að öllu hinum -ásamt smá lestri skrift og reikningi :) Ég flagga fyrir ykkur!
Oddný Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 19:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.